Geðhjálp úr ÖBÍ?


Félagið Geðhjálp hefur undanfarið látið sterklega að því liggja að það hygðist segja sig úr Öryrkjabandalaginu. Ástæðan er aðallega sú að Hússjóður ÖBÍ er að mati félagsins ekki nægilega vel rekinn, en auk þess hafa komið fram efasemdir um það hjá framkvæmdastjóra félagsins að samtökin eigi yfir höfuð að standa í leiguíbúðarekstri, það verkefni eigi að vera á hendi sveitarfélaga.


Nú er það svo að rekstur Hússjóðsins getur ekki verið hafinn yfir gagnrýni, undirritaður hefur sjálfur búið í íbúð á vegum sjóðsins og varð nokkuð oft var við óánægju leigjenda með viðbrögð við beiðnum um lagfæringar. Að öðru leyti var ekki yfir neinu sérstöku að kvarta, Öryrkjabandalagið reyndist fjölskyldu minni ágætur leigusali.


Í eigu sjóðsins munu nú vera allmargar íbúðir sem of illa hefur verið haldið við og svara ekki kröfum tímans. Geðhjálp hefur meðal annars gagnrýnt þetta ástand og Sigursteinn Másson sagði af sér formennsku í ÖBÍ að sögn vegna ágreinings um starfssemi Hússjóðsins. Að félagið segi sig úr samtökunum af þessum ástæðum er í hæsta máta vafasamt, enda getur varla verið fullreynt að eignir og starfsemi Hússjóðsins verði tekið til frekari skoðunar og umbóta


Öryrkjar þurfa á öllum sínum samtakamætti að halda. Að einstök félög segi skilið við bandalagið, vegna ágreinings sem á að vera hægt að leysa og er í eðli sínu skammtímaágreiningur, skemmtir einungis skrattanum, gerir samtökin máttminni til að berjast fyrir hagsmunum félagsmanna sinna. Þeir þurfa sannarlega á öðru að halda en sundruðum samtökum. Það getur ekki verið tilviljun að öryrkjar sáu á sínum tíma ástæðu til að stofna með sér heildarsamtök. Tilgangurinn liggur í augum uppi – með því að vinna saman sem ein heild næst bestur árangur.


Að samtökin eigi ekki að reka leiguhúsnæði fyrir félagsmenn sína finnst mér ekki umdeilanlegt. Sveitarfélögin, einkum lítil sveitarfélög úti á landi hafa ekkert bolmagn til að sjá fötluðu fólki fyrir sómasamlegum íbúðum, um það vitna langir biðlistar eftir íbúðum. Í annan stað á skynsamlega rekinn Hússjóður að vera metnaðarmál og stolt samtaka öryrkja. Það veitir þeim sjálfstraust og fullvissu um getu á sviði sem hið opinbera sinnir ekki eins og skildi. Þar að auki veit undirritaður ekki betur en íbúðir Öryrkjabandalagsins sé reistar fyrir hlutdeild samtakanna í Lottóhagnaði. Ef hússjóðurinn hætti starfsemi (svipuð viðhorf hafa heyrst frá Sjálfsbjörgu sem undirritaður er félagi í) þá má spyrja: í hvað á að nota þennan hagnað, eða mun ÖBÍ afsala sér honum?


Forystumenn Geðhjálpar hafa einatt verið mjög öflugir talsmenn, bæði fyrir sitt fólk og öryrkja almennt. Að missa félagið út úr ÖBÍ yrði því tilfinnanlegur skaði fyrir samtökin, þau þurfa sannarlega á öllum sínum liðstyrk að halda. Deilur um Hússjóðinn og rekstur hans á að leysa, með samningum, lagni og þolinmæði. Rekstur hans getur ekki verið svo heilagur að þar megi ekki gera betur og öllum á að vera ljóst að íbúðir fyrir fólk með sérþarfir þurfa mikið viðhald og algerra endurbóta við með tímanum. Í byggingariðnaði er einatt talað um að húsnæði þurfi endurbyggingar og stórkostlegrar lagfæringar við tvisvar til þrisvar á öld. Þokkalega byggð steinhús eiga að standa að minnsta kosti hundrað ár og miklu lengur ef vel er um þau hirt. Í þessu sambandi má nefna til gamans að yfirmaður fasteigna hjá norsku konungsfjölskyldunni sagði nauðsynlegt að taka sjálfa konungshöllina í gegn á 50 ára fresti!


Undirritaður getur því miður ekki hrósað sér af því að hafa verið virkur í samtökum öryrkja. Þannig er um miklu fleiri og hafa afar margir það sér til málsbóta að hafa ekki orku eða heilsu til að sinna félagsstörfum. Fari Geðhjálp út úr samtökunum er mikill skaði skeður, því samtökin hafa oft haft á að skipa mjög öflugum talsmönnum, sem geta komið öllum öryrkjum til góða.

hágé


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband