Lánskjör eða ránskjör?

Munnlega hefur mér verið bent á að mjög sé hæpið og varasamt að krukka í sjálfa neysluvísitöluna og ómögulegt sé að sjá fyrir til hvers slíkt leiði. Þá sé ekki víst að breyting á þessu mælitæki gangi af lagatæknilegum ástæðum. Menn hafi gert með sér fjárskuldbindingar, sem byggist á þessu mælitæki, neysluvísitölu. Hugsanlega er mikið til í þessum vangaveltum en ég tel ástæðu til að koma með nokkrar ábendingar í þessu sambandi.

Í fyrsta lagi veit ég ekki til þess að neysluvísitalan hafi verið óumbreytanleg í gegnum tíðina. Vægi einstakr liða mun hafa breyst í samræmi við neyslu almennings. Sé þetta rétt hafa allir verðtryggðir fjármálagerningar breyst um leið.

Í öðru lagi er alls ekki öruggt að vísitalan sé á öllum tímum "rétt". Verið getur að hún oftryggi í stað þess að verðtryggja.

Í þriðja lagi má spyrja sig afhverju lánveitendur ættu að hafa tryggingu fyrir því að geta alla tíð keypt jafn mikið brennivín tóbak og fl. og fl. fyrir þá peninga sem þeir fá til baka? Er það rétt að tryggja fjárskuldbindingar með mælingu á neyslu en ekki einhverju öðru?

Þannig mætti telja upp ótal álitamál, en um langt skeið virðist engin umræða hafa farið fram um það hvort vísitalan tryggji lánskjör eða ránskjör. Áður höfðum við lánskjaravísitölu, sem ef ég man rétt var samsett úr byggingavísitölu og vísitölu framfærslukostnaðar (eins og neysluvístalan hét þá). Um eitt skeið voru tóbak og brennivín ekki inni í vísitölunni.

Neysluvístalan er mælitæki á verðbólgu, en sjaldnast orsök hennar. Sjaldnast, því nú blasir við að hún verður það með því að breytingar á sköttum til samfélagsins auka verðbólguna og hækka skuldir heimila. Ríkisstjórnin hefur í hyggju að landsmenn geti fikrað sig út úr verðtryggingu. Einfaldasta leiðin til þess virtist í augsýn með því að verðbólgan var dottin niður í núll. Við þau skilyrði skiptir verðtrygging engu máli. Þá gerist það að ríkið leggur á nýja neysluskatta og á eftir að leggja á fleiri. Líklegt er að greiðslur fyrir opinber þjónustu hækki. Það er þess vegna engin goðgá að hugsa til þess að hækkun skatta, sem nú koma fram í vísitölunni, verði numdir brott tímabundið þannig að hækka megi samfélagstekjur án þess að hækka um leið skuldir heimilanna. Óvenjulegar aðstæður kalla á óvenjulegar aðgerðir, hefur hver eftir öðrum. Hér sýnist það eiga vel við. Ef ekki er hægt að auka tekjur ríkis og sveitarfélaga, við þær aðstæður sem nú ríkja, öðru vísi en að verðbólga aukist og skuldir hækki. þá er í raun fokið í flest skjól. Á því augnabliki sem verðbólgan er núll er einmitt tækifærið til að laga vísitöluna að gerbreyttum aðstæðum. Það er nóg fyrir heimilin að taka á sig skattahækkanirnar, þótt ekki bætist við afleiðingar sem breyta lánskjörum í ránskjör.

hágé. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: María Kristjánsdóttir

Já, þetta er rétt.Einhvern veginn finnst mér okkar gömlu félagar ekki útskýra nógu vel gjörðir sínar og hvað ráði þeirra för.

María Kristjánsdóttir, 2.6.2009 kl. 14:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband