Hvernig er umhorfs í Köldum kolum?

Fáir menn hafa jafn gott lag á að láta taka eftir sér og Davíð Oddsson „Seðlabankastjóri”. Heilu kynslóðirnar þekkja stórkarlalegar (stundum fyndnar) yfirlýsingar hans á meðan hann var formlega séð í pólitík. Sömu kynslóðir súpa nú seyðið af því hversu hraksmánarlega ríkisstjórnir hans fóru með almannafé, eignir og hagsmuni. Ríkiseignir seldar að þarflausu, andvirðið notað til að létta skattbyrði hinna efnameiri – einnig að þarflausu.

Nú situr nefndur Davíð í forsæti „Seðlabankans” og lætur til sín heyra og taka eins og fyrri daginn. Hinsvegar gerist það nú, sem ekki var vaninn áður fyrr, að allt sem hann tekur sér fyrir hendur í nafni þeirrar „virðulegu” stofnunar mistekst í besta falli, en er líklega jafn oft til bölvunar.

Síðasta útspilið var að hækka stýrivexti í 15,5% í því skyni að skjóta niður verðbólguna. Hún vex aftur á móti í réttu hlutfalli við hækkanir bankans á nefndum vöxtum. Engin teikn eru um að vaxtahækkanirnar hafi hin minnstu áhrif til lækkunar verðbólgu. Gengur reyndar maður undir manns hönd að segja Davíð og Hannesi Hólmsteini (hann situr að sjálfsögðu við hlið meistarans í stjórn "Seðlabankans" ásamt Dóra Blöndal og fl.) að hætta þessum asnaskap. Nú síðast tala hagfræðingar opinskátt um að hreinsa verði til í bankanum, hann sé gagnslaus stofnun eins og honum sé stjórnað.

Sanngjarnt er að reikna mönnum til tekna það sem þeir segja af viti. Þannig sagði Davíð á ársfundi "Seðlabankans" á dögunum að bankar ættu að bjarga sér sjálfir, þeir hefðu ekki verið seldir með ríkisábyrgð. Hefði svo verið hefði verðið orðið miklu hærra. Það var hreint ekki vonum fyrr að „ábyrgur” maður tæki af skarið í þessum efnum, eins og fjölmiðlar og „virtir sérfræðingar” hafa hver um annan þveran hamrað á því að „Seðlabankinn” og ríkið verði að koma bönkunum til bjargar í þeim „hörmungum” sem yfir þá ganga um þessar mundir.

Flest annað sem haft hefur verið eftir bankastjóranum á nefndum fundi bendir til þess að hann hafi vaknað úrillur að morgni fundardagsins. Þannig sagði hann að verð á íbúðarhúsnæði myndi lækka um 30% á næstu misserum og hafi ég skilið rétt: atvinnuleysi verða 5 – 6%, þá fyrst myndi verðbólgan lækka. Svo mörg voru þau orð. Var einhver að nefna að tala mætti verð á verðbréfum, jafnvel peningum upp eða niður eftir atvikum? Þarf þá atvinnuleysi til að lækka verðbólguna en ekki hækkun stýrivaxta? Í stuttu máli: bankastjórinn er hér að staðhæfa að allt sé að hrynja til kaldra kola.

Á meðan bankastjórinn geðvonskast í Svörtuloftum hafa samtök atvinnurekenda ákveðið að láta kanna ítarlega hvort fyrirtæki innan samtakanna geti tekið upp evru í viðskiptum sín í milli, borgað laun í evrum og verðlagt vörur sínar í sama gjaldmiðli. Eftir því sem best verður séð koma engin lagaákvæði í veg fyrir að þetta sé hægt. Hefur slíkt fyrirkomulag reyndar tíðkast í litlum mæli árum saman, með því að erlendum ferðamönnum er boðið að greiða fyrir margvíslega vöru og þjónustu í erlendum gjaldeyri.

Atvinnurekendur eru með öðrum orðum steinuppgefnir á "Seðlabankanum". Samtök þeirra hafa margsinnis bent á að bankinn sé með öllu gagnslaus í baráttunni við verðbólguna. Taki fyrirtækin upp evru hlýtur að koma upp „spennandi” ástand sem ekki sér fyrir endann á. Verðmerkingar í búðum hlytu þá að verða í krónum og evrum. Við gætum hugsað okkur að mjólkurlítrinn kosti 100 íslenskar krónur, eða eina evru. Viðskiptavinurinn  hlyti að geta valið, ekki satt, um að borga með evrum eða krónum.

Hverjir gætu borgað með evrum í því tvöfalda kerfi sem komið yrði upp? Væntanlega engir aðrir en þeir sem fengju útborgað í evrum eða hefðu á annan hátt aðgang að gjaldmiðlinum. Myndi ríkissjóður greiða sínu starfsfólki í evrum, eða sveitarfélögin? Fengju öryrkjar og aldraðir greitt í evrum? Nei, að sjálfsögðu ekki. Ríkissjóður greiðir í þeim gjaldmiðli sem hann er rekinn á, sömuleiðis sveitarfélögin en fyrirtækin í sínum. Eftir því sem lengur er hugsað um svona fyrirkomulag verður maður heimóttarlegri og skilningssljórri á svipinn og spyr sjálfan sig: hvernig er eiginlega umhorfs í því Kalda koli sem Davíð Oddson boðar? Ætli þar séu enn nagaðir blýantar eins og Jón Baldvin sagði forðum?

hágé.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband