Um sannfæringu

Ögmundur Jónasson heilbrigðisráðherra og Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, þingflokksformaður Vinstri grænna, hafa skýrt frá því að þau séu meðal þeirra þingmanna VG sem greiddu atkvæði gegn samningsumboði um að ganga frá Icesafesamningnum. Þingflokksformaðurinn gat þess jafnframt í einhverjum fjölmiðli að þingmenn væru ekki bundnir af flokkslínum heldur samvisku sinni, sem vissulega er rétt.

Að ráðherra í ríkisstjórninni og formaður þingflokksins skuli hafa tekið þessa afstöðu vekur skiljanlega talsverða athygli, ekki síst vegna þess að hvorugt hafa sagt neitt um hvaða kosti þau töldu hafa verið í boði, sem samrýmdist betur sannfæringu þeirra.

Þegar VG gekk til stjórnarsamstarfsins, hefur það verið gert vitandi um hvaða verkefni blöstu við, viðfangsefni sem ekki yrði komist undan að takast á við. Meðal þeirra var að semja um skuldbindingar Íslendinga vegna Icesafe reikninganna. Þegar ríkisstjórnin  hóf störf var þegar búið að ganga frá því grundvallaratriði að þjóðin myndi borga að tilteknu marki. Undan þeirri skuldbindingu varð ekki vikist, nema með hrikalegum afleiðingum. Þjóðin er skiljanlega fjúkandi reið yfir að þurfa að ábyrgjast skuldir sem nokkrir peningafurstar hafa lagt á hana og hún fékk engu ráðið um. Sama á áreiðanlega við um alla þingmenn VG, hvort sem þeir voru með eða á móti samningsumboðinu.

Hvað felst í orðinu flokkslína? Væntanlega það að flokksmenn koma sér saman um samnefnara sem byggist á ákveðnum grundvallaratriðum, en þarf ekki nauðsynlega að þýða að allir séu elsku sáttir. Flokkslína verður til í mörgum stofnunum, allt frá landsfundi til flokksfélaga sem bera ábyrgð á línunni í sveitarsjórnarmálum. Meginreglan er þá sú að meirihlutinn kemst að niðurstöðu, sem minnihlutinn annaðhvort fylgir eða gengur að minnsta kosti ekki gegn. En minnihlutinn hefur ekki einasta rétt til að bera fram sína skoðun, honum er það beinlínis félagslega skylt, ella færu ekki fram þær umræður sem nauðsynlegar eru til að finna samnefnarann – flokkslínuna.
Þegar síðan kemur að ákvörðunum sem ekki verður komist undan að taka, eins og í tilfelli Icesafe málsins, þá verða allir sem að slíku máli koma að þora, hversu bölvanlega sem þeim annars þykir málið og grimmilega ósanngjarnt. Hvorki Ögmundur né Guðfríður Lilja (né yfirleitt nokkur annar) hafa mér vitanlega bent á raunhæfa leið til að komast undan ábyrgð á Icesafe reikningum. Eins og komið var lá ekki annað fyrir en að gera annað hvort: að neita að standa við ábyrgðina eða að semja um hvernig með hana skuli farið. Fjölmargir hafa sýnt framá hvaða afleiðingar neitun hefði haft, hvaða erfiðleika landsmenn hefðu orðið að glíma við í alþjóðasamfélaginu. Er þarflaust að fjölyrða um það. Samningurinn verður því alltaf nauðasamningur og getur aldrei staðið um annað en gera íslenska ríkinu kleift að standa við skuldbindingarnar.
Þetta mátti öllum þingmönnum VG vera ljóst um leið og þeir ákváðu að ganga til ríkisstjórnarsamstarfs, rétt eins og þeir vissu vel að við ríksstjórninni blöstu hrikalegir erfiðleikar á öllum sviðum samfélagsins. Að standa ekki með meirihluta þingflokssins í versta og erfiðasta úrlausnarefni ríkisstjórnarinnar, án þess að benda á aðra betri leið, nær varla nokkurri átt. Með því eru þingmennirnir að víkja sér undan ábyrgð á ákvörðun, sem ekki er hægt að komast hjá að taka. Þeir leggja hana hins vegar á félaga sína innan þingflokksins.

Hvaða sannfæring ræður slíkri afstöðu? Er það sannfæring um að ekki sé nauðsynlegt að standa með félögum sínum þegar mest liggur við? Er það sannfæring um að þeir (minnihl.) geti síðar sagt: við bárum enga ábyrgð á þessum gerningi og afleiðingarnar af honum eru öðrum VG-þingmönnum að kenna – ekki okkur? Því er erfitt að trúa upp á það ágæta fólk sem hér um ræðir, enda hefur slík afstaða aldrei þótt stórmannleg – allra síst í flokkum sem kenna sig við vinstri.
hágé.



« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Þingmenn eru s.s. sauðir í rétt að þínu mati?

Hjörtur J. Guðmundsson, 13.6.2009 kl. 14:39

2 identicon

Herra hágé!

Þetta er afar þörf áminning. 

Síðustu daga og vikur hefur oft verið gipið til orðanna sannfæring og samviska og merkingu þeirra verið ruglað saman; þau jafnvel fléttuð í eitt, eitthvað göfugt, eitthvað háleitara en allt annað.

Nú eru þetta svo sem vel meinandi orð, bæði tvö; það er jákvætt að hafa sannfæringu og þó að það sé á stundum helvítlegt að hafa samvisku er það þó tvímælalaust betra en að vera án hennar.

Ég hygg að flestir  gangi í flokka vegna þess að þeir hafa sannfæringu fyrir þeim málstað sem hreyfingin ber fram.  Flestir sem veljast til forystu eru þar sökum þess að flokksmennirnir vilja hafa þá sem málsvara sína, flokksins og stefnunnar. 

Ég hef aldrei kosið mann til trúnaðarstarfa vegna þess hver samviska hans er, hvenær hún bítur hann eða hvernig; ég hef aldrei vitað hver og hvernig hún dvelur í öðrum mönnum.  Ég hef kosið flokka og menn úr þeirra röðum til þess að færa fram þá skoðun sem þeir hafa sagst fylgja,sameiginlega sannfæringu flokksmanna, stefnu hreyfingarinnar. 

Ég gef ekkert fyrir samviskuna annarra.  Ég á nóg með mína.  Hún vekur mér undrun nánast hverja stund.  Samviaska mannsins er ógreinanleg, hún er hvikul, hún er loftkennd, hún er einkamál þó að hún ráði verulega miklu um framgönguna hvers og eins í samvistum við aðra.

Það vill svo til að Mogginn, sem er samviskulaus, birti í dag á bls 40, þetta: 

"13. júní 1875.  Jón Sigurðsson forseti ávarpaði skólapilta í Reykjavík.  Hann sagði að eitt af skilyrðunum fyrir því að geta orðið nýtur maður væri að þola stjórn og bönd.  Frelsi án banda, án takmörkunar, væri ekki frelsi heldur agaleysi og óstjórn."

Þetta eru orð til okkar allra á þeim tímum sem upplausnar gætir og andlit skrílræðisins klessir sér á gluggarúðurnar.    

Úlfar Þormóðsson

Úlfar Þormóðsson (IP-tala skráð) 13.6.2009 kl. 14:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband