Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Kveðja frá Nairobi til ónefnds þingmanns

 

Undirritaður átti þess kost, á sl. ári, að heimsækja barna- og unglingaheimili sem ABC samtökin íslensku reka í Nairobi, að langmestu leyti fyrir framlög einstaklinga. Heimilið er ætlað götubörnum og starfrækt í nágrenni við fátækrahverfið Matahari, en á því svæði búa um milljón manns og lifir fólk að jafnaði á hálfum öðrum dollar á dag eða minna.

Ég fór inní hverfið og tók fjölda mynda. Mér varð hugsað til myndasafnsins þegar ég sá eð einn kvenkynsþingmaður Framsóknarflokksins taldi enga ástæðu til að Íslendingar veittu fé í þróunaraðstoð. Umrætt heimili AbC samtakanna hýsir nálega 200 börn, en samtals njóta um 800 aðstoðar, meðal annars til að geta sótt skóla. 

mars_2012_162.jpgÞessi kona býr í bárujarnsskýli með börnin sín. Skýlið er á að giska 12 -14 fermetrar og heldur hvorki vatni né vindi. Líklegt er að maður hennar sé farinn fyrir fullt og allt. Þó getur hugsast að hann hafi verið að leita að einhverri vinnu part úr degi.

Algengt er að feðurnir hverfi þegar þeim finnst börnin vera orðin of mörg. Þá er stundum gripið til þess ráðs að koma nokkrum þeirra, kannski fjórum af átta, fyrir hjá öðru fólki eða taka þau á heimilið. Síðan er leitað að föðurnum. Í nokkrum tilvikum kemur hann aftur heim.

 

 

mars_2012_241.jpgUnga konan á myndinni "býr" í húsasundi við innganginn í hverfið. Hún er varla orðin tvítug. Tveimur dögum áður en við vorum þarna á ferð ól hún barn, á þessum stað. Sést í agnarsmáa hendi þess, neðst til hægri á myndinni.

Íbúar fátækrahverfanna njóta sjaldnast nokkurrar opinberrar þjónustu. Þar er ekki rennandi vatn, rafmagn eða skólplagnir. Þó hefur orðið sú framför síðustu ár að fleiri börn eru bólusett en áður, og lifa því af. Á nokkrum stöðum eru "almenningsklósett" sem íbúarnir geta keypt mánaðarkort í.

 

 

 

p1220411.jpg"Götumynd" frá Matahari. Vatn seitlar eftir miðju sundinu og er væntanlega ætlað að taka með sér mesta draslið. Til er hugtakið "fljúgandi klósett". Þá grípa íbúarnir til þess ráðs að gera stykki sín í plastpoka og henda honum síðan ut fyrir þegar skyggja tekur. Hefst þá mikil veisla fyrir rotturnar í grenndinni. Ekki þarf að taka fram að engar götulýsingar eru í hverfinu.

Hægra megin sést vel úr hverju skýlin eru gerð. Ef eldsvoði verður er engin leið að koma nokkrum nútíma slökkvitækjum við. Því verður jafnan stórtjón og mannskaðar ef kviknar í.

 

 Eins og gefur að skilja er hjálparstarf af þessu tagi eins og dropi í hafi. Alþjóðasamök, eins og UNICEF, kirkjudeildir og fl. og fl. eru að störfum í landinu og bjarga mörgum, einkum börnum. Misskiptingin í Kenya er himinhrópandi. Landsmenn eru um 40 milljónir og lifir um helmingurinn af 1 - 2 dollurum á dag. Ríkust 5% sitja að meginhluta þjóðarauðsins. Nýkjörinn forseti, Uhuru (þýðir sjálfstæði) Kenyjatta er einn af 10 ríkustu mönnum Afríku. Jafnast fátæktin á Íslandi á við það sem hér sést? Sem betur fer ekki, en það ætti að styrkja sjálfsmynd okkar að íslenka ríkið veiti nokkru fé til þróunaraðstoðar - eða skortir okkur kannski sómatilfinningu?

hágé.


Ætti ríkisstjórnin að skammast sín fyrir (að)..


bjarga Íslandi frá fullkomnu gjaldþroti og íbúunum landsins frá ánauð og langvarandi niðurlægingu á alþjóðavettvangi,

lækka rekstrarhalla ríkissjóðs úr 216 milljörðum í 4 milljarða án þess að kollkeyra samfélagið,

verja velferðarkerfið, fyrir að loka ekki sjúkrahúsum og skólum eins og aðrar þjóðir hafa gert,

hafa náð að lækka skuldir heimila þannig að þær eru nú á sama róli og var árið 2006,

hafa náð að draga svo úr atvinnuleysi að það er hvergi minna í Evrópu,

hafa lækkað verðbólgu úr 20% í tæp 4%, fyrir að hafa náð vöxtum úr 18% í 5%,

draga svo úr fátækt á Íslandi að hún er minnaien var í góðærinu,

fyrir hagvöxtinn sem er einn sá mesti í Evrópu, fyrir landsdóminn,

hafa gert ungu fólki kleift að stunda nám í stað þess að vera atvinnulaust,

láta velferðarkerfið virka þrátt fyrir Hrunið, fyrir að hafa lagt tugi milljarða til skuldamála heimilanna,

greiða niður þriðjung vaxta hjá skuldugum heimilum,

hafa endurskoðað regluverkið utan um fjármálakerfið,

fækka ráðherrum úr 12 í 8 og endurskipuleggja áður hálf ónýtt og lamað stjórnkerfi,

afnema sérréttindi ráðherra sem sett voru í tíð hægrimanna,

samþykkja rammaáætlun,

lögfesta barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna,

setja ný náttúruverndarlög, fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um nýja stjórnarskrá, fyrir kosningar til stjórnlagaráðs,

setja veiðigjöld á sjávarútveginn, fyrir að endurskoða þingsköp og auka vægi minni hlutans á þingi,

strandveiðarnar, fyrir að verja rétt landsins vegna makrílveiða,

breytingarnar á skattakerfinu, fyrir þrepaskipta skattkerfið, fyrir auðlegðarskattinn,

tvöfalda fjármagnstekjuskattinn, fyrir að færa skatta á fyrirtæki til samræmis við það sem annarsstaðar gerist,

stækkun Vatnajökulsþjóðgarðs, fyrir friðun landsvæða, fyrir að koma í veg fyrir fólksflótta frá landinu vegna Hrunsins,

setja lög um sölu á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyritækjum, fyrir að hafa dregið úr ójöfnuði í landinu, fyrir að afnema ráðherraskipanir dómara,

hefja táknmál til vegs og virðingar, fyrir að gera hæfniskröfur til Seðlabankastjóra í fyrsta skipti í lýðveldissögunni,

setja ríkisstjórninni og stjórnarráðinu siðareglur, fyrir að stórauka vægi umhverfisverndar í stjórnarráðinu,

jafnrétti á Íslandi mælist nú meira en í nokkru öðru landi, fyrir að auka vægi skapandi greina,

stuðning við kvikmyndagerð, fyrir stuðning við menningu og listir, fyrir fjárfestingaráætlunina sem gerir ráð fyrir 40 milljörðum í margskonar framkvæmdir á næstu árum,

styðja vel við tækni- og hugverkageirann, fyrir græna hagkerfið, fyrir að innleiða kynjaða hagstjórn,

hefja byggingu nýs fangelsis, fyrir að leggja aukið fé til tækjakaupa á sjúkrahúsum, fyrir vegaframkvæmdir og fleiri verklegar framkvæmdir,

ráðstafa nú hærra hlutfalli til velferðar- og félagslegra mála en gert var í góðærinu, fyrir að hafa staðið af sér tvær vantrausttillögur,

hafa barist til síðasta dags fyrir nýrri stjórnarskrá, fyrir að hafa mátt þola órétti og ofbeldi af hálfu hægrimanna sem náðu að koma í veg fyrir að fleira gott næði fram að ganga á kjörtímabilinu.

Hafi ríkisstjórnin og svikalið hennar ævarandi skömm fyrir allt þetta og miklu fleira.


Björn Valur Gíslason varaformaður VG.

Áður birt á smugan.is (feitletranir hágé.)

 

Almennur Stjórnmálafundur í Gamla

Kaupfélaginu á Akranesi, þriðjudag

2.4. kl. 20. Ræðumenn Lilja Rafney og

Árni Þór.

 akranesfundur 130402




Mikilvægar ferilskrár

 

C Vaffið 2

Hlustum ekki á sperrileggina, og ekki á niðurrifsseggina.

Þegar við kjósendur veljum okkur fólk til að stjórna landinu næstu 4 árin, er mikilvægt að beita réttum aðferðum við valið. Við mannaráðningar á almenna markaðnum horfa menn mest á CV (ferilskrána) Ekki hvað menn segjast ætla að gera. CV er öruggari gögn en loforðalisti. Mig langar til að bera saman “ferilskrá” tveggja þingmanna sem báðir bjóða sig fram fyrir Norðvesturkjördæmi: Einars K. Guðfinnssonar og Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur.

Þegar Sjálfstæðisflokkurinn var við stjórn, voru teknar margar mikilvægar ákvarðanir, en ekki allar gáfulegar. Mig langar að nefna 3 atriði: Sala bankanna, Þjóðhagsstofnun lögð niður og stuðningur Íslands við innrásina í írak:

1. Sala bankanna: Það að stóru ríkisbankarnir voru seldir báðir í einu til ævintýramanna var upphafið að því að því að bankarnir voru rændir innanfrá, og fóru á hausinn aðeins 8 árum eftir að þeir voru seldir.

2. Þjóðhagsstofnun lögð niður: Þjóðhagsstofnun var óháð stofnun sem varaði við þeirri óheillaþróun sem var að byrja. Þessu reiddist þáverandi forsætisráðherra, DO, og lagði niður stofnunina. Eftir það voru það greiningadeidir viðskiptabankanna sem sáu um mat á efnahagsástandi og tillögur um aðgerðir í efnahagsmálum. Þetta var í raun galið fyrirkomulag, því að greiningadeildirnar höfðu hag af því að fegra ástandið. Sem þær gerðu, og gátu gabbað okkur hin löngu eftir að öll heimsbyggðin vissi að hér var allt að hrynja.  

3. Íraksstríðið: Ein umdeildasta ákvörðun íslenskra stjórnvalda í seinni tíð er stuðningur Íslands við innrásina í Írak. Á Alþingi var m.a. deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar að Ísland veitti stuðning við innrásina; yrði hluti af því sem Bandaríkjastjórn kallaði „hinar viljugu þjóðir“ eða „coalition of the willing“. Þetta er og verður smánarblettur á þjóðinni.

Hvað gerði Einar?

Lilja Rafney var ekki á Alþingi á þessum tíma, en svona greiddi Einar K atkvæði:

1. Sala bankanna*)

Fyrst felldi hann breytingatillögu frá Jóhönnu Sigurðardóttur og Margréti Frímannsdóttur sem hljóðaði m.a. svona: Áður en sala á hlutafé ríkissjóðs í Landsbanka Íslands hf. og Búnaðarbanka Íslands hf. skv. 2. mgr. 6. gr. er hafin skal leita álits og samþykkis Seðlabanka Íslands og Þjóðhags stofnunar á því að aðstæður á fjármálamarkaði séu með þeim hætti að hyggilegt sé að ráðast í söluna.”

Félagar Lilju í VG og Samfylkingin samþykktu breytingatillöguna, en hún var felld.

Svo samþykkti Einar frumvarpið óbreytt. VG og Samfylking á móti.  


2. Þjóðhagsstofnun lögð niður **)

Hér kom stjórnarandstaðan líka með breytingatillögu sem hefði verið til bóta: Þar segir m.a:

Stofna skal sérstakt hagsvið við skrifstofu Alþingis sem taki til starfa 1. janúar 2003. Kostnaður af starfsemi þess greiðist af fjárlögum.”

En þetta var fellt af fulltrúum Sjálfstæðis og Framsóknar. Aðrir voru fylgjandi. Síðan var það samþykkt að þurrka Þjóðhasstofnun út úr lagatextum. Við báðar atkvæðagreiðslurnar var Einar fjarverandi.


3. Íraksstríðið.

Ögmundur jónasson og fleiri, flutti tillögu til þingsályktunar svohljóðandi.
“Að ríkisstjórnin beiti sér gegn áformum um innrás í Írak og að Ísland standi utan við hvers kyns hernaðaraðgerðir gegn Írak”.

Það var samþykkt að vísa þessu máli til utanríkismálanefndar. Einar var fjarstaddur við atkvæðagreiðsluna. En utanríkismálanefnd afgreiddi ekki tillöguna. Af 9 fulltrúum í utanríkismálanefnd voru 6 frá stjórnarmeirihlutanum, þar á meðal Einar. Nokkrum dögum seinna ákváðu Davíð Oddson og Halldór Ásgrímsson að Ísland styddi hernaðaraðgerðirnar.



Hvað gerði Lilja?

Hún hefur m.a. unnið að nýju fiskveiðistjórnunarfrumvarpi, sem mun færa þjóðinni eðlilega (eðlilegri) rentu af fiskveiðiauðlindinni. En veiðigjaldið hefur verið hækkað umtalsvert á þessu kjörtímabili. M.a. var það hækkað síðastliðið vor. Tekjurnar af því nema uþb 10 milljörðum. Það hjálpar þannig til að verja heilbrigðiskerfið, löggæsluna, og annað sem þurft hefur að búa við mikinn niðurskurð á síðustu árum.

Lilja greiddi atkvæði með hækkuninni, en Einar var á móti ****)



Skoðum hvað okkar fólk gerði.

Hér að neðan setti ég inn linka á vef Alþingis á þau mál sem ég tala um. Ég hvet þig lesandi góður að skoða hvað þínir fulltrúar hafa verið að gera, hverju þeir hafa greitt atkvæði. Nú er Einar ekki sá versti í Sjálfstæðisflokknum. En: Það kann að vera að menn geti talað valdsmannslega og borið sig vel. En eru þeir að vinna fyrir þig?


Kveðja, Reynir Eyvindsson

5 maður á lista vg í Norðvestur kjördæmi.



Sjá alþingi .is:

*) 126. löggjafarþingi 2000—2001. 521. mál lagafrumvarp Lög nr. 70/2001,

**)

127. löggjafarþingi 2001—2002. 709. mál lagafrumvarp Lög nr. 51/2002,

***) 128. löggjafarþing 2002–2003.Þskj. 807 — 491. mál.

****) 140. löggjafarþing Lög nr. 74 26. júní 2012 Þingskjal 1652, 658. mál: .



 




Þeir þurfa ekki að laga fleiri fljót

Eyjan.is sagði svo frá í kvöld, miðvikudagskvöld: 

Álrisarnir Alcoa og Norðurál borga litla sem enga tekjuskatta hér á landi, heldur fer stór hluti hagnaður þessara fyrirtækja í skuldir við móðurfélög í ríkjum þar sem skattar eru lægri. Með þessu móti verður íslenska ríkið af milljörðum króna.

Þetta kemur fram í ítarlegri umfjöllun Kastljóss RÚV í kvöld.

Þar er fléttunni, sem mun vera algild leið stórfyrirtækja til að lágmarka skattgreiðslur, lýst svona:

Alcoa og Norðurál eru alþjóðleg fyrirtæki með rekstur hér á landi, þar sem tekjur og hagnaður verða til. Eignarhaldið er hins vegar flókið, en fer í gegnum systurfélög í Luxembourg í tilviki Alcoa og Delaware í Bandaríkjunum í tilviki Norðuráls og þaðan í móðurfélögin. Fyrirtækin hér á landi eru fjármögnuð í gegnum þessi systurfyrirtæki, og skulda þeim hundruð milljarða króna, og borga hundruð milljóna í vaxtakostnað af þessum lánum. Sá kostnaður kemur til frádráttar tekjum og þar af leiðandi þeim sköttum sem lagðir eru á þessi fyrirtæki hér á landi.

Í Kastljósi kemur fram að með þessu móti hafi Alcoa ekki greitt krónu í tekjuskatt síðan árið 2003. Þar að auki á félagið inneign á móti sköttum næstu ára.

Álver Norðuráls á Grundartanga hefur ekki greitt tekjuskatt fyrir þrjú rekstrarár.

Íslenskum stjórnvöldum hefur verið bent á að þessu þurfi að breyta, meðal annars af Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Ekkert hefur hins vegar gerst í þeim málum.”

Það er ekki nýtt að álfyrirtækin hafi beitt bókhaldsbrellum til að komast hjá sköttum hér á landi. Þekktasta dæmið er “hækkun í hafi” sem þeir Hjörleifur Guttormsson og Ingi R. Helgason flettu ofan af 1983. Álverið í Straumsvík var þá í eigu erlends auðhrings. Auðhringurinn seldi sjálfum sér hráefnið, súrál, frá Ástralíu og flutti það til Íslands. Verðið frá Ástralíu reyndist hins vegar vera mikið lægra en verðið sem auðhringurinn bókfærði á Íslandi. Það hafði orðið hækkun í hafi. Á sama tíma greiddi álverið svívirðilega lágt verð fyrir raforkuna á Íslandi. Vopnaður þessum staðreyndum hóf Hjörleifur baráttu með sínum mönnum gegn álhringnum og krafðist hærra raforkuverðs. Álhringurinn neitaði í fyrstu og fjármálaráðherra Alþýðubandalagsins skuldfærði álhringinn fyrir sköttum upp á verulegar fjárhæðir. Að lokum fór svo að álhringurinn neyddist til að hækka raforkuverðið – af því að herferðin “hækun í hafi” hafði borið árangur. Þetta er eina raunverulega tekjuhækkunin sem Landsvirkjun hefur fengið af stóriðju á Íslandi svo um muni. Með þessari hækkun seinkaði næstu stóriðjuskrefum og þar sem seinkaði atlögunni að íslenskum náttúruverðmætum.

Afhjúpun Kastljóssins sýnir að það er eins gott fyrir íslensk stjórnvöld að vera á verði. Það þarf líka að gæta sín á sívaxandi áhifum álfyrirtækjanna á íslensk stjórnmál og stéttaátök. Það er umhugsunarvert að nýr framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins kemur frá Samtökum álfyrirtækja. Það eru kaflaskil.

Framundan eru kosningar. Þær kosningar snúast um stóriðju eða náttúruvernd, hagvöxt sem byggist á rányrkju eða sjálfbærum efnahag. Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn eru samkvæmt skoðanakönnunum að komast til valda. Er ekki rétt að gæta sín? Það er hætta til hægri. Það er búið að drepa lífríkið í Lagarfljóti. Það er nóg komið.

s.



Viðskiptaumhverfi stjórnmálalífsins


Ekki verður því neitað að flóra stjórnmálalífsins sýnist næsta fjölskrúðug um þessar mundir. Fjöldi „flokka”, sem sumir vilja alls ekki kalla sig flokka, heldur eitthvað annað, munu að líkindum bjóða fram. Því miður virðast þeir ekki hafa að sama skapi margar nýungar og hagkvæmar lausnir fram að færa fyrir þjóðina, eins og fjöldi þeirra gefur til kynna. Tvennt virðist þó sameiginlegt með þeim flestum: annarsvegar að láta verðtrygginguna fara illilega í taugarnar á sér. Og hinsvegar að bjóða fram allskonar „galdralausnir” til að skera illa stödd heimili niður úr snöru gjaldfallina lána.
Á sama tíma kemur nýr formaður Samtaka iðnaðarins og staðhæfir í Silfri Egils að stjórnvöld séu fjandsamleg íslenskum iðnaði, viðskiptaumhverfið vitni um það. Ekki þarf að fjölyrða um LÍÚ: Stjórnvöld eru allt að því glæpsamlega andvíg sjávarútveginum: Hvað höfum við eiginlega gert ykkur? Þannig hljómaði angistar auglýsing samtakanna fyrir nokkru.

Það er vandlifað í heiminum og ekki er „viðskiptaumhverfi” hins hefðbundna stjórnmálalífs beinlínis til að hrópa húrra fyrir. Þannig safnast nú í eina rétt ótal hópar með hugmyndir, sem þeir skilja ekki hvers vegna ríkisstjórnin hefur ekki hrint í framkvæmd, eins og lausnirnar eru þó „auðskiljanlegar og auðveldar”. Sennilega er sú merkilegust sem fjallar um að skera niður skuldir heimilanna um 20% eða meira, jafnt yfir alla skuldara, án þess að slík aðgerð kosti ríkissjóð nokkurn skapaðan hlut. Mörgum verður reyndar á að spyrja: Vaxa peningar, sem til þessa þarf, á kræklóttum trjám Íslands? Koma þeir af himnum ofan? Eða er silfur Egils Skallagrímssonar, þess mikla nurlara, kannski fundið? Það væri nú spennandi!

Sama er um verðtrygginguna, sem er allra bölvaldur. Kveður nú hver í kapp við annan að hana verði að afnema. Líklega eigi síðar en nú þegar. Hún er hinn mikli þjófur sem hefði átt að stinga inn fyrir löngu. Ríkisstjórnin er versta ríkisstjórn frá lýðveldistímanum og hefur svikið hérumbil allt sem mögulegt er að svíkja – jafnvel meira til. Hvar er nú skjaldborgin um heimilin? „Viðskiptaumhverfi” stórnarflokkanna er ekki beinlínis vinsamlegt um þessar mundir, svo ekki sé fastar að orði kveðið. Til viðbótar við fjölradda kór gamalla og nýrra stjórnmálahreyfinga koma samtök atvinnurekenda og raunar verkalýðshreyfingin líka og kyrja sama sönginn:ALLT ER VITLAUST OG ÓMÖGULEGT, SVIKIN LOFORÐ OG FLEST Á LEIÐ TIL GLÖTUNAR. En engin nefnir að afnema verðtryggingu með því að afnema verðbólgu.

Þeir sem þjást af heilbrigðri skynsemi spyrja aftur á móti „heimskulegra” spurninga. Því ætti ríkisstjórnin að vera á móti iðnaðinum? Þarf ekki að búa eitthvað til í þessu landi? Er ekki rétt að fólk hafi eitthvað að gera, geti farið í vinnuna að morgni og komið heim að kvöldi.? Og því ætti ríkisstjórnin að vera á móti sjávarútveginum? Þurfum við ekki gjaldeyristekjur, eða hvað? Er ekki ástæða til að nýta auðlindina? Heilbrigða skynsemin botnar sem sagt ekkert í því einkennilega „viðskiptaumhverfi”, sem stjórnarflokkarnir þurfa að þrífast í. Þó virðist eitt ljóst: Samtök atvinnurekenda eru í mjög vondu skapi og hlakka greinilega óskaplega til að fá nýja ríkisstjórn (væntanlega með Sjálfstæðisflokkinn innanborðs). Þá verða skattar lækkaðir „til bjargar heimilunum”. „Kakan verður stækkuð” þannig að meira verði til skiptanna. Og auðvita verður meira til skiptanna ef jafnmargir snæða stærri köku. Og þá gefst þeim, sem venju samkvæmt, eru frekastir til fjárins, tækifæri til að ná í stækkun kökunnar fyrir sig.

Hvernig sem á því stendur fer fólk samt þúsundum saman í vinnu (líka í iðnaði), bátar fara á sjó, stórskip veiða loðnu síld og makríl, ferðamenn þyrpast til landsins, stóriðjan malar gull, skapandi greinar velta milljörðum, færri eru atvinnulausir en áður.

Meðal annarra orða. Hefur stjórnarandstaðan heyrt talað um hrun fyrir fjórum árum?
hágé.

Til höfuðs VG

 

Þjóðvilinn hefur verið í löngu fríi, en kemur nú aftur á vettvang. Hann er til vinstri - þeim megin sem hjartað slær - eins og sagt var forðum. Hve lengi hann birtist að þessu sinni ræðst af úthaldi ábyrgðarmanns. Tekið verður á móti stuttum greinum (hámark 500 orð), enda séu þær lausar við fúkyrði og meiðandi ummæli um nafngreint fólk. Ekki spillir fyrir að höfundar séu fyndnir, eða a.mk. gamansamir. Greinar sendist á helgi.gudmundsson@gmail.com

ooooooooooooooooooooooooooooo

 

Jón Bjarnason og fleiri hyggjast stofna til farmboðs, að því er DV segir „til höfuðs VG”. Jón var, eins og kunnugt er í efsta sæti hjá VG í Norð-vestur kjördæmi í síðustu kosningum. Á sínum tíma reyndi hann fyrir sér í Samfylkingunni, en hlaut ekki brautargengi. Þegar frá leið, leiddist honum í VG, einkum og sér í lagi „flokksforystan”. Hefur verið á honum að skilja að Steingrímur J. og fleiri hafi ekki bara svikið góðan málstað, heldur líka verið vondir við hann sjálfan og þá sem eru sama sinnis.

 

VG keypti aðgang að ríkisstjórninni nokkuð dýru verði, það blasir við. Málið var auðvitað ekki einfalt, því flokkurinn sem Jón vildi á sínum tíma fara í framboð fyrir, Samfylkingin, þráir mjög heitt að Ísland gangi í ESB. VG samþykkti að sótt yrði um, (líkt og JB hefur væntanlega gert á sinni tíð með því að reyna fyrir sér hjá SF. Áhugi á ESB er ekki nýr af nálinni þar á bæ). en hélt við þá afstöðu sína að hagsmunumm Íslands væri betur borgið utan sambandsins en innan. Þannig skildi VG strax í upphafi stjórnarsamstarfsins á milli umsóknar og aðildar. Þetta hlaut að þýða viðræður við ESB en engin loforð um að flokkurinn segði já í fyllingu tímans. Á síðasta landsfundi áréttaði VG afstöðu sína en taldi ekki ástæðu til annars en að ljúka viðræðum og leggja niðurstöðuna fyrir þjóðina.


 Vissulega hefði VG getað reynt aðra leið í þessu óskamáli SF, til dæmis þá að segja að það myndi ekki varða stjórnarslitum ef SF fengi meirihluta á Alþingi fyrir umsókn. Já, eða að segja bara nei, og sjá með því hvaða tækifæri SF teldi sig hafa í stöðunni, eða þá að segja: Við förum ekki í stjórn nema þjóðin verði fyrst spurð um hvort sækja eigi um aðild að ESB. Þá er auðvitað ekki víst að SF hefði átt aðra raunverulega kosti. En hvort sem VG-félögum líkar betur eða verr þá varð ofan á að fallast á umsókn. Hverjir voru á móti stjórnarsáttmálanum er Þjóðviljanum ekki ljóst.

Við afstöðu Jóns Bjarnasonar og félaga er ekkert að athuga, nema það að þeir félagar telja önnur mál (en ESB) ekki skipta miklu máli. Afleiðingin er sú að nú þykir rétt að bjóða fram til höfuðs VG, hvorki meira né minna. Rétt eins og vinstri pólitík eigi ekki nógu marga og öfluga andstæðinga!. Varla verður með nokkurri sanngirni sagt að vinstri stjórnin hafi ekki reynt að vinna fyrir þá verst settu, þó enn séu mörg vandamál óleyst. Auk þess að gæta að umhverfismálum, með rammaáætlun um virkjunarkosti, og reyna að koma í gegn breytingum á fiskveiðistjórnunni – allt umdeld mál, og miklu fleiri. Stjórarandstaðan hefur verið óvanalega harðskeytt á kjörtímabilinu, innanbúðarvandamálin áberandi hjá stjórnarflokkunum, einkum VG. Viðfangsefnin þar að auki langt frá því að vera auðveld eftir hrun. Nú bætist „Regnbogi” Jóns og félaga í lið Íhalds og Framsóknar. Líklegt er að „hreyfingu” þeirra verði nægilega ágengt til að skaða vinstri flokkana, sérstaklega VG. Inngöngu í ESB verður ekki endanlega ráðið í VG, ekki heldur í SF. Hún mun koma til kasta þverpólitískra Já og Nei-hreyfinga, ef til hennar kemur. Það getur ekki verið hlutverk VG að koma í veg fyrir að þjóðin segi mei við aðild með því að leggja málið ekki fryrir þjóðina, rétt eins og „lýðræðisflokkarnir” gerðu þegar Ísland gekki í NATO.

Til höfuðs VG þýðir því ekki annað en að „Regnboginn” gengur í lið með þeim sem berjast gegn vinstri pólitík. Reyndar er svo að sjá að framboðslistar í kosningunum verði eitthvað á annan tuginn og er erfitt að átta sig á hvað sumir þeirra vilja. Aðeins eitt framboð (ef af því verður) virðist hafa skýrt afmarkaðan andstæðing, „Regnboginn”. Fyrrverandi VG-félagar og þingmenn telja samkvæmt þessu að vinstri sjónarmiðum sé unnið mest gagn með framboði „til höfuðs VG.”


hágé.



Neitunarvald gegn meirihluta þjóðarinnar

Þjóðvilinn hefur verið í löngu fríi, en kemur nú aftur á vettvang. Hann er til vinstri - þeim megin sem hjartað slær - eins og sagt var forðum. Hve lengi hann birtist að þessu sinni ræðst af úthaldi ábyrgðarmanns. Tekið verður á móti stuttum greinum (hámark 500 orð), enda séu þær lausar við fúkyrði og meiðandi ummæli um nafngreint fólk. Ekki spillir fyrir að höfundar séu fyndnir, eða a.mk. gamansamir. Greinar sendist á helgi.gudmundsson@gmail.com

ooooooooooooooooooooooooooooo

Þegar þetta er ritað virðist ljóst að stjórnarflokkarnir neyðist til að víkja frá því að koma stjórnarskrárbreytingum, byggðum á afstöðu þjóðarinnar til tillagna stjórnlagaráðs, í gegnum þingið. Með stöðugum fullyrðingum Íhalds og Framsóknar um nauðsyn „sáttar” í málinu, að ekki sé minnst á skort á tíma, hefur stjórnarandstöðunni tekist að þreyta svo þingmeirihlutann að hann gefst upp.

 Að „sátt” þurfi að nást felur í sér að minnihlutanum er fengið neitunarvald í málum sem hann er ósáttur við. Með þeirri einföldu aðferð að neita að sættast, getur hann einfaldlega komið í veg fyrir að þau séu samþykkt, jafnvel þó ætla megi að meirihluti sé fyrir þeim á þingi eins og hjá þjóðinni..

 Í stað þess að leyfa stjórarandstöðunni að vera á móti í atkvæðagreiðslu og opinbera þannig afstöðu sína til niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar, virðist sem sköpuð séu skilyrði til að stjórnarskrármálið hreinlega deyji út. Þetta minnir enn einu sinni á mikilvægi þess að halda við sannfæringu sína í pólitík, þó að á móti blási, (jafnvel hressilega). Hér á það sérstaklega vel við því formaður Sjálfstæðisflokksina hefur réttilega bent á að það sé „efnislegur ágreiningur” um mikilvæg atriði eins og um þjóðareigna á auðlindum. Í hverju felst hann. Formaður flokksins hefur skýrt ágreininginn efnislega á þessa leið: Við eru tilbúin að breyta auðlindaákvæðinu, enda verði einkaeignarréttinum ekki raskað.

 

Verði niðurstaðan að hætta við samþykkt stjórnarskrárinnar, er það þeim mun hrapallegra sem afstaða Íhaldsins til eignarréttar á auðlindum hefur lengi verið ljós. Flokkurinn fékk þrá sína uppfyllta á síðasta kjörtímabili með því að samþykkt voru lög sem fólu í sér einkaeign á vatni. Þjóðin ætti ekki neysluvatnið sem streymdi upp úr jörðinni, heldur viðkomandi landeigendur. Óheftur aðgangur að neysluvatni er beinlínis mannréttindamál og viðurkennt sem slíkt á alþjóðlegum vettvangi. Hið sama á að gilda um allar aðrar náttúrulegar auðlindir. Það eru mannréttindi þjóðar að eiga sjálf auðlindir sínar, en ekki tiltölulega fáir einstaklingar. Til að mynda hefði verið til lítils barist fyrir stækkun landhelginnar ef auðlindir hafsins væru síðan færðar útgerðinni til eignar, í stað eðlilegs nýtingarréttar.

Ákvæði í stjórnarskrá um þjóðareigna á auðlindum er ekki síst mikilvægt nú þegar alþjóðlegir auðhringar, og „þjóðlegir kínverskir” sömuleiðis, teygja anga sína um allan hnöttinn af meiri ákafa en um langan aldur. Hinn kapitalíski heimur hefur þess utan hug að fella niður sem flestar hindranir á heimsviðskiptum, og mögulegt er, í gegnum Alþjóða viðskiptastofnunina. Það getur auðveldlega þýtt að auðhringar nái tangarhaldi á auðlindum þjóðar, jafnvel eignist þær. Það þarf ekki þjóðrembing til að sjá að slíkt er hættulegt fyrir smáþjóðir, sem eiga allt sitt undir því að geta nýtt arðinn af auðlindunum í eigin þágu.

Hugo Chavez, forseti Venesúela lést á dögunum. Af því tilefni hefur verið rifjað upp að ríkisstjórn hans þjóðnýtti olíuauðlindir og vinnslu í landinu. Við það gerðist tvennt. Ýmis nágrannaríki fengu olíu langt undir „heimsmarkaðsverði”, en á sama tíma tókst að stórbæta lífskjör hinna fátæku í landinu. Þetta dæmi hefði landsfundur Sjálfstæðisflokksins öruggleg ekki getað reiknað, en það segir okkur hvílíkan óhemju hagnað olíuhringarnir hafa af olíuvinnslu í veröldinni, á kostnað almennings. Sjálfstæðisflokkurinn er trúr varðveislu einka hagsmuna af þessu tagi, en í því á vinstri stjórn ekki að láta neyða sig til að taka þátt í.

hágé.


Um vandann að vera til

 
Þjóðvilinn hefur verið í löngu fríi, en kemur nú aftur á vettvang. Hann er til vinstri - þeim megin sem hjartað slær - eins og sagt var forðum. Hve lengi hann birtist að þessu sinni ræðst af úthaldi ábyrgðarmanns. Tekið verður á móti stuttum greinum (hámark 500 orð), enda séu þær lausar við fúkyrði og meiðandi ummæli um nafngreint fólk. Ekki spillir fyrir að höfundar séu fyndnir, eða a.mk. gamansamir. Greinar sendist á helgi.gudmundsson@gmail.com
 
ooooooooooooooooooooooooooooo
 
 
Sjálfstæðisflokkurinn landsfundaði á dögunum, um sömu helgina og VG. Trúir sínum hefðum sýndu sjálfstæðismenn sérstakan skilning sinn í reikningi, eins og stærðfræðin hét í gamla daga. Þá var krökkum kennt í barnaskóla mikilvægi þess að ein tala væri annarri hærri, sem gæti haft sínar afleiðingar. Sett voru upp einföld dæmi í þessa veru: Kalli á 10 krónur. Hann langar í appelsínu sem kostar 6 krónur og kaupir hana. Hvað fær hann margar krónur til baka?

Flestir krakkar voru fljótir að átta sig á dæminu. Líka þessu: Kalli á 6 krónur og langar í appelsínu sem kostar 10 krónur. Getur hann keypt appelsínuna? Skynugir krakkar sáu að það gat Kalli greyið ekki. Einhversstaðar varð hann að útvega sér fjórar krónur eða sleppa því að kaupa. Þessi einföldu dæmi virðast ofvaxinn skilningi þeirra Sjálfstæðismanna. Þeir segjast ætla að lækka skatta og gera allt fyrir alla um leið – einkum heimilin - „allskonar fyrir alla” eins og borgarstjórinn segir.

„Frumleiki” sjálfstæðismanna fellst í því að segja nákvæmlega það sama og þeir hafa gert um árabil, enda er það þægilegast. Að semja nýjar ályktanir, að ekki sé talað um að þær innhaldi nýja sýn á viðfangsefni samfélagsins við breyttar aðstæður – það er ekki heiglum hent.

Um svipað leyti svaraði ungur leiðtogi Sjálfstæðismanna, spurningum lesenda DV. Ein spurningin var um gjaldþrot Seðlabankans í hruninu.

„Seðlabankar verða ekki gjaldþrota. Þeir prenta bara meiri peninga,” svaraði ungi maðurinn efnislega.

Einföld og „snöll” núíma lausn fyrir ríkissjóð. Hallinn þar á bæ var talsvert á þriðja hundrað milljarða í upphafi þessa kjörtímabils. Steingrímjur J. Sigfússon fyrrum fjármálaráðherra, er eins og allir vita afar gamaldags. Trúr gamalli stærðfræði sá hann að appelsínur á 10 krónur yrðu ekki keyptar fyrir 6 krónur. Hann og félagar hans á þingi réðust af grimmd á ríkissjóðshallann og komu honum niður undir núllið á kjörtímabilinu. Sársaukafullt að sönnu, en það tókst. Þarna hafa þeir greinilega valið kelduna en ekki krókinn. Seðlabankinn hefði auðvitað átt að prenta meiri peninga og borga skuldina fyrir ríkissjóð, hvort heldur hún var innlend eða erlend. Prentvélar eru gagnlegt hagstjórnartæki.

Þetta hefði aðeins verið byrjunin. Í næsta skrefi hefðu skattar verið felldir niður, en prentvélarnar settar í gang og prentaðir peningar fyrir útgjöldum ríkissjóðs. Ríki sem á Seðlabanka verðurí ekki gjaldþrota, samkvæmt kenningu unga mannsins. Bankinn prentar fyrir hann þá peninga sem þarf. Frá hinni bráðsnjöllu „íslenksu leið” hefði svo verið sagt í erlendum blöðum undir fyrirsögnum á borð við þessa: Prentvélar í Bretlandi leysa efnahagsvanda Íslendinga. Og ekki nóg með það! Sú gamalgróna menningarþjóð, Grikkir, sem lepur nú dauðann úr skel – henni hefði mátt veita hraustlega efnahagsaðstoð með sömu aðferð. Þar í landi hefur mannfólkið fengið smjörþefinn af efnahagsmenningu hinna ríku – einkabönkum skal forðað frá gjaldþroti með sköttum á almenning og auknum skuldum ríkisins.

Í þessu – að 10 krónu appelsína verður ekki keypt fyrir 6 krónur felst galdur, sem nauðsynlegt er að skilja, þótt í því kunni um leið að felast einn vandinn að vera til.


hágé.

 
 
 

Um hvað er deilt?

Áður en langt um líður mun Alþingi Íslendinga loksins koma sér að því að ákveða hvort veita eigi ríkisábyrgð á Icesave samningunum. Mörg „spakleg“ orð hafa fallið í aðdraganda ákvörðunarinnar, oftast komin frá þeim sem virðast vilja segja nei takk – við borgum ekki. Þess ber þó að geta að meirihluti þeirra sem verulega láta málið til sín taka og hafa aðstöðu til að fjalla um það á „faglegum“ forsendum, sýnast komnir á þá skoðun að ekki verði vikist undan að borga. Er það sannarlega mikil breyting frá því sem áður var þegar málið kom fram fyrir meira en tveimur mánuðum. Á hinn bóginn er deilt um hvort samningurinn leggur ríkari greiðsluskyldu á Íslendinga en lög standa til. Hver „sérfræðingurinn“ um annan þveran hefur stigið fram á ritvöllinn og verður ekki betur séð en skoðanir þeirra vegist fullkomlega á, þannig að engin leið er fyrir leikmenn að átta sig á hvað er „rétt“ og hvað „rangt“.

Ragnar H. Hall lögmaður hefur látið málið til sín taka og haldið því fram að landsmenn verði látnir borga miklu meira en þeim ber að lögum og reglum, ef samningarnir verði samþykktir óbreyttir. Hefur nefndur Ragnar orðið helsta átrúnaðargoð andstæðinga samningsins og er margvitnað til hans í ræðu og riti. Ekki er nokkur ástæða til að efast um færni lögmannsins, hann hefur marga fjöruna sopið á lögmannsferli sínum. Gallinn er bara sá að, eins og fyrri daginn, að margir aðrir lögfræðingar sem ekki verða taldir sérstakir aukvisar á sínu sviði heldur eru RHH ósammála. Nú síðast (11.8.) birtist grein í Morgunblaðinu eftir Hróbjart Jónatansson lögmann, þar sem hann kemst að þeirri niðurstöðu að af tvennu illu sé skárra að semja. Erfitt yrði að verja íslenska ríkið, jafnvel fyrir íslenskum dómstóli, ef erlendu innistæðueigendurnir færu í mál. Þeir hafi verið í góðri trú um að allt væri í lagi með bankana. Kröfur þeirra séu því eðlilegar og sanngjarnar. Og þannig mætti halda áfram að telja upp ótal aðila sem tefla fram „skotheldum“ rökum fyrir málflutningi sínum en vel að merkja: tala í austur og vestur enda þótt „sérfræðingar“ séu.

Alþingi ræðir nótt og nýtan dag um hvort setja eigi skilyrði, eða fryrirvara með samþykkt ríkisábyrgðar. Málið er að sönnu stórt og hreint ekki einfalt en áhorfanda útí bæ gæti virst þingið vera með ákvörðunarharðlífi. Ekki er fyrr komið svar við einni spurningu (raunar oftast mörg) þegar annað álitamálið er dregið fram og þingnefndir funda og funda. Hvenær þeim marþonfundum lýkur er óvíst, þegar þetta er skrifað, og málþófið hefst í sölum Alþingis. Leikmanni virðist málið raunar ekki flókið, annaðhvort setur þingið skilyrði, eða fyrirvara. Setji þingið skilyrði þá þýðir það væntanlega að ríkisábyrgðin tekur ekki gildi nema viðsemjendurnir samþykki skilyrðin. Geri þingið þetta þá eru samningarnir í raun felldir eins og þeir eru og nýjar samningaviðræður yrðu að eiga sér stað, það er að segja ef viðsemjendurnir kærðu sig yfirleitt um að tala meira við okkur. Líklega myndu þeir seint og um síðir þó koma aftur að borðinu, en afar vafasamt er að þeir myndu þá vilja veita hagstæðari lánskjör, en nú hafa fengist. Með hvaða rökum ættu þeir að réttlæta það heima hjá sér?

Öðru máli gegnir ef þingið setur fyrirvara, sem lýsa því ástandi sem þurfi að skapast til að Íslendingar notafæri sér opnunarákvæði samningsins. Ekki verður betur séð en að slíkur fyrirvarar séu eðlilegir og gildir þá einu hvort viðsemjendur samþykki þá núna eða standi frammi fyrir þeim þegar og ef Ísland telur komnar upp þær aðstæður sem í fyrirvörunum yrði lýst. Ríkisábyrgðin tekur þá gildi strax og hægt er að fara að nýta eignir Landsbankans sáluga til að lækka höfuðstólinn. Ef til upptöku samningsins kemur (í samningunum eru ákvæði sem opna á breytingar) eru fyrirvararnir tiltækir í vopnabúri þeirra sem þá verða á vettvangi.

Svo mikið hefur borið á stóryrðum í umræðum um málið að tungumálið hefur beinlínis verið gjaldfellt. Landráðamenn og þjóðníðingar eru á öðru hverju horni og þykir greinilega sérstök ástæða til að hrakyrða þá sem í samninganefndinni voru. Þeir eru jöfnum höndum vændir um kunnáttuleysi og landráð. Ofurtrú á „óháða sérfræðinga“ eða einhverskonar Rambó í samningum milli þjóða gerir hvað eftir annað vart við sig. Ef „rétt“ fólk hefði verið í samninganefndinni væri öldin aldeilis önnur. Látið er liggja í þagnargildi við hvaða aðstæður samningamenn tóku að sér verkið, hvaða skilyrði Alþingi og ríkisstjórnir undangenginna missera skópu. Svo aðeins eitt mikilvægt atrið sé nefnt þá setti Alþingi neyðarlög sem mismunuðu innistæðueigendum eftir því hvort þeir væru hérlendir eða erlendir.

Málið er vissulega mjög erfitt, einkum fyrir VG. Fjármálaráðherra ber ábyrgð á samningunum, en hluti þingflokksins er þeim andvígur, þannig að ekki er einu sinni víst að þeir komist í gegnum þingið. Við þennan ágreining er einn stórkostlegur galli. Andstæðingar samningsins hafa ekkert sagt um það sem þeir vilji gera í staðinn og fjármálaráðherra hefur fyrir sitt leyti fátt bitastætt fært fram um hvað taki við, verði samningurinn felldur, né heldur hver sé afstaða hans til skilyrða eða fyrirvara. Flokksmenn og stuðningsmenn flokksins vita því varla í hvorn fótinn þeir eiga að stíga – vita ekkert um hvað ágreiningurinn raunverulega stendur.

hágé.


"...ekki einn einasti alþingismaður..."

Fyrrverandi starfsmaður Sjúkrasamlags Reykjavíkur (gott ef ekki fyrriverandi forstjóri), fyrrverandi borgarstjóri í Reykjavík, fyrrverandi alþingismaður, fyrrverandi forsætisráðherra, fyrrverandi utanríkisráðherra, fyrrverandi seðlabankastjóri og staðfastur trúmaður á frjálst framtak einstaklingsins, Davíð nokkur Oddson, var í konungsviðtali í Morgunblaðinu sunnudaginn 5. júlí 2009. Þessi fyrrverandi af öllum fyrrveröndum á snærum hins opinbera, sem hefur líklega aldrei unnið heilt ásverk hjá fyrirtæki í einkaeigu, hvað þá að hann hafi rekið fyrirtæki, átti það til hér áður fyrr að vera launfyndinn og orðheppinn í besta lagi. Nú er öldin hins vegar önnur. Í viðtalinu hefur hann flest á hornum sér vegna þeirra ófara sem Íslendingar hafa ratað ég – nema eitt. Hann sjálfur hefur hvergi komið nærri, hvergi sér þess stað að hann hafi með pólitík sinni á árum áður lagt grunn að því hvernig komið er. Enn síður að hann sem seðlabankastjóri hafi af alvöru reynt gera eitthvað í því skyni að koma í veg fyrir þau efnahagslegu ósköp sem hann vissi að voru við sjóndeildarhringinn.

Blaðamaður spyr: „En nú skrifaðir þú sem seðlabankastjóri undir samninginn við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn ásamt Árna Matthíesen, þáverandi fjármálaráðherra, þar sem Icesave var nefnt, ekki satt?” Og fyrrverendi altmúligmann svarar: „Það er alveg rétt. Þegar samningur er gerður fyrir hönd ríkis við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, þá kemur það annars vegar í hlut fjármálaráðherrans og hinsvegar í hlut seðlabankastjórans að undirrita slíkan samning. Hlutverk seðlabankastjórans með slíkri undirritun hefur bara með það að gera að staðfesta að Seðlabankinn muni sinna þeim skyldum sem að Seðlabankanum snúa í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn samkvæmt samningnum. Hlutverk Seðlabankans hefur ekkert með það að gera að skuldbinda ríkið til að greiða peninga. Sá þáttur er algjörlega í höndum ríkisins, og að lokum Alþingis....”

Þetta er sérkennilega „skarplega” athugað hjá DO. Því er líkast sem samningur við AGS detti af himnum ofan og seðlabankastjórinn hafi sama hlutverk og líflaus stimpilvél á pósthúsi. Þó veit bankastjórinn að lausn á Icesavdeilunni hangir við samninginn við AGS. Að hans áliti felast drápsklyfjar á þjóðina í þeim skuldbindingum. Þetta veit hann þegar hann tekur sér stöðu stimpilvélarinnar. Sem ábyrgur bankastjóri, með þá vitneskju sem hann segist búa yfir, hefði hann að sjálfsögðu átt að neita að skrifa undir samninginn, eða hvernig reiknaði maðurinn með að Seðlabankinn gæti sinnt skyldum sínum þegar þjóðin lenti í þroti, vegna skulda sem Landsbankinn hafði stofnað til?

Það er að sjálfsögðu rétt hjá DO að þjóðin stofnaði ekki til þeirra skuldbindinga sem Landsbankamenn gerðu með galopin augun og seðlabankastjórinn fyrrverandi líka: „Ég sagði á fundi sem við í Seðlabánkanum áttum með Halldóri J. Kristjánssyni og Sigurjóni Þ. Árnasyni, bankastjórum Landsbankans, snemma árs 2008, þar sem þeir reifuðu þau sjónarmið Landsbankans að ríkið bæri ábyrgð á Icesave-skuldbindingum Landsbankans: Þið getið útaf fyrir sig sett Björgólf Guðmundsson á hausinn, og þið eruð sjálfsagt komnir langleiðina með það, en þið hafið ekkert leyfi til að setja íslensku þjóðina á hausinn. Á þessum fundi í Seðlabankanum var ítrekuð sú afstaða Seðlabankans að Landsbankinn gæti ekki safnað peningum endalaust erlendis og við þá söfnun skapaðist sjálfkrafa ríkisábyrgð á Íslandi, ríkisábyrgð sem ekki einn einasti alþingismaður hefði hugmynd um að verið væri að búa til.” (Leturbr. hágé.)

„Sæll!” eins og ungmennin segja nú til dags. Altmúligmannen í stóli bankastjóra Seðlabankans vissi strax í byrjun árs 2008 að bankastjórar Landsbankans væru ekki einasta langt komnir með að gera eigandann gjaldþrota. Þeir söfnuðu líka „endalaust” peningum í Englandi með ríkisábyrgð sem „ekki einn einasti” alþingismaður hafði hugmynd um „að verið væri að búa til”. Hvað gerði nú bankastjórinn þegar hann vissi hvað verið var að gera? Sagði hann eigandanum að bankastjórarnir væru að gera hann gjaldþrota? Um það vitum við auðvitað ekki. En sagði hann forseta þingsins hvað var í gangi? Nei, það gerði hann ekki. „Hver einasti” þingmaður var áfram grunlaus um í hvað stefndi. Barði DO í borðið og sagði bankastjórunum að snúa þegar í stað af þeirri braut sem þeir höfðu „ekkert leyfi” til að feta? Nei það gerði hann ekki. Þess í stað sagði hann mislukkaðan brandara um væntanlegt gjaldþrot eigandans. Stóð bankastjórinn einhverntíma upp, lagði embætti sitt að veði, og upplýsti alla landsmenn um að Landsbankinn stefndi Íslendingum í fjárhagslega glötun? Nei það gerði hann ekki, hann sat þangað til Alþingi neyddist til að setja ný lög um Seðlabankann og losna þannig við hann.

Stórkostleg afglöp í starfi. Hver gætu þau verið í tilfelli DO? Réttast að hver svari fyrir sig.

hágé.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband