8.3.2013 | 13:50
Neitunarvald gegn meirihluta þjóðarinnar
Þjóðvilinn hefur verið í löngu fríi, en kemur nú aftur á vettvang. Hann er til vinstri - þeim megin sem hjartað slær - eins og sagt var forðum. Hve lengi hann birtist að þessu sinni ræðst af úthaldi ábyrgðarmanns. Tekið verður á móti stuttum greinum (hámark 500 orð), enda séu þær lausar við fúkyrði og meiðandi ummæli um nafngreint fólk. Ekki spillir fyrir að höfundar séu fyndnir, eða a.mk. gamansamir. Greinar sendist á helgi.gudmundsson@gmail.com
ooooooooooooooooooooooooooooo
Þegar þetta er ritað virðist ljóst að stjórnarflokkarnir neyðist til að víkja frá því að koma stjórnarskrárbreytingum, byggðum á afstöðu þjóðarinnar til tillagna stjórnlagaráðs, í gegnum þingið. Með stöðugum fullyrðingum Íhalds og Framsóknar um nauðsyn sáttar í málinu, að ekki sé minnst á skort á tíma, hefur stjórnarandstöðunni tekist að þreyta svo þingmeirihlutann að hann gefst upp.
Að sátt þurfi að nást felur í sér að minnihlutanum er fengið neitunarvald í málum sem hann er ósáttur við. Með þeirri einföldu aðferð að neita að sættast, getur hann einfaldlega komið í veg fyrir að þau séu samþykkt, jafnvel þó ætla megi að meirihluti sé fyrir þeim á þingi eins og hjá þjóðinni..
Í stað þess að leyfa stjórarandstöðunni að vera á móti í atkvæðagreiðslu og opinbera þannig afstöðu sína til niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar, virðist sem sköpuð séu skilyrði til að stjórnarskrármálið hreinlega deyji út. Þetta minnir enn einu sinni á mikilvægi þess að halda við sannfæringu sína í pólitík, þó að á móti blási, (jafnvel hressilega). Hér á það sérstaklega vel við því formaður Sjálfstæðisflokksina hefur réttilega bent á að það sé efnislegur ágreiningur um mikilvæg atriði eins og um þjóðareigna á auðlindum. Í hverju felst hann. Formaður flokksins hefur skýrt ágreininginn efnislega á þessa leið: Við eru tilbúin að breyta auðlindaákvæðinu, enda verði einkaeignarréttinum ekki raskað.
Verði niðurstaðan að hætta við samþykkt stjórnarskrárinnar, er það þeim mun hrapallegra sem afstaða Íhaldsins til eignarréttar á auðlindum hefur lengi verið ljós. Flokkurinn fékk þrá sína uppfyllta á síðasta kjörtímabili með því að samþykkt voru lög sem fólu í sér einkaeign á vatni. Þjóðin ætti ekki neysluvatnið sem streymdi upp úr jörðinni, heldur viðkomandi landeigendur. Óheftur aðgangur að neysluvatni er beinlínis mannréttindamál og viðurkennt sem slíkt á alþjóðlegum vettvangi. Hið sama á að gilda um allar aðrar náttúrulegar auðlindir. Það eru mannréttindi þjóðar að eiga sjálf auðlindir sínar, en ekki tiltölulega fáir einstaklingar. Til að mynda hefði verið til lítils barist fyrir stækkun landhelginnar ef auðlindir hafsins væru síðan færðar útgerðinni til eignar, í stað eðlilegs nýtingarréttar.
Ákvæði í stjórnarskrá um þjóðareigna á auðlindum er ekki síst mikilvægt nú þegar alþjóðlegir auðhringar, og þjóðlegir kínverskir sömuleiðis, teygja anga sína um allan hnöttinn af meiri ákafa en um langan aldur. Hinn kapitalíski heimur hefur þess utan hug að fella niður sem flestar hindranir á heimsviðskiptum, og mögulegt er, í gegnum Alþjóða viðskiptastofnunina. Það getur auðveldlega þýtt að auðhringar nái tangarhaldi á auðlindum þjóðar, jafnvel eignist þær. Það þarf ekki þjóðrembing til að sjá að slíkt er hættulegt fyrir smáþjóðir, sem eiga allt sitt undir því að geta nýtt arðinn af auðlindunum í eigin þágu.
Hugo Chavez, forseti Venesúela lést á dögunum. Af því tilefni hefur verið rifjað upp að ríkisstjórn hans þjóðnýtti olíuauðlindir og vinnslu í landinu. Við það gerðist tvennt. Ýmis nágrannaríki fengu olíu langt undir heimsmarkaðsverði, en á sama tíma tókst að stórbæta lífskjör hinna fátæku í landinu. Þetta dæmi hefði landsfundur Sjálfstæðisflokksins öruggleg ekki getað reiknað, en það segir okkur hvílíkan óhemju hagnað olíuhringarnir hafa af olíuvinnslu í veröldinni, á kostnað almennings. Sjálfstæðisflokkurinn er trúr varðveislu einka hagsmuna af þessu tagi, en í því á vinstri stjórn ekki að láta neyða sig til að taka þátt í.
hágé.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:00 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.