Lenín í þjónustu frjálshyggjunnar

 

Undanfarið hefur þjóðin fengið að fylgjast með sérkennilegri uppákomu innan Sjálfstæðisflokksins. Skuldinni af minnkandi fylgi flokksins í skoðanakönnunum hefur hópur Sjálfstæðismanna skellt á formanninn, Bjarna Benediktsson. Gekk þetta svo langt að hópurinn, (sem ef til vill er ekki stærri en Kjartan Gunnarsson og Davíð Oddson), stóð fyrir skoðanakönnun. Kannað var hvort þeir kjósendur, sem eiga að hafa yfirgefið flokkinn, myndu frekar kjósa hann ef formaðurinn vildi vera svo vinsamlegar að hætta, og láta varaformanninn taka við. Niðurstaðan var nokkuð ljós. Fylgi flokksins myndi aukast við skiptin

Könnunin leiddi, eina ferðina enn, greinilega í ljós að Sjálfstæðisflokkurinn er afar sérkennilegt fyrirbæri. Innan flokksins mallar ágreiningur eins og vellingur í potti. Um hvað hann er kemur aftur á móti hvergi fram. „Könnunarhópurinn” virðist telja að hinar ósýnilegu deilur megi leysa með því að kasta formanninum fyrir borð á lokaspretti kosningabaráttunnar.


Þetta tiltæki er næsta kostuglegt og ber vitni um menntaskólaþroska á stjórnmálasviðinu. Ungt fólk sér skiljanlega einfaldar lausnir á hverjum vanda, en oddvitarnir tveir (DO og KG) hafa marga fjörunu sopið og ættu að vita að svona nokkuð er í besta falli hæpið en fyrirsjánlega mislukkuð atlaga að Sjálfstæðismönnum sem ekki vilja kjósa flokk sinn. Sérstaklega að formanninum. Sem enginn hefur reyndar heyrt að hugsi sér að kjósa framsókn.


Fyrir vinstri menn og almenning í landinu gildir einu hvað formaður Sjálfstæðisflokksins heitir, jafnvel líka hvort hann er karl- eða kvenkyns. Stefnan er hin sama. Formaðurinn sagði í sjónvarpsviðtali að niðurstaða könnunarinnar yrði til þess að hann myndi taka sér tvo daga og „íhuga stöðu sína”, svo vitnað sé efnislega til orða hans. Og auðvitað varð niðurstaðan sú að hann héldi áfram. Þó nú væri, maðurinn er nýkjörinn.


Á hinn bóginn kom annað skondið í ljós í þessari uppákomu allri. Haldinn var „merkur” fundur í heimabæ formannsins, þar sem hann var hafinn til skýjanna og góðir stuðningsmenn klöppuðu af lukku. Eftir samkomu þessa ræddi sjónvarpið svo við hinn nýendurreista formann. Rennur þá ekki upp úr honum gamalkunnur frasi úr fræðum þeirra sem lengst hafa staðið til vinstri í gegnum tíðina: „Sjálfstæðismenn leysa sín mál innan flokks. Þegar formaður hefur verið kosinn styðja menn hann þangað til nýr tekur við.” (Efnislega eftir haft). Þetta var kallað "lýðræðislegt miðstjórnarvald". Í lenínískum fræðum er sagt að flokksmenn lenínískra flokka hafi fullann rétt til að taka upp mál innan flokksins, ræða þau þar, en hlíða svo niðurstöðu æðstu stofnana. Allt annað var bannað, ekki síst að gera ágreining ljósan fyrir almenningi. Greinilegt er að sama vinnulag gildir í Sjálfstæðisflokknum og formaðurinn kann textann sinn. Á milli landsfunda eiga flokksmenn og háttvirt atkvæði að gegna því sem við þá er sagt.


Öldin hefur verið talsvert önnur hjá Vinstri grænum undanfarin ár. Þar á bæ hefur orðið efnislegur ágreiningur, sem öllum er ljós. Um Icesave, um 20% leið, um ESB o.fl, o.fl. Félagar hafa hrokkið fyrir borð og fyrrverandi formaður legið undir þungum áföllum, sem blöstu við öllum. Að óreyndu hefði maður reiknað með að „frjálsir” menn í Sjálfstæðisflokki nýttu „frelsi” sitt á þennan hátt til að koma ágreiningi upp á yfirborðið. En svona nokkuð gerist ekki í Sjálfstæðisflokknum. Menn halda sér saman, koma ekki fram þegar atlaga er gerð að formanninum, nefna ekki um hvað málefnaágreiningur kunni að vera, ef hann er einhver. Fyrsta flokks lenínísk vinnubrögð, ekki til framgangs vinstri róttækni, heldur hægri frjálshyggju.

Svona getur veruleikinn farið með „grandvara” frjálshyggjumenn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband