Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
20.4.2013 | 19:31
http://thjodviljinn.wordpress.com/
Þjóðviljinn er fluttur á
http://thjodviljinn.wordpress.com/
Með kveðju.
hágé.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 21.4.2013 kl. 17:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.4.2013 | 11:05
Gerbreytt húsnæðiskerfi
Fyrst er að nefna ályktun sem frá landsfundinum í febrúar sem lesa má hér::
http://www.vg.is/wp-content/uploads/2013/02/alyktanapakkinnallur_loka_efnisyfirlit.pdf
Þetta hér er úr stjórnmálaályktuninni:
Ósjálfbær húsnæðisstefna, ofuráhersla á einkaeign húsnæðis, með tilheyrandi skuldsetningu, og skortur á samræmdum leikreglum um fasteignalán hafa skapað mikinn vanda fyrir íslenskar fjölskyldur eftir hrun. Þó gripið hafi verið til margþættra aðgerða til að styðja við fjölskyldur í greiðsluvanda, meðal annars stóraukinna vaxtabóta, er ljóst að endurskoða þarf íslenska húsnæðiskerfið til framtíðar. Þar er mikilvægt að skoða verðtrygginguna og hugmyndir um 2% vaxtaþak á hana, tryggja að óverðtryggð lán verði í boði hjá Íbúðalánasjóði á félagslegum grunni og að byggður verði upp öflugur leigumarkaður með aðkomu stjórnvalda í byrjun sem geri leiguhúsnæði að raunverulegum og öruggum valkosti fyrir fjölskyldufólk. Sérstaklega ber í því tilliti að líta til húsnæðissamvinnufélaga þar sem íbúar verða rétthafar í félögunum og reksturinn er í þágu íbúa en ekki hluthafa á markaði.
Ennfremur segir í ályktun um húsnæðismál:
Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs 2013 áréttar samþykkta húsnæðisstefnu frá árinu 2011 og ítrekar mikilvægi þess að stuðla beri að einföldu og skilvirku húsnæðiskerfi sem tryggir nægjanlegt framboð af húsnæði, bæði til leigu og eigu, fyrir almenning í landinu.
Gera þarf leigu og búseturétt að raunverulegum valkosti við val á húsnæði og tryggja þannig fjölbreytni á húsnæðismarkaði. Sérstaklega ber að líta til húsnæðissamvinnufélaga en þar verða íbúar rétthafar í félögunum og reksturinn er í þágu íbúa en ekki hluthafa á markaði. Mikilvægt er að endurskoða bæði húsaleigubætur og vaxtabætur og tryggja þannig jafnræði óháð því hvort fólk velur að kaupa eða leigja sér húsnæði. Landsfundurinn fagnar nýstofnuðu leigufélagi í eigu íbúðalánasjóðs og telur það skref í rétta átt. Vinstri græn ítreka þá skoðun sína að taka þurfi löggjöf um húsnæðismál til gagngerrar endurskoðunar þannig að hún taki mið af þörfum almennings í landinu og tryggi öllum þak yfir höfuðið.
Endurskoða þarf hlutverk Íbúðalánasjóðs frá grunni og styrkja sérstaklega lán á félagslegum grunni með aðkomu hins opinbera. Nýtt húsnæðiskerfi ætti síðan að vera unnið í samvinnu við stéttarfélögin í landinu.
Síðan hafa VG stutt hugmyndir um húsnæðisbætur sem unnið hefur verið að því að innleiða í velferðarráðuneytinu. Sjá hér:
http://www.velferdarraduneyti.is/frettir-vel/nr/33398
Þessar hugmyndir byggja á því að tekið verði upp nýtt og gjörbreytt húsnæðisbótakerfi sem tryggir öllum sama rétt til fjárhagsstuðnings hins opinbera, óháð búsetuformi. Kerfið myndi koma í stað vaxtabóta og húsaleigubóta.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.4.2013 | 13:49
Ragnar Árnason og hagfræðin
Minn góði kunningi, Ragnar Árnason hagfræðingur, ritar grein í Morgunblaðið í dag, 16. apríl, um alvarlega efnahagsstöðu Íslands. Greinin er gagnleg áminningum um það sem gerðist 2008 og um að erfiðleikunum sé langt í frá lokið. Skuldsetning ríkissjóðs sé allt of mikil, vandi skuldsettra heimila sé langt í frá leystur.
Ástæðuna fyrir erfiðleikunum telur Ragnar ekki aðeins hrunið 2008, sem hafi verið angi af alþjóðlegum áföllum. Hrunið hafi verið afdrifaríkara hér á landi vegna stærðar bankakerfisins í hlutfalli við íslenska efnahagskerfið, en verst sé að vandanum hafi verið mætt á alrangan hátt, m.a. með hækkuðum sköttum, gríðarlegri opinberri eyðslu, miðstýringaráráttu, gjaldeyrishömlum og almennri haftatrú, árásum á grunnatvinnuvegi þjóðarinnar og almennri andúð á einkaframtaki og framleiðslustarfsemi. Til að sýna fram á réttmæti fullyrðinga sinnar miðar Ragnar við árið 2007 og bendir á að flest sé miklu lakara en þá.
Hugleiðingar Ragnars varpa því miður óskýru ljósi á þann vanda sem kjósendur eiga við að glíma fyrir kosningarnar. Hverja á að kjósa? Hann nefnir ekki hverjar skuldir ríkissjóðs urðu á einni nóttu haustið 2008, en bendir réttilega á að ríkissjóður hafi verið skuldlítill 2007. Þessi nálgun er dæmigerð fyrir hagfræðinga og þá menn sem þá grein stunda. Ríkissjóður fékk yfir sig holskeflu skulda og gjaldþrota seðlabanka. Hallinn var skyndilega 216 milljarðar. Stjarnfræðileg upphæða á mælikvarða almennings. Þegar núverandi ríkisstjórn tók við lék enginn vafi á að skellurinn yrði alvarlegur og myndi koma víða niður. Honum skyldi mæta með breytingum á skattkerfinu, hærri sköttum á efnameiri en hlutfallslega lægri á hina efnaminni, og víðtækum niðurskurði.
Ekki verður séð, eða fyllyrt með rökum, að ríkisstjórnin hafi sérstakan áhuga á höftum. Fram að þessu hefur enginn merkjanlegur skoðanamunur verið milli stjórnmálaflokkanna um að hjá þeim hafi ekki verið komist. Hærri skattekjur + niðurskurður á öllum sviðum hlaut að koma illa niður. Þessu hefur aldrei verið leynt. Hugmyndin um að ná niður ríkissjóðshalla og skapa stöðugleika til að byggja upp aftur hefur staðið óbreytt í stjórnarstefnunni allt kjörtímabilið. Í hlutarins eðli liggur að slíkar tiltektir eru ekki til vinsælda fallnar.
Viðmiðun Ragnars við árið 2007 er afar ósanngjörn, og góður vitnisburður um hvernig hagfræðin getur leikið staðreyndirnar grátt. Árið 2007 þandist efnahagskerfið út á grundvelli þeirra loftbólupeninga sem snillingar bankakerfisins bjuggu til. Á þeim grundvelli þandist byggingabólan út, húsnæðisverð hækkaði (sem er að sönnu bæði kostur og galla). Svo kom skellurinn árið eftir, haustið 2008. Miklu sanngjarnara væri að miða við árin á undan, þegar efnahagslífið var nær eðlilegu ástandi. Hagfræðin er því marki brennd að fræðimennirnir geta fengið nánast hvaða útkomu sem þeir kæra sig um, án þess að fara beinlínis rangt með. Ragnar fer heldur ekki rangt með um áfallið, en að halda því fram að ríkisstjórnin sé haldin almennri haftatrú og geri vísvitandi árásir á grunnatvegina er beinlínis út í hött.
Sjávarútvegurinn hefur líklega aldrei verið rekinn með jafn miklum hagnaði. Að einhver hluti af auðlindaarðinum renni í sameiginlega sjóði, er ekki fjandskapur við greinina, heldur fullkomlega eðlileg gjaldtaka, enda leggst gjaldið á eftir að fyrirtækin hafa greitt allan annan kostnað.
Vonandi skrifar Ragnar fleiri greinar í Morgunblaðið (þessi Þjóðvilji er líka opinn honum) þar sem hann gerir grein fyrir hvað hefði átt að gera, en síðast en ekki síst: Hvað ber að gera á næstu árum til að koma okkur út úr vandanum sem allir vita að er fyrir hendi.
hágé.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
15.4.2013 | 14:09
Lenín í þjónustu frjálshyggjunnar
Undanfarið hefur þjóðin fengið að fylgjast með sérkennilegri uppákomu innan Sjálfstæðisflokksins. Skuldinni af minnkandi fylgi flokksins í skoðanakönnunum hefur hópur Sjálfstæðismanna skellt á formanninn, Bjarna Benediktsson. Gekk þetta svo langt að hópurinn, (sem ef til vill er ekki stærri en Kjartan Gunnarsson og Davíð Oddson), stóð fyrir skoðanakönnun. Kannað var hvort þeir kjósendur, sem eiga að hafa yfirgefið flokkinn, myndu frekar kjósa hann ef formaðurinn vildi vera svo vinsamlegar að hætta, og láta varaformanninn taka við. Niðurstaðan var nokkuð ljós. Fylgi flokksins myndi aukast við skiptin
Könnunin leiddi, eina ferðina enn, greinilega í ljós að Sjálfstæðisflokkurinn er afar sérkennilegt fyrirbæri. Innan flokksins mallar ágreiningur eins og vellingur í potti. Um hvað hann er kemur aftur á móti hvergi fram. Könnunarhópurinn virðist telja að hinar ósýnilegu deilur megi leysa með því að kasta formanninum fyrir borð á lokaspretti kosningabaráttunnar.
Þetta tiltæki er næsta kostuglegt og ber vitni um menntaskólaþroska á stjórnmálasviðinu. Ungt fólk sér skiljanlega einfaldar lausnir á hverjum vanda, en oddvitarnir tveir (DO og KG) hafa marga fjörunu sopið og ættu að vita að svona nokkuð er í besta falli hæpið en fyrirsjánlega mislukkuð atlaga að Sjálfstæðismönnum sem ekki vilja kjósa flokk sinn. Sérstaklega að formanninum. Sem enginn hefur reyndar heyrt að hugsi sér að kjósa framsókn.
Fyrir vinstri menn og almenning í landinu gildir einu hvað formaður Sjálfstæðisflokksins heitir, jafnvel líka hvort hann er karl- eða kvenkyns. Stefnan er hin sama. Formaðurinn sagði í sjónvarpsviðtali að niðurstaða könnunarinnar yrði til þess að hann myndi taka sér tvo daga og íhuga stöðu sína, svo vitnað sé efnislega til orða hans. Og auðvitað varð niðurstaðan sú að hann héldi áfram. Þó nú væri, maðurinn er nýkjörinn.
Á hinn bóginn kom annað skondið í ljós í þessari uppákomu allri. Haldinn var merkur fundur í heimabæ formannsins, þar sem hann var hafinn til skýjanna og góðir stuðningsmenn klöppuðu af lukku. Eftir samkomu þessa ræddi sjónvarpið svo við hinn nýendurreista formann. Rennur þá ekki upp úr honum gamalkunnur frasi úr fræðum þeirra sem lengst hafa staðið til vinstri í gegnum tíðina: Sjálfstæðismenn leysa sín mál innan flokks. Þegar formaður hefur verið kosinn styðja menn hann þangað til nýr tekur við. (Efnislega eftir haft). Þetta var kallað "lýðræðislegt miðstjórnarvald". Í lenínískum fræðum er sagt að flokksmenn lenínískra flokka hafi fullann rétt til að taka upp mál innan flokksins, ræða þau þar, en hlíða svo niðurstöðu æðstu stofnana. Allt annað var bannað, ekki síst að gera ágreining ljósan fyrir almenningi. Greinilegt er að sama vinnulag gildir í Sjálfstæðisflokknum og formaðurinn kann textann sinn. Á milli landsfunda eiga flokksmenn og háttvirt atkvæði að gegna því sem við þá er sagt.
Öldin hefur verið talsvert önnur hjá Vinstri grænum undanfarin ár. Þar á bæ hefur orðið efnislegur ágreiningur, sem öllum er ljós. Um Icesave, um 20% leið, um ESB o.fl, o.fl. Félagar hafa hrokkið fyrir borð og fyrrverandi formaður legið undir þungum áföllum, sem blöstu við öllum. Að óreyndu hefði maður reiknað með að frjálsir menn í Sjálfstæðisflokki nýttu frelsi sitt á þennan hátt til að koma ágreiningi upp á yfirborðið. En svona nokkuð gerist ekki í Sjálfstæðisflokknum. Menn halda sér saman, koma ekki fram þegar atlaga er gerð að formanninum, nefna ekki um hvað málefnaágreiningur kunni að vera, ef hann er einhver. Fyrsta flokks lenínísk vinnubrögð, ekki til framgangs vinstri róttækni, heldur hægri frjálshyggju.
Svona getur veruleikinn farið með grandvara frjálshyggjumenn.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.4.2013 | 15:33
Samgöngur - sjávarútvegur og ESB
Samgöngumál:
Vinstri græn leggja ríka áherslu á almenningssamgöngur sem ódýran, umhverfisvænan og hagkvæman kost. Auka þarf vægi þeirra hvarvetna á Íslandi og gera þær aðgengilegar. Ástæða er til að gefa gaum allri nýbreytni á því sviði, þar á meðal lestarsamgöngum. Einnig þarf að efla þær almenningssamgöngur sem fyrir eru svo sem strætisvagna og langferðabíla. Byggja skal upp að nýju net almenningssamgangna á landinu öllu og huga þá sérstaklega bæði að strandsiglingum og flugi. Mikilvægt er að bera saman kostnað af slíku neti almenningssamgangna og vegagerð fyrir einkabíla.
Öll meiriháttar samgöngumannvirki eiga að vera háð mati á umhverfisáhrifum framkvæmdanna. Auka þarf markvisst hlut endurnýjanlegra orkugjafa og taka mið af raunverulegum umhverfis- og orkukostnaði við skipulagningu samgangna og flutninga.
Umferðaröryggi er sá þáttur sem vegur hvað þyngst við skipulag og þróun samgangna. Brýnast er að lagfæra svokallaða svarta bletti sem eru sérstakir slysastaðir bæði í þéttbýli og dreifbýli.

Jafn aðgangur landsmanna að fyrsta flokks gagnaflutninga- og fjarskiptamöguleikum er úrslitaatriði. Tryggja þarf jafnrétti, ekki aðeins með aðgengi hvað tæknimöguleika áhrærir heldur einnig kostnað. Stefna ber að breiðbandsvæðingu landsins og jöfnu aðgengi allra að upplýsingahraðbrautinni. Verði þetta ekki gert gæti mismunun að þessu leyti orðið tilefni nýrrar og alvarlegrar stéttaskiptingar.
Sjávarútvegsmál:
Vinstrihreyfingin - grænt framboð vill tryggja ævarandi þjóðareign á sjávarauðlindum í kringum Ísland. Með upptöku nýtingarleyfa verður eignarréttur þjóðarinnar á auðlindinni viðurkenndur og meint einkaeignarréttarleg krafa útgerðarinnar þar með úr sögunni. Einnig er mikilvægt að festa í stjórnarskrá ákvæði um sameign þjóðarinnar á náttúruauðlindum, þ.m.t. nytjastofnun og öðrum auðlindum hafsins.
Setja verður takmarkanir á frjálsu framsali aflaheimilda þannig að öll aflaaukning til handhafa nýtingarleyfa verði óframseljanleg og nýti þeir hana ekki renni hún til ríkisins sem endurráðstafi henni, t.d. á opinberum leigumarkaði. Vinstri græn vilja lögbinda að hluti afla fari ávallt á fiskmarkað. Þannig má tryggja að skiptaverð til sjómanna endurspegli raunverulegt fiskverð og auka atvinnuöryggi fiskvinnslufólks með jafnara aðgengi fiskvinnslu að hráefni allt árið. Að auki þarf innlendum fiskaupendum að standa til boða að bjóða í óunninn afla áður en hann er fluttur úr landi. Fyrirtæki í sjávarútvegi eiga að lúta samkeppnislögum líkt og önnur atvinnustarfsemi.
Lög um strandveiðar, sem sett voru á kjörtímabilinu, voru framfaraskref og komu til móts við álit mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna um atvinnufrelsi. Strandveiðarnar hafa skapað vinnu og hleypt lífi í margar sjávarbyggðir og þannig sannað gildi sitt. Mikilvægt er að halda áfram að þróa útfærslu á þeim, sem tryggir jafnræði á milli svæða.
Evrópumál:
Deilur um mögulega aðild Íslands að Evrópusambandinu hafa verið fyrirferðarmiklar í þjóðmálaumræðunni um langa hríð. Mikilvægt er að leiða málið til lykta með því að ljúka yfirstandandi aðildarviðræðum og bera niðurstöðuna undir þjóðaratkvæði.
Afstaða Vinstri grænna er þó sú að hagsmunum Íslands sé betur borgið utan Evrópusambandins. Samskipti við sambandið ber að þróa í átt til samninga um viðskipti og samvinnu, m.a. á sviði menntamála, vinnumarkaðsmála og umhverfismála.
Hugsanlegur ávinningur af aðild Íslands að ESB réttlætir ekki frekara framsal á ákvörðunarrétti um málefni íslensku þjóðarinnar og er aðild að Evrópusambandinu því hafnað. Hagsmunir fjármagns og heimsfyrirtækja eru í alltof ríkum mæli drifkraftar Evrópusamrunans, miðstýring, skrifræði og skortur á lýðræði einkennir stofnanir þess um of.
12.4.2013 | 17:20
Skattar: tæki til að jafna lífskjör - svör VG við spurningum Stöðvar 2
1) Vill flokkurinn afnema þrepaskipta tekjuskattinn?
Nei, þrepaskiptur tekjuskattur er mikilvægur til að ná tekjujöfnuð í samfélaginu og þá sérstaklega til að hlífa lægri tekjuhópum, sem greiða hátt hlutfall tekna sinna í óbeina skatta.
2) Hyggst flokkurinn afnema auðlegðarskatt?
Nei, auðlegðarskatturinn er mikilvæg viðbót við tekjuskattskerfið til að tryggja sanngjarna dreifingu skattbyrði. Ástæða kann að vera til að skoða hækkun á eignarmörkum hans og minnka þannig umfang hans.
3) Hyggst flokkurinn lækka skatta/gjöld á bensín?
Nei, skattar og gjöld standa ekki undir vegaframkvæmdum á Íslandi. Heimsmarkaðsverð á bensín mun hækka enn frekar á komandi árum þannig að lægri skattar hverfa fljótt í verðhækkun. Því er mikilvægt að bæta almenningssamgöngur og bjóða þannig upp á valkosti við einkabíllinn. Skattlagning á brennslorkugjafa er viðurkennd leið til að draga úr mengun og er hún síst meiri hér á landi en annars staðar.
4) Hyggst flokkurinn lækka tryggingagjaldið?
Með minnkandi atvinnuleysi er rétt að lækka tryggingargjaldið sem svarar fækkun atvinnulausra. Einnig getur komið til álita að létta eða undanskilja minnstu fyrirtækin til til að ívilna nýsköpunar- og sprotafyrirtækjum og öðrum smárekstri.
5) Hyggst flokkurinn afnema sérstaka veiðigjaldið sem var sett á þessu kjörtímabili?
Nei, sérstaka veiðigjaldið er mikilvægt í tekjuöflun ríkisins og stendur undir hluta fjárfestingaráætlun sem skapar fjölmörg störf og umsvif í hagkerfinu. Afnám þess væri því ávísun á niðurskurð í velferðakerfinu og að hætt yrði við framkvæmdir. Sérstaka veiðigjaldið er sem stendur eina tiltæka leiðin til að tryggja þjóðinni hlutdeild í fiskveiðiauðlindinni.
6) Ef flokkurinn hefur í hyggju að lækka skatta, hvað reiknar hann með að þær skattalækkanir muni kosta?
Vinstri græn boða ekki lækkun skatta en telja að með óbreyttum skattkerfi skapist svigrúm upp á 50-60 mia. kr. í fjárfestingar í mennta- og velferðarkerfinu á næstu árum. Flokkurinn telur að með þeirri stefnu sem hann hefur mótað kunni eitthvert svigrúm myndast til að lækka skatta. Skattalækkanir á lág- og millitekjuhópa sérstaklega eru í forgangi ef svigrúm verður til skattalækkana.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.4.2013 | 16:47
Agi verður að vera í hernum, sagði góði dátinn Sveik forðum
Björn Valur Gíslason formaður fjárlaganefndar sendi Þjóðviljanum eftirfarandi upplýsingar, Fyrirsögnin er Þjóðviljans (hágé)
Á dögunum var mikið rætt um aga í ríkisfjármálum í sjónvarpsumræðum. Í því sambandi má vísa á þessi tvö skjöl:
Fjárauki 2012. Á bls. 2 er línurit sem sýnir gjöld umfram fjárlög á hverju ári. Þarna kemur fram að gjöld umfram fjárlög voru mest í aðdraganda Hrunsins, 6-8% í góðærinu mesta en eru nú komin ofan í 2% eftir að Vinstri græn tóku við fjármálum ríkisins, sem er farið að nálgast það sem gerist í öðrum löndum. Síðustu þrjú árin fyrir Hrun var 75 milljörðum eytt umfram fjárlög. Tekjur komu á móti þessu en það breytir ekki því að agaleysið og stjórnleysið hjá hægri mönnum var algjört og þeir kunna ekkert með fé að fara.
Lokafjárlög 2011. Á bls. 3 er tafla sem sýnir þróun lokafjárlaga hvers árs, þ.e. hvað miklar heimildir eru fluttar á milli ára og skekkir þar með ríkisreikning hvers árs. Þarna sést að skekkjan var 6% árið 2006, var 5% 2008 og er komin í 2,5% í dag undir stjórn Vinstri grænna.
Þetta tvennt sýnir annaes vegar að áætlanagerð er önnur og betri en áður hefur þekkst og hinsvegar að mun betri agi er á ríkisfjármálum en áður hefur þekkst. Höldum þessu á lofti.
Hér er tengill á atkvæðagreiðslu um eitt mikilvægasta þingmál frá Hruni. Þetta mál felur það í sér að allar eignir bankanna eru settar undir gjaldeyrishöftin sem er forsenda þess að hægt sé að semja við kröfuhafa um :
Eins og sést á þessu þá studdu framsóknarmenn ekki málið og íhaldið greiddi atkvæði gegn því. Þessi lagasetning er þó grundvöllur þess sem þeir lofa í dag, þ.e. að semja við erlenda kröfuhafa og staðið hefur yfir síðan þessi lög voru samþykkt.
Upphlaup framsóknar með þetta mál hefur stórskaðað íslenska hagsmuni. Það gerist með því að formaður flokksins hefur sagt hvert markmiðið er, hvað eigi að ná út úr samningum við kröfuhafa (300 mia.kr.) og hvenær (á næsta kjörtímabili). Þetta hefur orðið til þess að þeir sem eiga þessar kröfur og liggur ekkert á að losna við þær (fá fína ávöxtun á þetta hér á móti því sem annars staðar fæst) vita nú um markmiðin og tímasetninguna á samningum. Þeir munu því væntanleg halla sér aftur og taka því rólega þar til langt er liðið á næsta kjörtímabil. Þá munu þeir væntanlega banka á dyrnar og spyrja hvort menn vilji ekki fara að uppfylla kosningaloforðin sín, ef svo óheppilega myndi vilja til að framsókn verði í ríkisstjórn.
Hömrum á staðreyndum og hömpum því sem við höfum vel gert.
Með kveðju,
Björn Valur Gíslason
***********************
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.4.2013 | 21:27
Ferilsskráin - hvernig lítur hún út?
Við kjósendur erum að velja okkur starfsmenn núna.
Þegar við veljum okkur fólk til að stjórna landinu næstu 4 árin, er mikilvægt að beita réttum aðferðum við valið. Við mannaráðningar á almenna markaðnum horfa menn mest á CV (ferilskrána) Ekki hvað menn segjast ætla að gera. CV er öruggari en loforðalisti. Mig langar til að bera saman ferilskrá tveggja þingmanna sem báðir bjóða sig fram núna, þeirra Gunnars Braga Sveinssonar og Lilju Rafneyar Magnúsdóttur:
Ég skoðaði www.althingi.is. Þar var lögð fram þessi þingsályktunartillaga:
Ályktun um fyrningu aflaheimilda. *)
Gunnar Bragi var einn af flutningsmönnum þessarar tillögu, ásamt öllum Sjálfstæðisflokknum, Sigmundi Davíð (F)og Sigurði Inga (F). Hún er svona:
Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að lýsa yfir því að horfið verði frá fyrirhugaðri fyrningu aflaheimilda sem getið er um í verkefnaskrá ríkisstjórnarinnar.
Í umræðum kom fram að flutningsmönnum finnst að fiskistofnarnir séu sameign þjóðarinnar eins og segir í fiskveiðistjórnunarlögunum, en útgerðarmenn eigi nýtingarréttinn. Hann sé séreign. Viljum við það? Þetta er reyndar svona á mínu heimili: Ég á bíl, en sonur minn nýtir hann til jafns við mig. Ég hef hinsvegar ánægjuna af því að borga viðgerðarkosnað og annað sem til fellur. Ef ég setti á kvótakerfi þannig að bara elsti sonurinn, sem hefur sannarlega nýtt hann hingað til, fær að gera það áfram, en hinir verði að semja við hann ef þeir ætla að nota bílinn. Væri það ekki töluvert óréttlátt? En þetta finnst nokkrum Framsóknarmönnum og öllum Sjálfstæðismönnum eðlilegt!
Afstaða Lilju Rafneyjar kemur fram t.d. í umræðum um nefndarálit sjávarútvegs og landbúnaðarnefndar varðandi stjórn fiskveiða (sjá althingi.is): [..]ég tel að þeir hv. þingmenn sem skrifa upp á þetta nefndarálit með fyrirvara geri það vegna þess að þeir vildu sjá meira í þessu frumvarpi en orðið er. Og þar er ég þeim hjartanlega sammála. En ég mæli fyrir þessu nefndaráliti og held baráttunni áfram fyrir því sem var tekið út úr því og mun gera það[..] **)
Hvað hafa þínir menn gert?
Ég hvet alla til að skoða hvað þingmenn hafa gert, t.d á vef Alþingis. Loforðin eru varasöm. Nú lofar Framsóknarflokkurinn 20% lækkun skulda hjá öllum. Líka stóreignamönnum. Ríkið og lífeyrissjóðir eiga 70% af skuldunum. Þeir aðilar munu tapa. Viljum við það? Það má heldur ekki gleyma því að Framsóknarflokkurinn kom húsnæðisbólunni af stað með því að lofa fyrir kosningar 2003, 90% lánum frá Íbúðalánasjóði. Þetta hratt af stað samkeppni á lánamarkaðnum, sem hvorki eftirlitsstofnanir né ríkisstjórn sinntu að stoppa. Lánin fóru í 100% og húsnæðisverðið snarhækkaði. Gunnar Bragi var vísast ekki á þingi þá, en þetta var flokkurinn hans. Þetta sýnir líka hvað hæpið er að treysta á loforð fyrir kosningar. Hver man ekki eftir þessu slagorði sem Framsóknarflokkurinn kom með á sínum tíma: Eiturlyfjalaust Ísland árið 2000
Kveðja, Reynir Eyvindsson
www.althingi.is:
*) 05.10.2009 þingsályktunartillaga Þskj. 8 8. mál.
**) 10. júní 2011. stjórn fiskveiða. 826. mál
7.4.2013 | 11:01
Hverjum verður boðið í sigurveisluna?
Það hefur verið fróðlegt að fylgjast með ókyrrðinni í flokkunum á þessu kjörtímabili. Einkum Vinstri hreyfingunni grænu framboði. Það hefur yfirleitt gengið svona fyrir sig:
Fyrir er lagt í þinginu eða í ríkisstjórninni erfitt mál. Morgunblaðið er þá sent á vettvang og tekur viðtal við einhvern þingmannanna sem er gagnrýninn á málið eða bara meðferð þess. Þingmaðurinn hækkar róminn aðeins meira og sér að fyrirsagnirnar í Morgunblaðinu stækka. Það kemur mynd af honum/henni. Á forsíðu! Svo er skrifaður leiðari sama blaðs um þingmanninn sem alveg sérdeilis gagnmerkan samtíðarmann. Þá fara aðrir fjölmiðlar af stað og taka viðtöl við viðkomandi. Sá fær auðvitað þeim mun meira rými sem hann/hún talar ver um vinstri græna og þó einkum forystu þess flokks. Það reyndist vísasti aðgangur að öllum fjölmiðlum að tala illa um Steingrím J. Sigfússon. Svo komu fréttir um átök á flokksfundum Vinstri grænna sem aldrei urðu reyndar að neinu. Næsti bær var að selja þá kenningu að VG hefði svikið stefnumál sín. Þá var komið efni í forsíðufyrirsögn með styrjaldarletri. Næst var spurt: Ætlarðu að segja þig úr flokknum? Og sá fyrsti sem reið á vaðið gekk í Framsóknarflokkinn til þess að berjast á móti aðild Íslands að Evrópusambandinu en sá flokkur hafði þá um alllangt skeið sagt að hann vildi kanna sérstaklega aðild að Evrópusambandinu. Þessi þingmaður umsvifalaust gerður að formanni samtakanna Heimssýnar. Þá var atlagan að VG talin fullkomnuð því þeim samtökum hefur síðan hvað eftir annað verið beitt gegn einum stjórnmálaflokki Vinstri hreyfingunni grænu framboði sem er reyndar á móti aðild að ESB. Sá næsti sem fór úr VG stofnaði tafarlaust stjórnmálaflokk með viðeigandi lúðrablæstri. Nú er sá flokkur ekki lengur að undirbúa framboð en hefur hins vegar bannað öðrum framboðum að taka til sín stefnumál Samstöðu. Leiðtogi Samstöðu sagðist hafa orðið fyrir einelti á alþingi auk þess sem kaupið þar væri allt of lágt enda var viðkomandi kosinn á alþingi sem hagfræðingur. Sá næsti kvaddi Vinstri græna með venjulegum svikabrigslum. Og nú ætlar sá nýjasti en elsti að bjóða fram sjálfstæðan lista í sauðalitunum að eigin sögn. Litirnir á framboðinu höfða að vísu til mín. Um þann hafa verið skrifaðar fleiri lofgreinar en nokkurn annan mann en ekkert dugar.
Við þessar aðstæður fer VG í kosningabaráttu og berst sannarlega fyrir lífi sínu. Sagt er að fylgið sé lítið sem VG fær þessa dagana. Það er ekki rétt. VG hefur mikið fylgi miðað við atganginn að flokknum úr öllum áttum.
Nú virðist svipaður vandi reyndar herja á Samfylkinguna. Við þinglok var forseti Alþingis, Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, til dæmis lofuð í heilsíðugrein fyrir afstöðu sína í þinghaldinu. Stjórnarandstaðan hældi henni. Og Morgunblaðið. Það lofar ekki góðu.
Og þá er spurningin þessi: Hverjum gagnast allt þetta brölt, þessi læti, þessar fyrirsagnir, þessi svikabrigsl? Gagnast þau baráttunni fyrir betra og grænna umhverfi á Íslandi? Eða kannski baráttunni gegn aðild Íslands að Evrópusambandinu? Eða fyrir meiri jöfnuði á Íslandi? Fyrir kvenfrelsi? Fyrir sjálfbærri efnahagsstefnu? Fyrir virkara lýðræði? Opnara upplýsingasamfélagi? Nýrri stjórnarskrá? Betri kjörum á landsbyggðinni? Umhverfisvænni samgöngum? Strandsiglingum? Eða gagnast þau kannski hinum? Auðstéttinni? Gömlu flokkunum tveimur sem ætla að taka völdin um mánaðarmótin.
Hverjir halda hverjum sigurveislu eftir kosningar? Verður þessum rammheilögu brotthlaupnu kannski boðið og þakkað í Valhöll eða Hádegismóum - sem verður vonandi ekki ástæða til? En það er samt spurningin.
Framundan eru kosningar. Þær snúast um grundvallaratriði. Ekki stíl eða útlit. Ekki hatta Þorvaldar Gylfasonar. Heldur um það hverjir eiga að stjórna Íslandi: Fjármagnið eða fólkið. Átökin snúast um völd.
s.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.4.2013 | 13:45
Er hægt að banna verðtryggingu óverðtryggra lána?
Ekki verður sagt um stjórnmálaumræður þessa dagana að þær séu beinlínis heillandi, en margir taka þátt í þeim, ekki síst í gegnum vefmiðla. Reiðin er yfirþyrmandi, reiðin yfir því að núverandi ríkisstjórn hafi ekki gert nóg til verndar heimilunum hafi í staðinn verndað fjármagnseigendur. Merkilegast við þessa umræðu alla er að reiðin skuli ekki beinast að þeim sem áttu stærstan þátt í Hruninu. Þeir sem tóku við vonlausu búi, og hafa rétt það við svo eftir er tekið vítt um lönd, verða hinsvegar fyrir barðinu á reiði, líklega má segja almennings ef marka má skoðanakannanir. Á hér sannarlega við að bakari sé hengdur fyrir smið.
Stjórnarflokkarnir gjalda afhroð samkvæmt könnunum og eru þar í góðum félagsskap með Sjálfstæðisflokknum. Það er þó kostur við reiðina að skattalækkunardraumar þeirra sjálfstæðismanna n.b. fyrir heimilin virðast ekki hrífa heimilisfólkið í landinu. Er reyndar engin furða því í venjulegum heimilisrekstri batnar afkoman yfirleitt ekki með lækkandi tekjum. Ennþá síður með auknum útgjöldum samtímis. Þetta einfalda reikningsdæmi læra börn strax í barnaskóla.
Einar Kristinn Guðfinnsson, efsti maður á D-listanum í NV-kjördæmi, skrifaði nýlega pistil í Fréttablaðið.Pistillinn heitir 20% skuldalækkun og má kalla fyrirsögnina kunnuglega. Hann gerir grein fyrir því hvernig Sjálfstæðisflokkurinn ætli að lækka skuldir heimilanna og draga úr skuldabyrðinni strax varanlega og til frambúðar. Leiðirnar eru tvær, að því er Einar segir. Annarsvegar að borga einstaklingi kr. 40.000 í skattaafslátt beint inná höfuðstól húsnæðisláns. Hinsvegar að leyfa skuldurum að greiða séreignasparnað sinn beint inná höfuðstól íbúðalána. En hversu framkvæmanlegar eru þessar tillögur. Kostnaðurinn fyrir ríkissjóð verður ekki meiri en svo að við hann verður vel ráðið.....Og við vitum að þær [tillögurnar] eru framkvæmanlegar og það strax. [leturbr. hágé.]
Hér er sem sagt komin enn ein hugmyndin um að lækka skuldir heimila um 20% óháð því hverjar þær eru og hver greiðslugetan er. Þessar hugmyndir verður að skoða í samhengi við meginstefnu Sjálfstæðisflokksins um að lækka skatta. Að veita öllum skattafslátt um 40.000 þúsund á mánuði, sem væntanlega myndi þýða 80.000 fyrir hjón og sambýlinga, eða 960.000 á ári. Hvað hefur það í för með sér? Ég skal fúslega játa að ég er ekki mjög sleipur í reikningi. En í fljótu bragði sýnist mér þeir sjálfstæðismenn hugsa sér að lækka skattstofninn í landinu, eða skattana sjálfa, um tæplega milljón á mánuði fyrir hjón og um tæpa hálfa milljón fyrir einstaklinga. Það má auðvitað reikna þetta út en núllin verða þá svo mörg að þann sem hér stendur, hreinlega sundlar. Einar nefnir eingöngu ríkissjóð, hann muni vel ráða við slíka byrði, segir hann, en sleppir alveg að nefna sveitarfélögin. Ráða þau við slíkan afslátt á tekjum?
Svo virðist sem galdralausnir af þessu tagi svifi yfir flestum pólitískum vötnum um þessar mundir. Um leið er mörgum sérstaklega uppsigað við verðtrygginguna og halda að með því að taka óverðtryggð lán losni þeir við verðtryggingarófreskjuna. Eina leiðin til að losna við hana er að losna við verðbólguna. Aftur á móti ber ekki á neinum tillögum í þá átt. Óverðtryggð lán eru jafn verðtryggð og þau verðtryggðu. Lánveitandi sér til þess með því að ráða vöxtunum þannig að hann fái upphaflegt verðmæti lánsins til baka. Lántaka eru viðskipti. Lánveitandinn eignast skuldabréfið sem lántakandinn gefur út. Þess vegna er ómögulegt fyrir löggjafann að breyta skilmálum eldri bréfa, það gæti þýtt eignaupptöku hjá lánveitendum sem ríkissjóður yrði að greiða, en gæti alls ekki staðið undir, og gildir þá einu hversu reitt fólk er bönkum og öðrum lánveitendum.
Á hinn bóginn væri auðvitað hægt að banna verðtryggingu á lánum sem tekin verða í framtíðinni, en þá yrði um leið að banna þá vexti sem tryggðu lánveitandanum að fá sömu verðmæti til baka. Með öðrum orðum: Ekkert fær borgið heimilum frá hremmingum verðtryggingarinnar nema afnám verðbólgunnar. Hvernig má það vera að enginn skuli finna ráð til þess?
hágé.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)