7.6.2009 | 01:11
Mislukkuð hundahreinsun
Framsóknarflokkurinn gekk eins og nýhreinsaður hundur til síðustu kosninga. Kosin var splunkuný forysta fyrir flokkinn og nánast eingöngu ný andlit birtust á framboðslistum hans. Nýi formaðurinn kallaði kosningaundirbúninginn nýtt upphaf gott ef sami maður hafnaði ekki fortíðinni - framtíðin ein skipti máli. Mörkuð var ný stefna í Evrópumálum. Hinn nýhreinsaði flokkur aðhyllist aðild að Evrópusambandinu, þó að uppfylltum áveðnum skilyrðum. Reyndar verður ekki séð að flokkurinn boði að öðru leyti nýja pólitík. Þess verður að minnsta kosti ekki vart enn sem komið er.
Nú hefur það gerst að ríkisstjórnin hefur samið um Icesafe reikningana á þann hátt að Íslendingar borgi, en gefist tóm til að koma eignum Landsbankans í verð á næstu sjö - fimmtán árum. Þannig á að gefast ráðrúm til að láta þær bera vexti og koma í verð þegar betur árar á fjármálamarkaði. Að skilja efni þessa samnings er því ekki flókið, nema hvað nauðsynlegt er að vita hvað áður gerðist, hvað orsakaði það að Íslendingar komust í þessa skelfilegu stöðu.
Þegar neyðarlögin voru sett í haust og ríkisstjórn Geirs Haarde tilkynnti að allar innistæður í íslenskum bönkum yrðu tryggðar, flutu innistæðurnar á Icesafe reikningunum (kannski óvart) með, því Landsbankinn í Bretlandi var íslenslur banki en ekki breskur eins og Kaupþing í sama landi. Á undan þessu hafði sama ríkisstjórn látið allar viðvaranir, um að illa kynni að fara fyrir bönkunum, sem vind um eyrun þjóta. Og meira að segja gengið erinda bankanna erlendis klyfjuð fullyrðingum um að allt væri í fínasta lagi. Í þessari ríkisstjórn voru Sjálfstæðisflokkur og Samfylking. Þar á undan höfðu ríkisstjórnir Halldórs Ásgrímssonar og Davíðs Oddsonar selt ríkisbankana einkavinum sínum á útsöluprís. Í kaupbæti fylgdi handónýtt regluverk og máttlaust eftirlit, þannig að hinir nýju eigendur bankanna gátu hagað sér a vild - þess vegna eins og bandittar ef þeim þóknaðist svo. Í þessum stjórnum sátu Framsókn og Sjálfstæðisflokkur. Afleiðingar stjórnarfars þessara flokka þekkja allir.
Á þeim skamma tíma sem liðinn er frá samningsgerðinni verður ekki séð að nokkur ábyrgur aðili telji að hægt hefði verið að komast undan að borga. Einn háskólaprófessor hefur þó sagt að æskilegt hefði verið að fá álitamál tengdum reikningunum rekin fyrir dómstólum. Nákvæmlega hvaða dómstólum erá hinn bóginn ekki fulljóst.
Þannig er málið í hnotskurn, ekki flóknara en svo. Nú hefði maður ætlað að nýhreinsaður Framsóknarflokkurinn gæti tekið skynsamlegar á málum en fyrir hreinsun. Því miður hefur komið í ljós að svo er ekki. Þannig lætur Eygló Harðardóttir þingmaður sig ekki muna um að væna þá sem að samningunum standa um landráð, aðeins nokkrum klukkutímum eftir að innhald samningsins varð ljóst. Landráð takk fyrir! Mátti ekki minna vera! Hvernig svíkur maður þjóð? spyr þingmaðurinn og telur svarið liggja í samningnum.
Þessi afstaða er alveg makalaus. Látum vera þótt þingmaðurinn óskaði sér betri árangurs, allt orkar jú tvímælis þá gert er. Nei. Samningurinn er svik og landráð, hvorki meira né minna! Hvernig þjóðin á að sleppa undan þeim hörmungum, sem Icesafevíkingarnir og ríkisstjórnir Halldórs og Geirs kölluðu yfir landsmenn, segir hún hinsvegar ekkert um sem takandi er alvarlega.
Þetta mál er ekki hægt að nálgast án tengsla við það sem á undan er gengið, það sem áður hefur verið sagt og gert. Ríkisstjórn Geirs og Ingibjargar gaf það loforð sem samninganefndin og núverandi ríkisstjórn er að reyna að gera eins ódýrt og léttbært og hægt er. Löngu er öllum kunnugt, líka þeim sem halda því fram að alla skuldina eigi að reiða fram úr ríkissjóði, að Landsbankinn (gamli) á miklar eignir í Bretlandi. Hverskonar eignir? Mestan part vaxtaberandi verðbréf að sagt er. Slíkir pappírar eru ekki endilega mikils virði í augnablikinu. Eygló Harðardóttur og nýhreinsaðri Framsókn ætti að vera ljóst að kreppur kapitalismans standa aldrei nema fá ár í senn. Þess vegna skiptir gríðarlegu máli að geta lokið málinu á 15 árum, en á þeim tíma munu verðbréf bankans bera vexti og af þeim verður væntanlega greitt. Hugsanlega verða bréfin seld ef ásættanlegt verð fæst fyrir þau. Hvað heldur þingmaðurinn að gert verði við þá peninga? Að þeim verði hent út um gluggann? Eða skolað niður um klósettið? Nei, þeir ganga að sjálfsögðu til að greiða skuldina. Nægja þeir? Það veit enginn á þessari stundu og svarið fæst ekki nema á löngum tíma og alls ekki meðþví að taka upp kaldastríðsorðfæri á Alþingi.
Það er satt að segja hörmulegt að fylgjast með því hvernig hundahreinsunin á Framsókn hefur mistekist. Málflutningur þess unga fólks sem nú talar fyrir hönd Framsóknar er eins og afrit úr blöðum kreppuáranna og endurnýjaður með orðaleppum kalda stríðsins. Ofan á það bætist skilningsleysi á tölur og í hæsta máta frjálsleg umgengni við staðreyndir.
hágé,
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:45 | Facebook
Athugasemdir
Já einmitt.
Nýji Framsóknarflokkurinn getur ekki einu sinni flutt sig um set í húsakynnum Alþingis, getur ekki slitið sig frá gamla flokksherberginu... Er nema vona að flokksmenn hafi ekki þokast úr stað að öðru leiti?
Margrét O Leópoldsdóttir (IP-tala skráð) 7.6.2009 kl. 12:05
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.