Viðskiptaumhverfi stjórnmálalífsins


Ekki verður því neitað að flóra stjórnmálalífsins sýnist næsta fjölskrúðug um þessar mundir. Fjöldi „flokka”, sem sumir vilja alls ekki kalla sig flokka, heldur eitthvað annað, munu að líkindum bjóða fram. Því miður virðast þeir ekki hafa að sama skapi margar nýungar og hagkvæmar lausnir fram að færa fyrir þjóðina, eins og fjöldi þeirra gefur til kynna. Tvennt virðist þó sameiginlegt með þeim flestum: annarsvegar að láta verðtrygginguna fara illilega í taugarnar á sér. Og hinsvegar að bjóða fram allskonar „galdralausnir” til að skera illa stödd heimili niður úr snöru gjaldfallina lána.
Á sama tíma kemur nýr formaður Samtaka iðnaðarins og staðhæfir í Silfri Egils að stjórnvöld séu fjandsamleg íslenskum iðnaði, viðskiptaumhverfið vitni um það. Ekki þarf að fjölyrða um LÍÚ: Stjórnvöld eru allt að því glæpsamlega andvíg sjávarútveginum: Hvað höfum við eiginlega gert ykkur? Þannig hljómaði angistar auglýsing samtakanna fyrir nokkru.

Það er vandlifað í heiminum og ekki er „viðskiptaumhverfi” hins hefðbundna stjórnmálalífs beinlínis til að hrópa húrra fyrir. Þannig safnast nú í eina rétt ótal hópar með hugmyndir, sem þeir skilja ekki hvers vegna ríkisstjórnin hefur ekki hrint í framkvæmd, eins og lausnirnar eru þó „auðskiljanlegar og auðveldar”. Sennilega er sú merkilegust sem fjallar um að skera niður skuldir heimilanna um 20% eða meira, jafnt yfir alla skuldara, án þess að slík aðgerð kosti ríkissjóð nokkurn skapaðan hlut. Mörgum verður reyndar á að spyrja: Vaxa peningar, sem til þessa þarf, á kræklóttum trjám Íslands? Koma þeir af himnum ofan? Eða er silfur Egils Skallagrímssonar, þess mikla nurlara, kannski fundið? Það væri nú spennandi!

Sama er um verðtrygginguna, sem er allra bölvaldur. Kveður nú hver í kapp við annan að hana verði að afnema. Líklega eigi síðar en nú þegar. Hún er hinn mikli þjófur sem hefði átt að stinga inn fyrir löngu. Ríkisstjórnin er versta ríkisstjórn frá lýðveldistímanum og hefur svikið hérumbil allt sem mögulegt er að svíkja – jafnvel meira til. Hvar er nú skjaldborgin um heimilin? „Viðskiptaumhverfi” stórnarflokkanna er ekki beinlínis vinsamlegt um þessar mundir, svo ekki sé fastar að orði kveðið. Til viðbótar við fjölradda kór gamalla og nýrra stjórnmálahreyfinga koma samtök atvinnurekenda og raunar verkalýðshreyfingin líka og kyrja sama sönginn:ALLT ER VITLAUST OG ÓMÖGULEGT, SVIKIN LOFORÐ OG FLEST Á LEIÐ TIL GLÖTUNAR. En engin nefnir að afnema verðtryggingu með því að afnema verðbólgu.

Þeir sem þjást af heilbrigðri skynsemi spyrja aftur á móti „heimskulegra” spurninga. Því ætti ríkisstjórnin að vera á móti iðnaðinum? Þarf ekki að búa eitthvað til í þessu landi? Er ekki rétt að fólk hafi eitthvað að gera, geti farið í vinnuna að morgni og komið heim að kvöldi.? Og því ætti ríkisstjórnin að vera á móti sjávarútveginum? Þurfum við ekki gjaldeyristekjur, eða hvað? Er ekki ástæða til að nýta auðlindina? Heilbrigða skynsemin botnar sem sagt ekkert í því einkennilega „viðskiptaumhverfi”, sem stjórnarflokkarnir þurfa að þrífast í. Þó virðist eitt ljóst: Samtök atvinnurekenda eru í mjög vondu skapi og hlakka greinilega óskaplega til að fá nýja ríkisstjórn (væntanlega með Sjálfstæðisflokkinn innanborðs). Þá verða skattar lækkaðir „til bjargar heimilunum”. „Kakan verður stækkuð” þannig að meira verði til skiptanna. Og auðvita verður meira til skiptanna ef jafnmargir snæða stærri köku. Og þá gefst þeim, sem venju samkvæmt, eru frekastir til fjárins, tækifæri til að ná í stækkun kökunnar fyrir sig.

Hvernig sem á því stendur fer fólk samt þúsundum saman í vinnu (líka í iðnaði), bátar fara á sjó, stórskip veiða loðnu síld og makríl, ferðamenn þyrpast til landsins, stóriðjan malar gull, skapandi greinar velta milljörðum, færri eru atvinnulausir en áður.

Meðal annarra orða. Hefur stjórnarandstaðan heyrt talað um hrun fyrir fjórum árum?
hágé.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband