Er neysluvísitalan heilög?

Samtök ferðaþjónustunnar lýsa furðu sinni á hækkun neysluskatta og kvarta stórum yfir því sem koma muni yfir ferðabransann. Sjálfsagt er fyrir samtökin að gæta hagsmuna félagsmanna sinna, en um leið er ástæða til að spyrja. Bjuggust samtökin virkilega við því að gjöld af vörum eins og brennivíni og tóbaki yrðu látin óbreytt þegar leitað er leiða til að ná niður halla ríkissjóðs um tugi milljarða?

Stjórnarflokkarnir hafa vikum saman boðað "blandaða" leið til að rétta af halla ríkissjóðs. Hvað fellst í "blandaðri leið"? Varla getur leikið vafi á að með henni er ætlunin að hækka skatta og lækka útgjöld. Þetta er ósköp einföld formúla, sem óhjákvæmilega felur í sér að neysluskattar muni hækka, tekjuskattur líka um leið og lagalegt færi gefst. Niðurskurðurinn kæmur væntanlega helst við stærstu útgjaldaliðina ásamt mörgum smáskömmtum útum allt í ríkisbúskapnum. Þá munu væntanlega fleiri en Samtök ferðaþjónustunnar láta í sér heyra.

Að neysluskattar séu hækkaðir getur ekki komið nokkrum manni á óvart. Hitt kemur aftur á móti á óvart að hvorki ríkisstjórnin né aðilar vinnumarkaðarins víkja orði að því hvernig draga megi úr slæmum afleiðingum hækkunarinnar á heimili og fyrirtæki. Í því efni liggur beinast við að breyta neysluvísitölunni þannig að hækkanir á neyslusköttum eða opinberri þjónustu verði ekki reiknaðar inní vísitöluna t.d. til ársloka 2010. Neysluvísitalan er ekki heilög og ástæðulaust að láta hana hækka lán enn frekar en orðið er. Einhver kann þá að segja: en hvað þá með lífeyrisjóðina? Þeir verða að fá sína óskertu verðtryggingu. Vissulega þarf að gæta að þeim. Á hinn bóginn er langlíklegast að tímabundin festing vísitölunnar, þannig að hækkandi neyslukattar og hækkanir á opinberri þjónustu séu utan við hana, komi sjóðunum til góða þegar til lengdar lætur. Slík aðgerð væri til þess fallin að draga úr verðbólgu og bæta kaupgetu skuldara.

Ríkisstjórn og aðilar vinnumarkaðarins tala nú um stöðugleikasáttmála og eiga þá við stöðugleika efnahagslífsins. Ekki skal dregið úr mikilvægi hans, en það er líka áríðandi að ná stöðugleika hugarfarsins í þjóðfélaginu. Allir sem vilja vita kannast við að mikill urgur og óvissa er meðal landsmanna. Sýni máttarstólpar þjóðfélagsins ekki trúverðuga tilraun til að draga úr skuldsetningu heimila mun óánægjan vaxa stórum. Neysluvísitalan getur ekki verið heilög. Henni hlýtur að mega breyta á þann veg að opinberar aðgerðir til að stoppa upp í fjárlagagatið hafi ekki áhrif á skuldsetningu heimilanna.

Verði slíkt inngrip hvorki í "blandaðri leið" né í stöðuleikasáttmála er hætt við að aftur sjóði uppúr þegar nær dregur skammdegi. Vill verkalýðshreyfingin það, eða stjórnarflokkarnir?

hágé.


mbl.is Lýsa furðu á skattahækkunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband