Er hægt að banna verðtryggingu óverðtryggra lána?

 

Ekki verður sagt um stjórnmálaumræður þessa dagana að þær séu beinlínis heillandi, en margir taka þátt í þeim, ekki síst í gegnum vefmiðla. Reiðin er yfirþyrmandi, reiðin yfir því að núverandi ríkisstjórn hafi ekki gert nóg til verndar heimilunum – hafi í staðinn verndað fjármagnseigendur. Merkilegast við þessa umræðu alla er að reiðin skuli ekki beinast að þeim sem áttu stærstan þátt í Hruninu. Þeir sem tóku við vonlausu búi, og hafa rétt það við svo eftir er tekið vítt um lönd, verða hinsvegar fyrir barðinu á reiði, líklega má segja almennings ef marka má skoðanakannanir. Á hér sannarlega við að bakari sé hengdur fyrir smið.

Stjórnarflokkarnir gjalda afhroð samkvæmt könnunum og eru þar í „góðum” félagsskap með Sjálfstæðisflokknum. Það er þó kostur við reiðina að skattalækkunardraumar þeirra sjálfstæðismanna – n.b. „fyrir heimilin” virðast ekki hrífa heimilisfólkið í landinu. Er reyndar engin furða því í venjulegum heimilisrekstri batnar afkoman yfirleitt ekki með lækkandi tekjum. Ennþá síður með auknum útgjöldum samtímis. Þetta einfalda reikningsdæmi læra börn strax í barnaskóla.


Einar Kristinn Guðfinnsson, efsti maður á D-listanum í NV-kjördæmi, skrifaði nýlega pistil í Fréttablaðið.Pistillinn heitir „20% skuldalækkun” og má kalla fyrirsögnina kunnuglega. Hann gerir grein fyrir því hvernig Sjálfstæðisflokkurinn ætli að lækka skuldir heimilanna og „draga úr skuldabyrðinni strax varanlega og til frambúðar.” Leiðirnar eru tvær, að því er Einar segir. Annarsvegar að borga „einstaklingi” kr. 40.000 í skattaafslátt beint inná höfuðstól húsnæðisláns. Hinsvegar að leyfa skuldurum að greiða séreignasparnað sinn beint inná höfuðstól íbúðalána. „En hversu framkvæmanlegar eru þessar tillögur. Kostnaðurinn fyrir ríkissjóð verður ekki meiri en svo að við hann verður vel ráðið.....Og við vitum að þær [tillögurnar] eru framkvæmanlegar og það strax.” [leturbr. hágé.]


Hér er sem sagt komin enn ein hugmyndin um að lækka skuldir heimila um 20% óháð því hverjar þær eru og hver greiðslugetan er. Þessar hugmyndir verður að skoða í samhengi við meginstefnu Sjálfstæðisflokksins um að lækka skatta. Að veita öllum skattafslátt um 40.000 þúsund á mánuði, sem væntanlega myndi þýða 80.000 fyrir hjón og sambýlinga, eða 960.000 á ári. Hvað hefur það í för með sér? Ég skal fúslega játa að ég er ekki mjög sleipur í reikningi. En í fljótu bragði sýnist mér þeir sjálfstæðismenn hugsa sér að lækka skattstofninn í landinu, eða skattana sjálfa, um tæplega milljón á mánuði fyrir hjón og um tæpa hálfa milljón fyrir einstaklinga. Það má auðvitað reikna þetta út en núllin verða þá svo mörg að þann sem hér stendur, hreinlega sundlar. Einar nefnir eingöngu ríkissjóð, hann muni vel ráða við slíka byrði, segir hann, en sleppir alveg að nefna sveitarfélögin. Ráða þau við slíkan afslátt á tekjum?


Svo virðist sem galdralausnir af þessu tagi svifi yfir flestum pólitískum vötnum um þessar mundir. Um leið er mörgum sérstaklega uppsigað við verðtrygginguna og halda að með því að taka óverðtryggð lán losni þeir við verðtryggingarófreskjuna. Eina leiðin til að losna við hana er að losna við verðbólguna. Aftur á móti ber ekki á neinum tillögum í þá átt. Óverðtryggð lán eru jafn verðtryggð og þau verðtryggðu. Lánveitandi sér til þess með því að ráða vöxtunum þannig að hann fái upphaflegt verðmæti lánsins til baka. Lántaka eru viðskipti. Lánveitandinn eignast skuldabréfið sem lántakandinn gefur út. Þess vegna er ómögulegt fyrir löggjafann að breyta skilmálum eldri bréfa, það gæti þýtt eignaupptöku hjá lánveitendum sem ríkissjóður yrði að greiða, en gæti alls ekki staðið undir, og gildir þá einu hversu reitt fólk er bönkum og öðrum lánveitendum.


Á hinn bóginn væri auðvitað hægt að banna verðtryggingu á lánum sem tekin verða í framtíðinni, en þá yrði um leið að banna þá vexti sem tryggðu lánveitandanum að fá sömu verðmæti til baka. Með öðrum orðum: Ekkert fær borgið heimilum frá hremmingum verðtryggingarinnar nema afnám verðbólgunnar. Hvernig má það vera að enginn skuli finna ráð til þess?

hágé.




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband