Há- og lágtekjuskattar

Guðmundur Magnússon, varaformaður Öryrkjabandalagsins, hefur réttilega bent á að tillögur ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum þýði að tekinn verði upp lágtekjuskattur á öryrkja og ellilífeyrisþega, sem m.a gerist með nýjum tekjutengingum og lækkun á leyfilegu sjálfsaflafé, án þess að til skerðingar komi. Rétt er að minna á að frítekjumark vegna vaxta- og húsaleigutekna, kr. 250.000, nær að sjálfsögðu líka til öryrkja. En um leið er í reynd lagður 100% skattur á vaxta- og húsaleigutekjur þeirra umfram kr 98.640 kr. með því að um síðustu áramót var ákveðið að skerða þessar tekjur sem umfram eru þetta mark krónu fyrir krónu. Þannig greiðir fullhraust fólk engan skatt af 250.000 kr. fjármagnstekjum en tekjur lífeyrisþegans lækka um ríflega 151.000,00 hafi hann sömu fjármagnstekjur.

Að gera þann greinarmun á launatekjum og lífeyristekjum sem hugmyndir ríkisstjórnarinnar ganga út á nær engri átt. Engum dettur til að mynda í hug að skerða launatekjur fólks þó það hafi vaxtatekjur, þær einfaldlega bætast við. Engum dettur heldur í hug að skerða launatekjur þótt launþegi hafi tekjur á fleiri en einum stað, eins og gert er með lífeyrisþega, ekki heldur að ætla launþegum tiltekið tekjumark t.d. af fastri vinnu og skerða launin síðan ef unnin er yfirvinna eða aukavinna hjá öðrum aðila. Að meðhöndla launatekjur á þennan hátt myndi umsvifalaust kalla á víðtæk mótmæli og væntanlega aðgerðir af hálfu verkalýðshreyfingarinnar.

Allir vita að ekki verður undan því vikist að koma fjárhag ríkissjóðs í lag og það fyrr en seinna. Þetta hefur ríkisstjórnin alltaf sagt að yrði að gera með „blandaðri leið”, hækkun skatta og lækkun útgjalda. Hvorttveggja kemur óhjákvæmilega við allar fjölskyldur í landinu. Skilningur á vandanum er áreiðanlega almennur – fólki er fullkomlega ljóst hverskonar hamfarir hafa riðið yfir þjóðfélagið og að eitthvað verður að gera. Á hinn bóginn vekur furðu að svo virðist sem tekjur að 700.000 krónum á mánuði eigi ekki að bera neinar skattahækkanir, nema lágtekjurnar í formi áðurnefndra breytinga.

Millitekjuhóparnir eru langfjölmennastir og eðli málsins samkvæmt standa þeir undir mestum huta skattbyrðinnar, það er beinlínis óhjákvæmilegt. Nú hefur ríkisstjórnin ákveðið að hafa einungis tvö skattþrep. Skattar af tekjum að 700.000 breytast ekki en á tekjur þar yfir kemur 8% sérstakur skattur, sem í eðli sínu er ekkert annað en nýtt skattþrep. Skiljanlegt er að reynt sé að hlífa tekjum undir 400.000 á mánuði. Fjölskyldur með þær tekjur og húsnæðiskostnað eins og hann er um þessar mundir eru illa aflögufærar – eru í raun lágtekjufólk. Hins vegar virðist ríkisstjórnin hrædd við að leggja skatt á millistéttina og er það ekki í fyrsta sinn í sögunni. Eins og sakir standa hefði verið eðlilegt að bæta við fleiri skattþrepum, t.d. 2% fyrir hver hundraðþúsund upp að 700.000, þegar 8% skatturinn tekur við.

Svörin sem gefin eru við slíkum hugmyndum eru fyrirfram þekkt. Allt of flókið skattkerfi að vera með mörg þrep. Ekki er mikið gefandi fyrir slík svör eins og tölvutækni nútímans er. Það getur ekki verið mikill vandi að draga mánaðarlega af launum 2 – 6% hærri upphæð en lægsti skattur er. Þetta er spurning um handavinnu og pólitískan kjark. Þá má reyndar hugsa sér að þrepið sem bætt sé inní verði bara eitt, 3% upp að 550.000 og önnur 3% að 700.000.

Að svo stöddu er ekki mögulegt að fara yfir niðurskurðartillögurnar, en þó er rétt að benda á eina leið til sparnaðar sem nefnd hefur verið af erlendum sérfræðingi í fjölmiðlum nýlega. Ríki og stofnanir sveitarfélaga eyða árlega milljörðum króna í hugbúnað frá einokunarrisanum Microsoft. Hugbúnaðarkostnaður ríkisins eins er talinn nema hærri upphæð en það sem fæst inn með lágtekjuskattinum. Hvernig er hægt að lækka þennan kostnað? Með því að hætta viðskiptum við MS og taka upp opinn hugbúnað í öllum skólum og stofnunum ríkisins. Opinn hugbúnaður eins og Linux stýrikerfi og OpenOffice skrifstofuforrit kosta ýmist ekkert eða sáralítið. Á undanförnum árum hefur orðð gríðarleg framför á þessu sviði og stenst opinn hugbúnaður nú fullkomlega samanburð við þann sem MS selur aftur og aftur sömu aðilum. Uppfærslur kosta ekkert, leyfilegt (beinlínis óskað eftir því) er að dreyfa hugbúnaðinum endurgjaldslaust svo víða sem hver vill.

Vissulega er von að margir spyrji hvernig geti á því staðið að hægt sé að fá hugbúnað fyrir sáralítið eða ekki neitt. Svarið liggur í því að út um allan heim eru forritarar og áhugamenn sameinast um að snúast gegn einokun Microsoft, sem hafa þróað hugbúnað eins og Linux stýrikerfi. Síðan hafa allmörg fyrirtæki s.s. UBUNTU, SUSE, MANDRIVA, FEDORA og fl. búið til hugbúnaðarpakka fyrir stóra og smáa notendur, sem þau selja við mjög vægu verði. Það er kominn tími til að stórir hugbúnaðarkaupendur eins og ríki og sveitarfélög segi skilið við einokun MS. Í þeirri ákvörðun einni er fundið fé til frambúðar.

hágé.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband