9.6.2009 | 08:52
Handan víglínunnar
Væntanlega undrast fáir að Íslendingar reiðist yfir Icesafsamningunum. Það liggur beinlínis í eðli málsins að gremja brjótist út vegna þess að þjóðin ábyrgist með samningum að greiða fyrir athafnir fjármálaspekúlanta - svimandi háa skuld sem þeir stofnuðu til og ekki aðrir.
Á hinn bóginn er mikilvægt, ekki síst fyrir stjórnmálamenn, að gera sér grein fyrir í hvaða stöðu íslenska ríkið er þegar samið er. Talað hefur verið um víglínu í málinu, að hún liggi við hryðjuverkalögin og það sé hreinn og klár aumingjadómur af ríkisstjórninni að fara ekki í mál, fremur en að gera samninginn. Til að átta sig á stöðunni sem Íslendingar voru í er skynsamlegt að reyna að taka sér um stund stöðu handan víglínunnar og reyna að átta sig á hvernig viðsemjandinn, að þessu sinni bresk stjórnvöld, hugsi málið. Væntanlega eitthvað í þessa áttina:
Við höfum þegar greitt innistæðueigendum á Icesafe reikningum innistæður þeirra og þó upphæðin sé vissulega há sligar hún ekki breska ríkissjóðinn. Við töldum eftir samtals Darlings fjármálaráðherra við hinn íslenska starfsbróður sinn, að Íslendingar ætluðu ekki að borga og settum á þá hryðjuverkalög. Þó við viðurkennum það ekki opinberlega þá hefur ráðherra okkar líklega miskilið Árna Matthiesen, þetta er reyndar staðfest með samþykki fyrri ríkisstjórnar um að að borga rúmlega 20.000 evrur fyrir hvern reikning, eins og reglur EES gera ráð fyrir. Geta þá Íslendingar farið í mál við okkur útaf hryðjuverkalögunum og hvar yrði slíkt mál rekið? Hugsanlega, en málið yrði rekið fyrir breskum dómstóli en ekki íslenskum. Þar erum við í miklu betri aðstöðu en Íslendingar, getum ráðið okkur bestu lögfræðinga á meðan sækjandinn er í miklum vandræðum vegna efnahagskreppunnar. Þessa áhættu er okkur alveg óhætt að taka.
Hér skiptir tíminn líka máli. Við afléttum ekki hryðjuverkalögunum fyrr en niðurstaða fæst í málið. Á meðan beitum við áhrifum okkar í Alþjóða gjaldeyrissjóðnum og innan EB gegn Íslandi til að þröngva ríkisstjórn Íslands að samningaborðinu. Þessu til viðbótar settu Íslendingar neyðarlög, sem mismunuðu kröfuhöfum þannig að innistæður íslenskra ríkisborgara voru tryggðar en erlendra ekki. Við getum því líklega höfðað mál innan EB kerfisins vegna þessa. Niðurstaða okkar verður því sú að bíða þangað til íslenska ríkisstjórnin sér engan annan kost en að semja - við höfum nógan tíma. Íslendingar eru að sönnu þrjóskari en fjandinn sjálfur, samanber þorskastríðin, en í þessu máli verður langvarandi þrjóska þeim mjög líklega of dýr.
Ef við færum okkur aftur yfir víglínuna (hryðjuverkalögin) og veltum upp möguleikum Íslendinga. Þá sýnast þeir aðeins vera tveir. Að borga eins og við höfðum lofað, eða að segja nú nei - við förum í mál við Breta útaf hryðjuverkalögunum. Fyrri kosturinn þýðir að við leitum samninga en hinn síðari flókin og dýr málaferli, væntanlega fyrir breskum dómstóli. Er skynsamlegt fyrir okkur að fara í mál vitandi það að Landsbankinn (gamli) á miklar eignir í Bretlandi sem gætu nýst okkur til að borga skuldina, en ekki til að reka málið? Eignirnar eru bundnar vegna hryðjuverkalaganna. Þurfum við að glíma við andstöðu Breta, Hollendinga og kannski margra annarra innan Alþjóða gjaldeyrissjóðsins og EB? Völdum við þessum verkefnum á sama tíma og við eigum í gríðarlegum erfiðleikum heima fyrir? Getum við hugsanlega gert ráð fyrir einhverri samúð útá það að við erum fá og smá og snúið almenningsálitinu ytra okkur í hag, sem hugsanlega myndi leiða til lækkunar skuldarinnar? Og hvað með neyðarlögin og þá mismunun sem af þeim leiðir? Geta þau komið í bakið á okkur?
Í stuttu máli sagt: hvorugur kosturinn var góður. Ríkisstjórnin valdi samningaleiðina. Þá er í rauninni bara eftir að svara þessum spurningum: er samningurinn góður, vondur, jafnvel hættulegur?
Undirrituðum sýnist að valinn hafi verið illskárri kosturinn, að semja. Samningurinn ber vissulega háa, en fasta vexti (sem væntanlega hafa verið ákveðnir í ljósi ætlaðrar vaxtaþróunar á erlendum mörkuðum næstu árin). Félli upphæðin öll á skattgreiðendur yrði ástandið skelfilegt. Samningurinn og aðgangur að eignum Landsbankans tryggir hins vegar að svo verður ekki. Hvort eitthvað og þá hve mikið skellur á ríkissjóði er einfaldlega ómögulegt að slá föstu af nokkurri nákvæmni eins og er. Og það sem skiptir ekki litlu máli. Þing og stjórn getur einbeitt sér að bráðnauðsynlegum verkum hér heima næstu árin.
hágé.
Útlánin eiga að greiða Icesave | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:54 | Facebook
Athugasemdir
Ekki má gleyma umræðunni í þinginu. þar voru menn á einu málum það aðtryggja það íslenskir sparifjáreigendur fengi allt sitt. Aðrir mættu afgangi.
Alþingi samþykkti að fara samningsleiðina. Það var áður en skipt var umstjórn. Rökin voru sú, að Ísland myndi tapa slíku máli
Það voru einnig launamenn erlendis sem áttu þarna sparifé.
Það er ekki verið að skuldsetja þjóðina á þessu andartaki, það var á miðju síðasta ári af nokkrum fjárglæframönnum.
Það eru ekki vinstrimenn sem eru þannig gerðir að þeir vilji láta aðra greiða fyrir skuldirnar. Því eru það ekki vinstrimenn sem safnast á Austurvöll í dag. Þeimsárnar eins og öðrum hvernigt er farið með þá og aðra. Þeira væla ekki og þeir henda ekki peningum og eða matvælum í götuna
kveðja
Kristbjörn Árnason, 9.6.2009 kl. 12:25
VInstri menn væla ekki og henda ekki peningum eða matvælum Kristbjörn. En voru það vinstri menn sem hentu saur brutu rúður réðust á lögreglustöð og brendu jólatré í vetur ?
Jón Aðalsteinn Jónsson, 9.6.2009 kl. 12:45
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.