Enron á Íslandi

Umræður um ICESAFE-samninga virðast stundum þróast útá sérkennilegar brautir. Þó virðast fleiri og fleiri hallast að því að ekki verði komist undan því að borga. Þeirra á meðal er formaður Framsóknarflokksins og má það kallast nokkur frétt. Sami formaður er hinsvegar á því að Alþingi eigi að fella ríkisábyrgð á þann samning sem fyrir liggur. Ýmsir aðrir taka undir það sjónarmið. Meðal annars hefur Jón Daníelsson hagfræðingur í London sagt að nauðsynlegt hafi verið að semja, en samt eigi að fella ábyrgðina á samningunum. Engir sem svo mæla benda hinsvegar á það sem við kunni að taka ef ábyrgðin verður felld.

Sigmundur Davíð, formaður Framsóknar atyrti viðskiptaráðherra í þinginu fyrir að tala um efnahagsklúðrið hér sem íslenskt Enron-mál og var á honum að skilja að ekki mætti orða slíkt í útlöndum, það skaðaði mannorð Íslendinga.

Það var og.

Samkvæmt þessu minnkar klúðrið stórlega (verður kannski að engu eða hvað?) ef það er ekki orðað í útlöndum. Þetta er í meira lagi skringileg hugdetta af pólitískum leiðtoga á Alþingi Íslendinga og minnir á strútinn sem stingur höfðinu í sandinn. Hvernig er umhorfs í íslensku efnahagslífi eftir „Enron-athafnir” hinna mikilvirku viðskiptajöfra undangenginna ára? Nánast hvert einasta fyrirtæki sem þeir komu nálægt er annað hvort sokkið í bullandi skuldir eða oltið um koll. Sjálft óskabarn þjóðarinnar, Eimskip, er með neikvæða eiginfjárstöðu upp á feikilegar upphæðir og virðist helst horft til þess að erlendir aðilar eignist umtalsverðan hlut í félaginu til að koma því til bjargar. Félagið hefur starfað í nálega öld og var fyrir áhlaup víkinganna ágætlega rekið, eftir því sem best verður séð, Á örfáum árum tókst „snillingunum” að koma félaginu á kaldan klaka.

Annað „Enron-einkenni” birtist í því að sprengja upp hlutabréfaverð með brellum og bókhaldsbrögðum og greiða síðan marga milljarða út í arð á hverju ári. Arð sem aldrei virðist hafa orðið til fyrir tilstuðlan skynsamlega rekinna fyrirtækja.

Allt efnahags- og atvinnulíf var löðrandi í glæfrabrögðum af þessu tagi og enn er verið að. Þannig var skýrt frá því í blöðum á sínum tíma að Bakkavararbræður hefðu eignast Exista því sem næst að fullu. Hvernig fóru þeir að því? Þeir ákváðu að auka hlutafé félagsins um 50 milljarða og létu annað félag í sinni eigu skrifa sig fyrir allri aukningunni. Þetta félag var með einn milljarð í hlutafé. Bræðurnir greiddu 50 milljarðana með þessum eina milljarði. Hlutaféð var með öðrum margfaldað með fimmtíu, án þess að greiðsla kæmi fyrir, og notað sem greyðslueyrir í Exista.

Og þetta er ekki eina dæmið um „snilld” fjármálamanna, sem enn eru í gangi. Eigendur Fréttablaðsins og Stöðvar tvö áttu mörg fyrirtæki í gegnum eigu á einu eignarhaldsfélagi, (kannski fleirum ef útí það er farið) sem auðvitað er stórskuldugt. Nú hafa þeir selt sjálfum sér einhver hlutafélög í þessu kraðaki en skilið stórskuldir eftir í eignarhaldsfélaginu. Í þessu sambandi er þó rétt að taka fram að eignarhaldið á þessari fyrirtækjaþúst er svo flókið að torvelt er að skilja hvað um er að vera. En að eigendurnir hafi selt sjálfum sér er haft eftir Ara Edvald forstjóra þústarinnar. Einhverjar eignir munu vera komnar undir ríkisbankana (líklega Vodafone) sem jafnframt sitja uppi með ógreiddar skuldir uppá milljarða. Og talandi um Bakkavararbræður þá voru þeir svo „vinsamlegir” í garð lífeyrissjóðanna að skilja eftir ógreiddar skuldir við þá í Exista, en forða eignunum í skjól.

Hér eru aðeins tilgreind tvö dæmi um aðila sem halda ótrauðir áfram að leika sína „snilldarleiki” sem ekki virðast hafa annan tilgang en þann að hafa af bönkum og sjóðum almennings stjarnfræðilegar upphæðir. Það er þess vegna fullkomlega eðlilegt að viðskiptaráðherra hiki ekki við að líkja ástandinu við Enron, en þeim mun furðulegra að formaður Framsóknar skuli telja hreinskilni hans galla og skaðlega íslenskum hagsmunum. Ef maðurinn heldur að erlendir aðilar viti ekki um að hér er allt í kalda koli vegna Matador- og Enron-hugmyndafræði, þá ætti hann að líta á hvernig lánshæfismat ríkissjóðs er um þessar mundir og hvaða möguleika Íslendingar hafa yfirleitt til að taka lán erlendis. Það skyldi þó ekki koma í ljós að flestar dyr eru lokaðar, hvergi góðir kostir í boði vegna þess að hér hefur orðið „Enronhrun”? Hvaða tilgangi það myndi þjóna að íslenskir ráðherrar reyndu að fegra ástandið eða afneita því sem hefur gerst er vandséð, ekki yrðu þeir trúverðugri fyrir það, svo mikið er víst. Hinsvegar gerir Framsóknarforingjanum ekkert til þótt hann þusi í sífellu í þessa veru, þar er trúverðuleikanum hvort eð er ekki fyrir að fara.

hágé.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lára Stefánsdóttir

Ég held að vandinn sé fyrst og fremst sá að það er einfaldlega mjög erfitt fyrir fólk að skilja út á hvað ábyrgðirnar ganga eða hvaða afleiðingar það hefur að ganga ekki frá málunum. Á meðan geta þingmenn slegið sig til riddara með því að segjast ekki ætla að borga neitt eða stinga höfðinu í sandinn. Grátlegt að menn geti nú ekki staðið saman að því að klára þetta mál með ákveðinni reisn og fara í önnur verk sem liggur lífið á að leysa.

Sigmundur hefur valdið mér verulegum vonbrigðum sem formaður Framsóknarflokksins, ég hef ekki áður séð þá velja viðlíka spjátrung í embættið.

Lára Stefánsdóttir, 1.7.2009 kl. 16:25

2 Smámynd: Rúnar Sveinbjörnsson

Ef til vill er Icesave-samningurinn, það besta sem hægt sé að fá út úr samningum við Breta og Hollendinga, séum við sátt við heimskapítalismann. Skuldug ríki verða fátækari og fátækari, í örvæntingu selja þau frá sér auðlindir sínar, sem leiðir svo til þess að tekjur minnka og skuldir aukast. Strax í dag berast fréttir af gömlum draug á Suðurnesjum. Hitaveituréttindi Reykjaness eru föl.

Ég er ekki með skammtímalausn, en  skemmtilegri væri félagskapurinn með byltingarmönnum kúgaðra ríkja heldur en með kerfiskörlunum gömlu nýlenduveldanna í Evrópu.

Rúnar Sveinbjörnsson, 1.7.2009 kl. 20:54

3 identicon

Rúnar, þú hefur alveg rétt fyrir þér í því, held ég, að ekki séu skárri kostir í boði í Icesave-málinu. Samningurinn er svo sannarlega vitnisburður um veldi heimskapítalismans og ginið á honum er Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og Alþjóðabankinn. Báðar þessar stofnanir hafa það hlutverk að verja hagsmuni hinna auðugu á kostnað hinna snauðu. Um það æpa dæmin á okkur víðasvegar úr heiminum. Við erum einmitt stödd í þessu gini, enda var þjóðfélag okkar kapítalískt að hætti frjálshyggjunnar. Nú hefur hinsvegar orðið hér á landi einhver mesta þjóðnýting í Evrópu frá dögum rússnensku byltingarinnar, ríkið er farið að selja umslög og stílabækur, hvað þá annað. Við höfum með öðrum orðum fengið splunkunýja gerð af ríkiskapitalisma án þess svo mikið sem biðja um það einu orði!

hágé.

Helgi Guðmundsson (IP-tala skráð) 1.7.2009 kl. 21:08

4 Smámynd: María Kristjánsdóttir

Takk fyrir góðan pistil.  Enron er aftur í fréttunum í dag.

María Kristjánsdóttir, 3.7.2009 kl. 10:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband