8.4.2013 | 21:27
Ferilsskráin - hvernig lítur hún út?
Við kjósendur erum að velja okkur starfsmenn núna.
Þegar við veljum okkur fólk til að stjórna landinu næstu 4 árin, er mikilvægt að beita réttum aðferðum við valið. Við mannaráðningar á almenna markaðnum horfa menn mest á CV (ferilskrána) Ekki hvað menn segjast ætla að gera. CV er öruggari en loforðalisti. Mig langar til að bera saman ferilskrá tveggja þingmanna sem báðir bjóða sig fram núna, þeirra Gunnars Braga Sveinssonar og Lilju Rafneyar Magnúsdóttur:
Ég skoðaði www.althingi.is. Þar var lögð fram þessi þingsályktunartillaga:
Ályktun um fyrningu aflaheimilda. *)
Gunnar Bragi var einn af flutningsmönnum þessarar tillögu, ásamt öllum Sjálfstæðisflokknum, Sigmundi Davíð (F)og Sigurði Inga (F). Hún er svona:
Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að lýsa yfir því að horfið verði frá fyrirhugaðri fyrningu aflaheimilda sem getið er um í verkefnaskrá ríkisstjórnarinnar.
Í umræðum kom fram að flutningsmönnum finnst að fiskistofnarnir séu sameign þjóðarinnar eins og segir í fiskveiðistjórnunarlögunum, en útgerðarmenn eigi nýtingarréttinn. Hann sé séreign. Viljum við það? Þetta er reyndar svona á mínu heimili: Ég á bíl, en sonur minn nýtir hann til jafns við mig. Ég hef hinsvegar ánægjuna af því að borga viðgerðarkosnað og annað sem til fellur. Ef ég setti á kvótakerfi þannig að bara elsti sonurinn, sem hefur sannarlega nýtt hann hingað til, fær að gera það áfram, en hinir verði að semja við hann ef þeir ætla að nota bílinn. Væri það ekki töluvert óréttlátt? En þetta finnst nokkrum Framsóknarmönnum og öllum Sjálfstæðismönnum eðlilegt!
Afstaða Lilju Rafneyjar kemur fram t.d. í umræðum um nefndarálit sjávarútvegs og landbúnaðarnefndar varðandi stjórn fiskveiða (sjá althingi.is): [..]ég tel að þeir hv. þingmenn sem skrifa upp á þetta nefndarálit með fyrirvara geri það vegna þess að þeir vildu sjá meira í þessu frumvarpi en orðið er. Og þar er ég þeim hjartanlega sammála. En ég mæli fyrir þessu nefndaráliti og held baráttunni áfram fyrir því sem var tekið út úr því og mun gera það[..] **)
Hvað hafa þínir menn gert?
Ég hvet alla til að skoða hvað þingmenn hafa gert, t.d á vef Alþingis. Loforðin eru varasöm. Nú lofar Framsóknarflokkurinn 20% lækkun skulda hjá öllum. Líka stóreignamönnum. Ríkið og lífeyrissjóðir eiga 70% af skuldunum. Þeir aðilar munu tapa. Viljum við það? Það má heldur ekki gleyma því að Framsóknarflokkurinn kom húsnæðisbólunni af stað með því að lofa fyrir kosningar 2003, 90% lánum frá Íbúðalánasjóði. Þetta hratt af stað samkeppni á lánamarkaðnum, sem hvorki eftirlitsstofnanir né ríkisstjórn sinntu að stoppa. Lánin fóru í 100% og húsnæðisverðið snarhækkaði. Gunnar Bragi var vísast ekki á þingi þá, en þetta var flokkurinn hans. Þetta sýnir líka hvað hæpið er að treysta á loforð fyrir kosningar. Hver man ekki eftir þessu slagorði sem Framsóknarflokkurinn kom með á sínum tíma: Eiturlyfjalaust Ísland árið 2000
Kveðja, Reynir Eyvindsson
www.althingi.is:
*) 05.10.2009 þingsályktunartillaga Þskj. 8 8. mál.
**) 10. júní 2011. stjórn fiskveiða. 826. mál
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.