Þeir þurfa ekki að laga fleiri fljót

Eyjan.is sagði svo frá í kvöld, miðvikudagskvöld: 

Álrisarnir Alcoa og Norðurál borga litla sem enga tekjuskatta hér á landi, heldur fer stór hluti hagnaður þessara fyrirtækja í skuldir við móðurfélög í ríkjum þar sem skattar eru lægri. Með þessu móti verður íslenska ríkið af milljörðum króna.

Þetta kemur fram í ítarlegri umfjöllun Kastljóss RÚV í kvöld.

Þar er fléttunni, sem mun vera algild leið stórfyrirtækja til að lágmarka skattgreiðslur, lýst svona:

Alcoa og Norðurál eru alþjóðleg fyrirtæki með rekstur hér á landi, þar sem tekjur og hagnaður verða til. Eignarhaldið er hins vegar flókið, en fer í gegnum systurfélög í Luxembourg í tilviki Alcoa og Delaware í Bandaríkjunum í tilviki Norðuráls og þaðan í móðurfélögin. Fyrirtækin hér á landi eru fjármögnuð í gegnum þessi systurfyrirtæki, og skulda þeim hundruð milljarða króna, og borga hundruð milljóna í vaxtakostnað af þessum lánum. Sá kostnaður kemur til frádráttar tekjum og þar af leiðandi þeim sköttum sem lagðir eru á þessi fyrirtæki hér á landi.

Í Kastljósi kemur fram að með þessu móti hafi Alcoa ekki greitt krónu í tekjuskatt síðan árið 2003. Þar að auki á félagið inneign á móti sköttum næstu ára.

Álver Norðuráls á Grundartanga hefur ekki greitt tekjuskatt fyrir þrjú rekstrarár.

Íslenskum stjórnvöldum hefur verið bent á að þessu þurfi að breyta, meðal annars af Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Ekkert hefur hins vegar gerst í þeim málum.”

Það er ekki nýtt að álfyrirtækin hafi beitt bókhaldsbrellum til að komast hjá sköttum hér á landi. Þekktasta dæmið er “hækkun í hafi” sem þeir Hjörleifur Guttormsson og Ingi R. Helgason flettu ofan af 1983. Álverið í Straumsvík var þá í eigu erlends auðhrings. Auðhringurinn seldi sjálfum sér hráefnið, súrál, frá Ástralíu og flutti það til Íslands. Verðið frá Ástralíu reyndist hins vegar vera mikið lægra en verðið sem auðhringurinn bókfærði á Íslandi. Það hafði orðið hækkun í hafi. Á sama tíma greiddi álverið svívirðilega lágt verð fyrir raforkuna á Íslandi. Vopnaður þessum staðreyndum hóf Hjörleifur baráttu með sínum mönnum gegn álhringnum og krafðist hærra raforkuverðs. Álhringurinn neitaði í fyrstu og fjármálaráðherra Alþýðubandalagsins skuldfærði álhringinn fyrir sköttum upp á verulegar fjárhæðir. Að lokum fór svo að álhringurinn neyddist til að hækka raforkuverðið – af því að herferðin “hækun í hafi” hafði borið árangur. Þetta er eina raunverulega tekjuhækkunin sem Landsvirkjun hefur fengið af stóriðju á Íslandi svo um muni. Með þessari hækkun seinkaði næstu stóriðjuskrefum og þar sem seinkaði atlögunni að íslenskum náttúruverðmætum.

Afhjúpun Kastljóssins sýnir að það er eins gott fyrir íslensk stjórnvöld að vera á verði. Það þarf líka að gæta sín á sívaxandi áhifum álfyrirtækjanna á íslensk stjórnmál og stéttaátök. Það er umhugsunarvert að nýr framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins kemur frá Samtökum álfyrirtækja. Það eru kaflaskil.

Framundan eru kosningar. Þær kosningar snúast um stóriðju eða náttúruvernd, hagvöxt sem byggist á rányrkju eða sjálfbærum efnahag. Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn eru samkvæmt skoðanakönnunum að komast til valda. Er ekki rétt að gæta sín? Það er hætta til hægri. Það er búið að drepa lífríkið í Lagarfljóti. Það er nóg komið.

s.



« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband