5.7.2009 | 14:37
"...ekki einn einasti alþingismaður..."
Fyrrverandi starfsmaður Sjúkrasamlags Reykjavíkur (gott ef ekki fyrriverandi forstjóri), fyrrverandi borgarstjóri í Reykjavík, fyrrverandi alþingismaður, fyrrverandi forsætisráðherra, fyrrverandi utanríkisráðherra, fyrrverandi seðlabankastjóri og staðfastur trúmaður á frjálst framtak einstaklingsins, Davíð nokkur Oddson, var í konungsviðtali í Morgunblaðinu sunnudaginn 5. júlí 2009. Þessi fyrrverandi af öllum fyrrveröndum á snærum hins opinbera, sem hefur líklega aldrei unnið heilt ásverk hjá fyrirtæki í einkaeigu, hvað þá að hann hafi rekið fyrirtæki, átti það til hér áður fyrr að vera launfyndinn og orðheppinn í besta lagi. Nú er öldin hins vegar önnur. Í viðtalinu hefur hann flest á hornum sér vegna þeirra ófara sem Íslendingar hafa ratað ég nema eitt. Hann sjálfur hefur hvergi komið nærri, hvergi sér þess stað að hann hafi með pólitík sinni á árum áður lagt grunn að því hvernig komið er. Enn síður að hann sem seðlabankastjóri hafi af alvöru reynt gera eitthvað í því skyni að koma í veg fyrir þau efnahagslegu ósköp sem hann vissi að voru við sjóndeildarhringinn.
Blaðamaður spyr: En nú skrifaðir þú sem seðlabankastjóri undir samninginn við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn ásamt Árna Matthíesen, þáverandi fjármálaráðherra, þar sem Icesave var nefnt, ekki satt? Og fyrrverendi altmúligmann svarar: Það er alveg rétt. Þegar samningur er gerður fyrir hönd ríkis við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, þá kemur það annars vegar í hlut fjármálaráðherrans og hinsvegar í hlut seðlabankastjórans að undirrita slíkan samning. Hlutverk seðlabankastjórans með slíkri undirritun hefur bara með það að gera að staðfesta að Seðlabankinn muni sinna þeim skyldum sem að Seðlabankanum snúa í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn samkvæmt samningnum. Hlutverk Seðlabankans hefur ekkert með það að gera að skuldbinda ríkið til að greiða peninga. Sá þáttur er algjörlega í höndum ríkisins, og að lokum Alþingis....
Þetta er sérkennilega skarplega athugað hjá DO. Því er líkast sem samningur við AGS detti af himnum ofan og seðlabankastjórinn hafi sama hlutverk og líflaus stimpilvél á pósthúsi. Þó veit bankastjórinn að lausn á Icesavdeilunni hangir við samninginn við AGS. Að hans áliti felast drápsklyfjar á þjóðina í þeim skuldbindingum. Þetta veit hann þegar hann tekur sér stöðu stimpilvélarinnar. Sem ábyrgur bankastjóri, með þá vitneskju sem hann segist búa yfir, hefði hann að sjálfsögðu átt að neita að skrifa undir samninginn, eða hvernig reiknaði maðurinn með að Seðlabankinn gæti sinnt skyldum sínum þegar þjóðin lenti í þroti, vegna skulda sem Landsbankinn hafði stofnað til?
Það er að sjálfsögðu rétt hjá DO að þjóðin stofnaði ekki til þeirra skuldbindinga sem Landsbankamenn gerðu með galopin augun og seðlabankastjórinn fyrrverandi líka: Ég sagði á fundi sem við í Seðlabánkanum áttum með Halldóri J. Kristjánssyni og Sigurjóni Þ. Árnasyni, bankastjórum Landsbankans, snemma árs 2008, þar sem þeir reifuðu þau sjónarmið Landsbankans að ríkið bæri ábyrgð á Icesave-skuldbindingum Landsbankans: Þið getið útaf fyrir sig sett Björgólf Guðmundsson á hausinn, og þið eruð sjálfsagt komnir langleiðina með það, en þið hafið ekkert leyfi til að setja íslensku þjóðina á hausinn. Á þessum fundi í Seðlabankanum var ítrekuð sú afstaða Seðlabankans að Landsbankinn gæti ekki safnað peningum endalaust erlendis og við þá söfnun skapaðist sjálfkrafa ríkisábyrgð á Íslandi, ríkisábyrgð sem ekki einn einasti alþingismaður hefði hugmynd um að verið væri að búa til. (Leturbr. hágé.)
Sæll! eins og ungmennin segja nú til dags. Altmúligmannen í stóli bankastjóra Seðlabankans vissi strax í byrjun árs 2008 að bankastjórar Landsbankans væru ekki einasta langt komnir með að gera eigandann gjaldþrota. Þeir söfnuðu líka endalaust peningum í Englandi með ríkisábyrgð sem ekki einn einasti alþingismaður hafði hugmynd um að verið væri að búa til. Hvað gerði nú bankastjórinn þegar hann vissi hvað verið var að gera? Sagði hann eigandanum að bankastjórarnir væru að gera hann gjaldþrota? Um það vitum við auðvitað ekki. En sagði hann forseta þingsins hvað var í gangi? Nei, það gerði hann ekki. Hver einasti þingmaður var áfram grunlaus um í hvað stefndi. Barði DO í borðið og sagði bankastjórunum að snúa þegar í stað af þeirri braut sem þeir höfðu ekkert leyfi til að feta? Nei það gerði hann ekki. Þess í stað sagði hann mislukkaðan brandara um væntanlegt gjaldþrot eigandans. Stóð bankastjórinn einhverntíma upp, lagði embætti sitt að veði, og upplýsti alla landsmenn um að Landsbankinn stefndi Íslendingum í fjárhagslega glötun? Nei það gerði hann ekki, hann sat þangað til Alþingi neyddist til að setja ný lög um Seðlabankann og losna þannig við hann.
Stórkostleg afglöp í starfi. Hver gætu þau verið í tilfelli DO? Réttast að hver svari fyrir sig.
hágé.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:49 | Facebook
Athugasemdir
Þakka þér fyrir góða grein Helgi.
Ég og eflaust margir fleiri veltum því fyrir okkur, og það ekki af ástæðulausu, hvort ekki sé hægt að draga fyrrum forsætisráðherra og seðlabankastjóra, herra Davíð Oddsson, fyrir dómstóla og fá hann dæmdan fyrir stórkostleg afglöp í starfi. Það getur varla verið að fólk eins og Davíð og helstu samstarfsmenn hans, sem leiddu þjóðina út í slíkar ógöngur og raum ber vitni, þurfi ekki að bera neina ábyrgð á gjörðum sínum. Í stað þess að bera ábyrgð, eða að iðrast ofurlítið, skríða þessir karlar uppúr holum sínum með reglulegu millibili og rífa kjaft.
Jóhannes Ragnarsson, 5.7.2009 kl. 17:02
ég geri ráð fyrir að það hljóti að vera eitt af því sem rannssóknarnefnd Alþingis athugar.
Helgi Guðmundsson (IP-tala skráð) 5.7.2009 kl. 17:41
Ég velti fyrir mér markaðsáætlun Sjálfstæðismanna þessi dægrin, þeir eru á fljúgandi ferð, fylgið vex og kjósendur virðast tilbúnari en nokkru sinni fyrr að fela þeim stjórnartaumana. Það er athyglisvert að það virðist falla vel að vilja þjóðarinnar að hlusta á svona þverstæðukennt bull eins og þeir flytja þessa dagana hver um annan þveran. En sókn er besta vörnin það sannast enn einu sinni þó sóknin sé í besta falli byggð á ímyduðum veruleika.
Lára Stefánsdóttir, 6.7.2009 kl. 09:22
Hann bætir við sig enn einu blóminu í dag- Björgúlfarnir- kjölfestufjárfestarnir -skulda enn miljarða í kaupunum á Landsbankanum!
María Kristjánsdóttir, 7.7.2009 kl. 09:07
Já, þeir skulda sem sagt enn helminginn af kaupverðinu sem var 11 milljarðar ef ég man rétt. Búnaðarbankinn lánaði þeim til að kaupa Landsbankann og S-hópurinn fékk lán í Landsbankanum til að kaupa Búnaðarbankann. Tær snilld!
Helgi Guðmundsson (IP-tala skráð) 7.7.2009 kl. 11:14
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.