Ragnar Árnason og hagfræðin


Minn góði kunningi, Ragnar Árnason hagfræðingur, ritar grein í Morgunblaðið í dag, 16. apríl, um alvarlega efnahagsstöðu Íslands. Greinin er gagnleg áminningum um það sem gerðist 2008 og um að erfiðleikunum sé langt í frá lokið. Skuldsetning ríkissjóðs sé allt of mikil, vandi skuldsettra heimila sé langt í frá leystur.

Ástæðuna fyrir erfiðleikunum telur Ragnar ekki aðeins hrunið 2008, sem hafi verið angi af alþjóðlegum áföllum. Hrunið hafi verið afdrifaríkara hér á landi vegna stærðar bankakerfisins í hlutfalli við íslenska efnahagskerfið, en verst sé að vandanum hafi verið mætt á alrangan hátt, m.a. með hækkuðum sköttum, „gríðarlegri opinberri eyðslu, miðstýringaráráttu, gjaldeyrishömlum og almennri haftatrú, árásum á grunnatvinnuvegi þjóðarinnar og almennri andúð á einkaframtaki og framleiðslustarfsemi.” Til að sýna fram á réttmæti fullyrðinga sinnar miðar Ragnar við árið 2007 og bendir á að flest sé miklu lakara en þá.


Hugleiðingar Ragnars varpa því miður óskýru ljósi á þann vanda sem kjósendur eiga við að glíma fyrir kosningarnar. Hverja á að kjósa? Hann nefnir ekki hverjar skuldir ríkissjóðs urðu á einni nóttu haustið 2008, en bendir réttilega á að ríkissjóður hafi verið skuldlítill 2007. Þessi nálgun er dæmigerð fyrir hagfræðinga og þá menn sem þá grein stunda. Ríkissjóður fékk yfir sig holskeflu skulda og gjaldþrota seðlabanka. Hallinn var skyndilega 216 milljarðar. Stjarnfræðileg upphæða á mælikvarða almennings. Þegar núverandi ríkisstjórn tók við lék enginn vafi á að skellurinn yrði alvarlegur og myndi koma víða niður. Honum skyldi mæta með breytingum á skattkerfinu, hærri sköttum á efnameiri en hlutfallslega lægri á hina efnaminni, og víðtækum niðurskurði.


Ekki verður séð, eða fyllyrt með rökum, að ríkisstjórnin hafi sérstakan áhuga á höftum. Fram að þessu hefur enginn merkjanlegur skoðanamunur verið milli stjórnmálaflokkanna um að hjá þeim hafi ekki verið komist. Hærri skattekjur + niðurskurður á öllum sviðum hlaut að koma illa niður. Þessu hefur aldrei verið leynt. Hugmyndin um að ná niður ríkissjóðshalla og skapa stöðugleika til að byggja upp aftur hefur staðið óbreytt í stjórnarstefnunni allt kjörtímabilið. Í hlutarins eðli liggur að slíkar tiltektir eru ekki til vinsælda fallnar.


Viðmiðun Ragnars við árið 2007 er afar ósanngjörn, og góður vitnisburður um hvernig hagfræðin getur leikið staðreyndirnar grátt. Árið 2007 þandist efnahagskerfið út á grundvelli þeirra loftbólupeninga sem snillingar bankakerfisins bjuggu til. Á þeim grundvelli þandist byggingabólan út, húsnæðisverð hækkaði (sem er að sönnu bæði kostur og galla). Svo kom skellurinn árið eftir, haustið 2008. Miklu sanngjarnara væri að miða við árin á undan, þegar efnahagslífið var nær eðlilegu ástandi. Hagfræðin er því marki brennd að fræðimennirnir geta fengið nánast hvaða útkomu sem þeir kæra sig um, án þess að fara beinlínis rangt með. Ragnar fer heldur ekki rangt með um áfallið, en að halda því fram að ríkisstjórnin sé haldin almennri „haftatrú” og geri vísvitandi árásir á grunnatvegina er beinlínis út í hött.


Sjávarútvegurinn hefur líklega aldrei verið rekinn með jafn miklum hagnaði. Að einhver hluti af auðlindaarðinum renni í sameiginlega sjóði, er ekki fjandskapur við greinina, heldur fullkomlega eðlileg gjaldtaka, enda leggst gjaldið á eftir að fyrirtækin hafa greitt allan annan kostnað.


Vonandi skrifar Ragnar fleiri greinar í Morgunblaðið (þessi Þjóðvilji er líka opinn honum) þar sem hann gerir grein fyrir hvað hefði átt að gera, en síðast en ekki síst: Hvað ber að gera á næstu árum til að koma okkur út úr vandanum sem allir vita að er fyrir hendi.


hágé.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristbjörn Árnason

En samt finnst mér þetta viðmiðunarár býsna spennandi því það sýnir svo berlega hvernig ársreikningar og síðan athugasemdarlausar ályktanir hagfræðinga geta villt fólki sýn.

Dæmi úr sameiningarumræðum sveitarfélaga á Suðunesjum.

Stöndugt sveitarfélag samkvæmt ársreikningum ár eftir ár. Fram höfðu komið tillögur um að það sameinaðist öðru sveitarfélagi sem sýndi verulegar skuldir í sínum ársreikningum.

En sveitarstjórnarmenn í þessu stönduga sveitarfélagi lögðust eindregið gegn því þegar kosið var um sameingar sveitarfélaganna að sveitarfélögin sameinuðust og bentu á þessa skuld.

En staðreyndin var sú að þetta sveitarfélag sem skuldaði var nýbúið að byggja rausnarleg íþróttamannvirki, sundlaug og var með nýleg skólamannvirki. Stór hluti kostaðar var enn í skuld. Það sveitarfélag stóð sig einnig mjög vel er snéri að öllum félagslegum skyldum þess við íbúa sveitarfélaganna.

Það skuldlausa hafði ekki byggt upp sambærileg íþróttamannvirki og stóð sig ekki vel varðandi félagslega þjónustu. Skólamannvirki liðu fyrir lítið viðhald og léleg sundlaug og aðeins lítill íþróttasalur.

Við getum auðveldlega komið okkur saman um hvort sveitarfélagið stóð betur þótt ársreiknaingar væru tæplega sammála okkur.

Ríkisstjórnin sem tók við árið 2007 fékk í arf glæsilegan ársreikning. En staðreyndin var allt önnur því skuldbindingar ríkissjóðs voru faldar. Í raun var staða ríkissjóðs eins og hverjar aðrar brunarústir.

Ríkisstjórn hafði einmitt tekist það, að koma af ríkisjóði mjög dýrum kosntaðarliðum sem voru með fasta mínusliði í ársreikningum.

Ríkisstjórnin hafði árum saman svelt grunnskólakerfið, en stuttu fyrir aldamótin síðan rekstur þeirra skyndilega færður yfir á sveitarfélögin. Stór mínusliður hvarf úr bókhaldinu en engu að síður var skuldbinndingin sú sama.

Þannig varð um marga liði bara t.d. í heilbrigðiskerfinu sem fór mjög illa út úr þessum hundakúnstum sem bitna á fólki og ríkið stóð ekki við fyrri skuldbindingar. Tryggingarkerfið hefur m.ö.o. brugðist mjög veiku fólki.

Þetta er komið nóg, en auðvitað er auðvelt að halda áfram.

kveðja Kristbjörn

Kristbjörn Árnason, 16.4.2013 kl. 15:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband