Kveðja frá Nairobi til ónefnds þingmanns

 

Undirritaður átti þess kost, á sl. ári, að heimsækja barna- og unglingaheimili sem ABC samtökin íslensku reka í Nairobi, að langmestu leyti fyrir framlög einstaklinga. Heimilið er ætlað götubörnum og starfrækt í nágrenni við fátækrahverfið Matahari, en á því svæði búa um milljón manns og lifir fólk að jafnaði á hálfum öðrum dollar á dag eða minna.

Ég fór inní hverfið og tók fjölda mynda. Mér varð hugsað til myndasafnsins þegar ég sá eð einn kvenkynsþingmaður Framsóknarflokksins taldi enga ástæðu til að Íslendingar veittu fé í þróunaraðstoð. Umrætt heimili AbC samtakanna hýsir nálega 200 börn, en samtals njóta um 800 aðstoðar, meðal annars til að geta sótt skóla. 

mars_2012_162.jpgÞessi kona býr í bárujarnsskýli með börnin sín. Skýlið er á að giska 12 -14 fermetrar og heldur hvorki vatni né vindi. Líklegt er að maður hennar sé farinn fyrir fullt og allt. Þó getur hugsast að hann hafi verið að leita að einhverri vinnu part úr degi.

Algengt er að feðurnir hverfi þegar þeim finnst börnin vera orðin of mörg. Þá er stundum gripið til þess ráðs að koma nokkrum þeirra, kannski fjórum af átta, fyrir hjá öðru fólki eða taka þau á heimilið. Síðan er leitað að föðurnum. Í nokkrum tilvikum kemur hann aftur heim.

 

 

mars_2012_241.jpgUnga konan á myndinni "býr" í húsasundi við innganginn í hverfið. Hún er varla orðin tvítug. Tveimur dögum áður en við vorum þarna á ferð ól hún barn, á þessum stað. Sést í agnarsmáa hendi þess, neðst til hægri á myndinni.

Íbúar fátækrahverfanna njóta sjaldnast nokkurrar opinberrar þjónustu. Þar er ekki rennandi vatn, rafmagn eða skólplagnir. Þó hefur orðið sú framför síðustu ár að fleiri börn eru bólusett en áður, og lifa því af. Á nokkrum stöðum eru "almenningsklósett" sem íbúarnir geta keypt mánaðarkort í.

 

 

 

p1220411.jpg"Götumynd" frá Matahari. Vatn seitlar eftir miðju sundinu og er væntanlega ætlað að taka með sér mesta draslið. Til er hugtakið "fljúgandi klósett". Þá grípa íbúarnir til þess ráðs að gera stykki sín í plastpoka og henda honum síðan ut fyrir þegar skyggja tekur. Hefst þá mikil veisla fyrir rotturnar í grenndinni. Ekki þarf að taka fram að engar götulýsingar eru í hverfinu.

Hægra megin sést vel úr hverju skýlin eru gerð. Ef eldsvoði verður er engin leið að koma nokkrum nútíma slökkvitækjum við. Því verður jafnan stórtjón og mannskaðar ef kviknar í.

 

 Eins og gefur að skilja er hjálparstarf af þessu tagi eins og dropi í hafi. Alþjóðasamök, eins og UNICEF, kirkjudeildir og fl. og fl. eru að störfum í landinu og bjarga mörgum, einkum börnum. Misskiptingin í Kenya er himinhrópandi. Landsmenn eru um 40 milljónir og lifir um helmingurinn af 1 - 2 dollurum á dag. Ríkust 5% sitja að meginhluta þjóðarauðsins. Nýkjörinn forseti, Uhuru (þýðir sjálfstæði) Kenyjatta er einn af 10 ríkustu mönnum Afríku. Jafnast fátæktin á Íslandi á við það sem hér sést? Sem betur fer ekki, en það ætti að styrkja sjálfsmynd okkar að íslenka ríkið veiti nokkru fé til þróunaraðstoðar - eða skortir okkur kannski sómatilfinningu?

hágé.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hjálparstarf er gott, en ABC er ekki rekið af ríkisframlögum svo ég viti. En það verður að hafa í huga að á Íslandi eru heimilin að brenna upp vegna þess að stjórnvöld hafa glatað tengingu við fólkið. Þau hófu skjaldborg um þá sem eiga peningana og skildu heimilin í umsátri bankanna. Við erum ekki aflögufær sem þjóð, en mennirnir á þessum lista eru það áreiðanlega, því þeir skulduðu svo stórt að engum datt í hug að gera þá upp. Því finnst mér þú ættir að skoða þetta...áður en þú ræðst að fólki sem vill að þeim sem minnst hafa sé hjálpað fyrst hér heima.

http://is.wikipedia.org/wiki/Listi_yfir_afskriftir_fyrirt%C3%A6kja_%C3%AD_kj%C3%B6lfar_efnahagshrunsins_2008#Afskriftir_.C3.ADslenskra_fyrirt.C3.A6kja

G.Jóhannsdóttir (IP-tala skráð) 1.4.2013 kl. 22:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband