14.4.2013 | 15:33
Samgöngur - sjávarútvegur og ESB
Samgöngumál:
Vinstri græn leggja ríka áherslu á almenningssamgöngur sem ódýran, umhverfisvænan og hagkvæman kost. Auka þarf vægi þeirra hvarvetna á Íslandi og gera þær aðgengilegar. Ástæða er til að gefa gaum allri nýbreytni á því sviði, þar á meðal lestarsamgöngum. Einnig þarf að efla þær almenningssamgöngur sem fyrir eru svo sem strætisvagna og langferðabíla. Byggja skal upp að nýju net almenningssamgangna á landinu öllu og huga þá sérstaklega bæði að strandsiglingum og flugi. Mikilvægt er að bera saman kostnað af slíku neti almenningssamgangna og vegagerð fyrir einkabíla.
Öll meiriháttar samgöngumannvirki eiga að vera háð mati á umhverfisáhrifum framkvæmdanna. Auka þarf markvisst hlut endurnýjanlegra orkugjafa og taka mið af raunverulegum umhverfis- og orkukostnaði við skipulagningu samgangna og flutninga.
Umferðaröryggi er sá þáttur sem vegur hvað þyngst við skipulag og þróun samgangna. Brýnast er að lagfæra svokallaða svarta bletti sem eru sérstakir slysastaðir bæði í þéttbýli og dreifbýli.

Jafn aðgangur landsmanna að fyrsta flokks gagnaflutninga- og fjarskiptamöguleikum er úrslitaatriði. Tryggja þarf jafnrétti, ekki aðeins með aðgengi hvað tæknimöguleika áhrærir heldur einnig kostnað. Stefna ber að breiðbandsvæðingu landsins og jöfnu aðgengi allra að upplýsingahraðbrautinni. Verði þetta ekki gert gæti mismunun að þessu leyti orðið tilefni nýrrar og alvarlegrar stéttaskiptingar.
Sjávarútvegsmál:
Vinstrihreyfingin - grænt framboð vill tryggja ævarandi þjóðareign á sjávarauðlindum í kringum Ísland. Með upptöku nýtingarleyfa verður eignarréttur þjóðarinnar á auðlindinni viðurkenndur og meint einkaeignarréttarleg krafa útgerðarinnar þar með úr sögunni. Einnig er mikilvægt að festa í stjórnarskrá ákvæði um sameign þjóðarinnar á náttúruauðlindum, þ.m.t. nytjastofnun og öðrum auðlindum hafsins.
Setja verður takmarkanir á frjálsu framsali aflaheimilda þannig að öll aflaaukning til handhafa nýtingarleyfa verði óframseljanleg og nýti þeir hana ekki renni hún til ríkisins sem endurráðstafi henni, t.d. á opinberum leigumarkaði. Vinstri græn vilja lögbinda að hluti afla fari ávallt á fiskmarkað. Þannig má tryggja að skiptaverð til sjómanna endurspegli raunverulegt fiskverð og auka atvinnuöryggi fiskvinnslufólks með jafnara aðgengi fiskvinnslu að hráefni allt árið. Að auki þarf innlendum fiskaupendum að standa til boða að bjóða í óunninn afla áður en hann er fluttur úr landi. Fyrirtæki í sjávarútvegi eiga að lúta samkeppnislögum líkt og önnur atvinnustarfsemi.
Lög um strandveiðar, sem sett voru á kjörtímabilinu, voru framfaraskref og komu til móts við álit mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna um atvinnufrelsi. Strandveiðarnar hafa skapað vinnu og hleypt lífi í margar sjávarbyggðir og þannig sannað gildi sitt. Mikilvægt er að halda áfram að þróa útfærslu á þeim, sem tryggir jafnræði á milli svæða.
Evrópumál:
Deilur um mögulega aðild Íslands að Evrópusambandinu hafa verið fyrirferðarmiklar í þjóðmálaumræðunni um langa hríð. Mikilvægt er að leiða málið til lykta með því að ljúka yfirstandandi aðildarviðræðum og bera niðurstöðuna undir þjóðaratkvæði.
Afstaða Vinstri grænna er þó sú að hagsmunum Íslands sé betur borgið utan Evrópusambandins. Samskipti við sambandið ber að þróa í átt til samninga um viðskipti og samvinnu, m.a. á sviði menntamála, vinnumarkaðsmála og umhverfismála.
Hugsanlegur ávinningur af aðild Íslands að ESB réttlætir ekki frekara framsal á ákvörðunarrétti um málefni íslensku þjóðarinnar og er aðild að Evrópusambandinu því hafnað. Hagsmunir fjármagns og heimsfyrirtækja eru í alltof ríkum mæli drifkraftar Evrópusamrunans, miðstýring, skrifræði og skortur á lýðræði einkennir stofnanir þess um of.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.