Mikilvægar ferilskrár

 

C Vaffið 2

Hlustum ekki á sperrileggina, og ekki á niðurrifsseggina.

Þegar við kjósendur veljum okkur fólk til að stjórna landinu næstu 4 árin, er mikilvægt að beita réttum aðferðum við valið. Við mannaráðningar á almenna markaðnum horfa menn mest á CV (ferilskrána) Ekki hvað menn segjast ætla að gera. CV er öruggari gögn en loforðalisti. Mig langar til að bera saman “ferilskrá” tveggja þingmanna sem báðir bjóða sig fram fyrir Norðvesturkjördæmi: Einars K. Guðfinnssonar og Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur.

Þegar Sjálfstæðisflokkurinn var við stjórn, voru teknar margar mikilvægar ákvarðanir, en ekki allar gáfulegar. Mig langar að nefna 3 atriði: Sala bankanna, Þjóðhagsstofnun lögð niður og stuðningur Íslands við innrásina í írak:

1. Sala bankanna: Það að stóru ríkisbankarnir voru seldir báðir í einu til ævintýramanna var upphafið að því að því að bankarnir voru rændir innanfrá, og fóru á hausinn aðeins 8 árum eftir að þeir voru seldir.

2. Þjóðhagsstofnun lögð niður: Þjóðhagsstofnun var óháð stofnun sem varaði við þeirri óheillaþróun sem var að byrja. Þessu reiddist þáverandi forsætisráðherra, DO, og lagði niður stofnunina. Eftir það voru það greiningadeidir viðskiptabankanna sem sáu um mat á efnahagsástandi og tillögur um aðgerðir í efnahagsmálum. Þetta var í raun galið fyrirkomulag, því að greiningadeildirnar höfðu hag af því að fegra ástandið. Sem þær gerðu, og gátu gabbað okkur hin löngu eftir að öll heimsbyggðin vissi að hér var allt að hrynja.  

3. Íraksstríðið: Ein umdeildasta ákvörðun íslenskra stjórnvalda í seinni tíð er stuðningur Íslands við innrásina í Írak. Á Alþingi var m.a. deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar að Ísland veitti stuðning við innrásina; yrði hluti af því sem Bandaríkjastjórn kallaði „hinar viljugu þjóðir“ eða „coalition of the willing“. Þetta er og verður smánarblettur á þjóðinni.

Hvað gerði Einar?

Lilja Rafney var ekki á Alþingi á þessum tíma, en svona greiddi Einar K atkvæði:

1. Sala bankanna*)

Fyrst felldi hann breytingatillögu frá Jóhönnu Sigurðardóttur og Margréti Frímannsdóttur sem hljóðaði m.a. svona: Áður en sala á hlutafé ríkissjóðs í Landsbanka Íslands hf. og Búnaðarbanka Íslands hf. skv. 2. mgr. 6. gr. er hafin skal leita álits og samþykkis Seðlabanka Íslands og Þjóðhags stofnunar á því að aðstæður á fjármálamarkaði séu með þeim hætti að hyggilegt sé að ráðast í söluna.”

Félagar Lilju í VG og Samfylkingin samþykktu breytingatillöguna, en hún var felld.

Svo samþykkti Einar frumvarpið óbreytt. VG og Samfylking á móti.  


2. Þjóðhagsstofnun lögð niður **)

Hér kom stjórnarandstaðan líka með breytingatillögu sem hefði verið til bóta: Þar segir m.a:

Stofna skal sérstakt hagsvið við skrifstofu Alþingis sem taki til starfa 1. janúar 2003. Kostnaður af starfsemi þess greiðist af fjárlögum.”

En þetta var fellt af fulltrúum Sjálfstæðis og Framsóknar. Aðrir voru fylgjandi. Síðan var það samþykkt að þurrka Þjóðhasstofnun út úr lagatextum. Við báðar atkvæðagreiðslurnar var Einar fjarverandi.


3. Íraksstríðið.

Ögmundur jónasson og fleiri, flutti tillögu til þingsályktunar svohljóðandi.
“Að ríkisstjórnin beiti sér gegn áformum um innrás í Írak og að Ísland standi utan við hvers kyns hernaðaraðgerðir gegn Írak”.

Það var samþykkt að vísa þessu máli til utanríkismálanefndar. Einar var fjarstaddur við atkvæðagreiðsluna. En utanríkismálanefnd afgreiddi ekki tillöguna. Af 9 fulltrúum í utanríkismálanefnd voru 6 frá stjórnarmeirihlutanum, þar á meðal Einar. Nokkrum dögum seinna ákváðu Davíð Oddson og Halldór Ásgrímsson að Ísland styddi hernaðaraðgerðirnar.



Hvað gerði Lilja?

Hún hefur m.a. unnið að nýju fiskveiðistjórnunarfrumvarpi, sem mun færa þjóðinni eðlilega (eðlilegri) rentu af fiskveiðiauðlindinni. En veiðigjaldið hefur verið hækkað umtalsvert á þessu kjörtímabili. M.a. var það hækkað síðastliðið vor. Tekjurnar af því nema uþb 10 milljörðum. Það hjálpar þannig til að verja heilbrigðiskerfið, löggæsluna, og annað sem þurft hefur að búa við mikinn niðurskurð á síðustu árum.

Lilja greiddi atkvæði með hækkuninni, en Einar var á móti ****)



Skoðum hvað okkar fólk gerði.

Hér að neðan setti ég inn linka á vef Alþingis á þau mál sem ég tala um. Ég hvet þig lesandi góður að skoða hvað þínir fulltrúar hafa verið að gera, hverju þeir hafa greitt atkvæði. Nú er Einar ekki sá versti í Sjálfstæðisflokknum. En: Það kann að vera að menn geti talað valdsmannslega og borið sig vel. En eru þeir að vinna fyrir þig?


Kveðja, Reynir Eyvindsson

5 maður á lista vg í Norðvestur kjördæmi.



Sjá alþingi .is:

*) 126. löggjafarþingi 2000—2001. 521. mál lagafrumvarp Lög nr. 70/2001,

**)

127. löggjafarþingi 2001—2002. 709. mál lagafrumvarp Lög nr. 51/2002,

***) 128. löggjafarþing 2002–2003.Þskj. 807 — 491. mál.

****) 140. löggjafarþing Lög nr. 74 26. júní 2012 Þingskjal 1652, 658. mál: .



 




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband