Um vandann að vera til

 
Þjóðvilinn hefur verið í löngu fríi, en kemur nú aftur á vettvang. Hann er til vinstri - þeim megin sem hjartað slær - eins og sagt var forðum. Hve lengi hann birtist að þessu sinni ræðst af úthaldi ábyrgðarmanns. Tekið verður á móti stuttum greinum (hámark 500 orð), enda séu þær lausar við fúkyrði og meiðandi ummæli um nafngreint fólk. Ekki spillir fyrir að höfundar séu fyndnir, eða a.mk. gamansamir. Greinar sendist á helgi.gudmundsson@gmail.com
 
ooooooooooooooooooooooooooooo
 
 
Sjálfstæðisflokkurinn landsfundaði á dögunum, um sömu helgina og VG. Trúir sínum hefðum sýndu sjálfstæðismenn sérstakan skilning sinn í reikningi, eins og stærðfræðin hét í gamla daga. Þá var krökkum kennt í barnaskóla mikilvægi þess að ein tala væri annarri hærri, sem gæti haft sínar afleiðingar. Sett voru upp einföld dæmi í þessa veru: Kalli á 10 krónur. Hann langar í appelsínu sem kostar 6 krónur og kaupir hana. Hvað fær hann margar krónur til baka?

Flestir krakkar voru fljótir að átta sig á dæminu. Líka þessu: Kalli á 6 krónur og langar í appelsínu sem kostar 10 krónur. Getur hann keypt appelsínuna? Skynugir krakkar sáu að það gat Kalli greyið ekki. Einhversstaðar varð hann að útvega sér fjórar krónur eða sleppa því að kaupa. Þessi einföldu dæmi virðast ofvaxinn skilningi þeirra Sjálfstæðismanna. Þeir segjast ætla að lækka skatta og gera allt fyrir alla um leið – einkum heimilin - „allskonar fyrir alla” eins og borgarstjórinn segir.

„Frumleiki” sjálfstæðismanna fellst í því að segja nákvæmlega það sama og þeir hafa gert um árabil, enda er það þægilegast. Að semja nýjar ályktanir, að ekki sé talað um að þær innhaldi nýja sýn á viðfangsefni samfélagsins við breyttar aðstæður – það er ekki heiglum hent.

Um svipað leyti svaraði ungur leiðtogi Sjálfstæðismanna, spurningum lesenda DV. Ein spurningin var um gjaldþrot Seðlabankans í hruninu.

„Seðlabankar verða ekki gjaldþrota. Þeir prenta bara meiri peninga,” svaraði ungi maðurinn efnislega.

Einföld og „snöll” núíma lausn fyrir ríkissjóð. Hallinn þar á bæ var talsvert á þriðja hundrað milljarða í upphafi þessa kjörtímabils. Steingrímjur J. Sigfússon fyrrum fjármálaráðherra, er eins og allir vita afar gamaldags. Trúr gamalli stærðfræði sá hann að appelsínur á 10 krónur yrðu ekki keyptar fyrir 6 krónur. Hann og félagar hans á þingi réðust af grimmd á ríkissjóðshallann og komu honum niður undir núllið á kjörtímabilinu. Sársaukafullt að sönnu, en það tókst. Þarna hafa þeir greinilega valið kelduna en ekki krókinn. Seðlabankinn hefði auðvitað átt að prenta meiri peninga og borga skuldina fyrir ríkissjóð, hvort heldur hún var innlend eða erlend. Prentvélar eru gagnlegt hagstjórnartæki.

Þetta hefði aðeins verið byrjunin. Í næsta skrefi hefðu skattar verið felldir niður, en prentvélarnar settar í gang og prentaðir peningar fyrir útgjöldum ríkissjóðs. Ríki sem á Seðlabanka verðurí ekki gjaldþrota, samkvæmt kenningu unga mannsins. Bankinn prentar fyrir hann þá peninga sem þarf. Frá hinni bráðsnjöllu „íslenksu leið” hefði svo verið sagt í erlendum blöðum undir fyrirsögnum á borð við þessa: Prentvélar í Bretlandi leysa efnahagsvanda Íslendinga. Og ekki nóg með það! Sú gamalgróna menningarþjóð, Grikkir, sem lepur nú dauðann úr skel – henni hefði mátt veita hraustlega efnahagsaðstoð með sömu aðferð. Þar í landi hefur mannfólkið fengið smjörþefinn af efnahagsmenningu hinna ríku – einkabönkum skal forðað frá gjaldþroti með sköttum á almenning og auknum skuldum ríkisins.

Í þessu – að 10 krónu appelsína verður ekki keypt fyrir 6 krónur felst galdur, sem nauðsynlegt er að skilja, þótt í því kunni um leið að felast einn vandinn að vera til.


hágé.

 
 
 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband