Hring eftir hring


Ekki er heiglum hent um þessar mundir að átta sig á því sem er að gerast í völundarhúsi alþjóðlegrar hagfræði og peningamála. Því er líkast sem óvandvirkir vefarar hafi ofið svo flókinn vef hagfræðilegra hugtaka og orðatiltækja að engin leið er að skilja hvað er á seyði.

Sumt er þó nógu einfalt til þess að hagsýn húsmóðir (af hvoru kyni sem hún er) getur sæmilega auðveldlega áttað sig á hlutunum. Þannig virðist sem bankarnir hafi tekið hærri lán í útlöndum en þeir eru borgunarmenn fyrir. Lánin hafa þeir tekið með tilteknum vöxtum í því skyni að lána féð áfram viðskiptavinum sínum, bæði hér innan lands og erlendis. Auðskilið, enda er bankastarfsemi byggð á þessu einfalda reikningsdæmi – taka lán á lágum vöxtum til að geta lánað öðrum á háum vöxtum og skilja allir hvert mismunurinn rennur.

Vandinn sýnist hinsvegar felast í því að lánin sem þeir fengu eru til miklu skemmri tíma en þau sem þeir veittu. Þessu höfðu þeir hugsað sér að mæta með því að taka ný lán erlendis til að greiða upp fyrri lánin og þannig koll af kolli árum saman. Á meðan greiða skilvísir lántakar af sínum lánum, jafnvel í 40 ár. Nú bregður aftur á móti svo við að útlendir lánveitendur vilja ekki lána þeim íslensku nema með miklu verri kjörum en áður. Þá kemur auðvitað babb í bátinn, svo mikið að „viðurkenndir sérfræðingar” og stjórnmálamenn telja jafnvel óhjákvæmilegt að ríkið taki stórlán erlendis til að styrkja gjaldeyrisvarasjóðinn, og veita bönkunum greiðari aðgang að honum, þannig að þeir geti borgað. Eða þá að ríkið kaupi þau skuldabréf sem bankarnir eiga að borga, þannig að þeir borgi ríkinu en ekki erlendum lánardrottnum.

Nú fer dæmið að gerast torskilið: ríkið kaupi upp skuldir bankanna erlendis? Fyrst þarf auðvitað að komast að því hvort umrædd skuldabréf séu yfirleitt til sölu og þá með hvaða kjörum. Gæti ekki verið að eigendur bréfanna segðu við ríkisstjórn: Jú, elskurnar mínar, ekki nema sjálfsagt að selja ykkur bréfin, en þið áttið ykkur á að ávöxtunarkrafan hefur hækkað umtalsvert, ástandið á fjármálamörkuðum heimsins er þannig, eins og þið vitið, að hvergi er á vísan að róa. Við þurfum líka að taka lán með hærri vöxtum en áður.

Þegar hér er komið er tilefni til að klóra sér í höfðinu dágóða stund: hvaða afleiðingar hefur þetta? Einhvernsstaðar verður ríkið að útvega sér gjaldeyri til að kaupa upp skuldabréfin. Nei, förum heldur hina leiðina. Ríkissjóður tekur sjálfur lán, leggur inní Seðlabankann sem aftur lánar bönkunum til að þeir geti staðið í skilum. Og nú flækist málið enn:

Skuldlaus ríkissjóður, sem fyrir fáum árum seldi bankana einkaaðilum, tekur stórlán erlendis (og hættir þar með að vera skuldlaus) til þess að bjarga sömu bönkum. Eru þá hinir „einkavæddu” bankar ekki komnir undir handarjaðar ríkisins, svo stappar nærri að þeir séu þjóðnýttir á ný? Allir vita jú að engin sæmilega ábyrg ríkisstjórn lætur stærstu fjármálastofnanirnar velta á hliðina, bara rétt si sona, eins þótt því hafi verið haldið fram af mikilli sannfæringu að einkaaðilar séu miklu betur til þess fallnir en ríkið að reka banka. Hér er því líkast sem einhver hringur sé að lokast.

Enn flækist málið og er nú komið að mörkum hins óskiljanlega í æðri fjármálavísindum. Inn- og útstreymi gjaldeyris er sagt hafa áhrif á gengi krónunnar. Mikið innstreymi hækkar krónuna (eða var það kannski öfugt?). Þegar ríkið tekur stórlán fyllast hyrslur Seðlabankans til dæmis af evrum. Þá hækkar krónan. Staða útflutningsatvinnuvega versnar en innflutnings batnar og væntanlega á þá að draga úr verðbólgu. En hvernig var það: ef krónan helst há kallar það ekki á aukna eyðslu innan lands og þar með þenslu sem við verðum að sögn að losna við fyrir hvern mun? Hér verður ekki betur séð en að annar hringur lokist, en um leið er rétt að árétta að á þessu stigi málsins er hver hagsýn húsmóðir væntanlega komin yfir mörk hins skiljanlega.

Við höfum að sögn búið við mesta góðæri Íslandssögunnar undanfarin áratug. Ríkisstjórn Framsóknar og Sjálfstæðisflokk notaði þetta tímabil til að selja ríkiseignir og breyta sköttum þannig að þeir eru nú miklu léttari á þeim sem hafa háar tekjur en lágar. Þetta hefði hagsýn húsmóðir ekki gert. Hún hefði safnað í „olíusjóð” með því að breyta ekki sköttunum (hugsanlega þó létt þá á þeim sem hafa lítið milli handanna) og sennilega látið ógert að selja ríkiseignir, en ef hún hefði gert það hefði hún bætt andvirðinu í sjóðinn. Hann væri þá orðinn ansi gildur, svo gildur að ekki þyrfti að taka erlent lán til að bjarga bönkunum, heldur einfaldlega kaupa erlendan gjaldeyri og leggja inn í Seðlabankann. Þannig væri ríkissjóður skuldlaus og ágætlega búinn undir að bjarga bönkunum af eigin rammleik – svei mér þá ef niðurstaðan af þessum vangaveltum er ekki sú að á einhvern hátt hafi verið kolvitlaust gefið í góðærinu.

hágé.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Rúnar Sveinbjörnsson

Nú er Seðlabankinn (þ.e. ríkið) það taka lán, svipað eða meira en bankarnir voru seldir á, þar ætti hringurinn að lokast. En því miður er þetta svarthol þekkt úr stjörnufræðinni, sem gleypir allt.

Rúnar Sveinbjörnsson, 2.4.2008 kl. 18:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband