Vandlifað

 

Þegar stóriðju- og virkjanafárið hófst sögðu „vísir” menn að búast mætti við spennu á vinnumarkaði, hugsanlega nokkurri verðbólgu. Auk þess væri ekki útilokað að Seðlabankinn neyddist til að hækka stýrivexti. Framkvæmdum á vegum ríkisins var frestað um sinn til að draga úr þenslunni og boðað að þær yrðu teknar upp um leið og um hægðist. Þá yrði líka hægt að lækka stýrivextina þannig að lendingin yrði „mjúk”. Allt gekk þetta eftir en ekki endilega í réttri röð eða með „réttum” afleiðingum. Spenna varð á vinnumarkaði. Verkafólk kom hingað þúsundum saman til að vinna, ekki bara við stóriðju- og virkjanaframkvæmdir, heldur fjöldamargt annað, ekki síst byggingaframkvæmdir á höfuðorgarsvæðinu.


Stýrivextirnir eru illskiljanlegt fyrirbæri fyrir venjulegt fólk og næstum ómögulegt að átta sig á hvaða tilgangi þeir þjóna í raun og veru. Nú er stóriðjuatganginum lokið í bili. Þá bregður svo við að Seðlabankinn hækkar stýrivexti sem aldrei fyrr, sjálfkrafa hefur dregið úr þenslunni, en verðbólgan hefur ekki verið hærri í háa herans tíð en einmitt um þessar mundir. Skoðum tímasetningarnar aðeins nánar: Þenslan kom og er á förum á „réttum” tíma. Verðbólgan varð aftur á móti með seinni skipunum og birtist ekki að verulegu marki fyrr en tímabilið var liðið. Og merkilegt nokk: Seðlabankinn kemur stýrivöxtunum í hæstu hæðir á sama tíma án þess að það hafi nokkur áhrif á verðbólguna eftir að þensluskeiðinu lauk.


Og ekki nóg með það: Seðlabankastjóri, hinn mikilvirki Davíð Oddson, talar niður verð á íbúðarhúsnæði um 30% og lætur liggja að enn meiri hækkun stýrivaxta. Með öðrum orðum: Það sem hefði átt að gerast að mati „vísustu” manna gerðist ekki. Í þessu sambandi er vissulega rétt að halda öllu til haga. Þannig stafa verðhækkanir á influttum vörum að nokkru af hækkunum erlendis, og er ekki margt við því að gera, hvað sem trukkakallar segja.


Hvernig myndi skynsamur almúgamaður bregðast við þessu ástandi, hafandi aldrei gengið um hin glæsilegu húsakynni Seðlabanka Íslands? Hann myndi væntanlega hugsa sem svo: Til að mæta hinum erlendu hækkunum, gerum við innlendum fyrirtækjum og heimilum kleift að komast betur af með innlendum ráðstöfunum. Það er meðal annars kosturinn við að vera ekki í Evrópusambandinu þegar svona stendur á. Reynum því að lækka innlenda kostnaðinn eins og hægt er á móti erlendu hækkununum.


Hvað gera bændur til þess? Þeir byrja á að lækka hina óskiljanlegu stýrivexti og þar með vaxtakostnað bæði fyrirtækja og heimila. Þarna er áreiðanlega talsvert að vinna. Þeir segja sem svo: Jú, kannski er of mikið byggt sunnanlands um þessar mundir, hægjum á þeirri ferð, en stöðvum hana ekki. Hvernig þá? Með stóreflingu Íbúðalánasjóðs, (bankarnir eru með allt niðrum sig og verða að bjarga sér) þannig að hann geti lánað til eðlilegs framhalds í byggingariðnaði. Fyrirtæki í framleiðslu og útflutningi eru ekki í svo slæmum málum, verð er almennt hátt á framleiðsluvörum þeirra og lítill vandi að selja. Um leið og vextir lækka á fyrirtækjum almennt batnar hagur þeirra og möguleikar til að bæta kjör hinna lakast settu.


En því miður. Seðlabankastjórinn og aðrir ráðamenn þjóðarinnar eru gleymnari en æskilegt má teljast. Þeir muna nú ekkert af því sem sagt var fyrir þensluna, lækka ekki vextina alræmdu og gefa atvinnulífinu heldur ekki neina innspýtingu. Þess í stað tala þeir eins og réttast sé að skrúfa fyrir alla skapaða hluti. Ekki kaupa neitt segir Geir, sparið og sparið. Ekki kaupa og selja fasteignir. Þær eiga eftir að lækka um 30% segir Davíð Oddsson. Í stuttu máli sagt. Hér er greinilega ætlunin að gera „lendingun” eins harkalega og mögulegt er, rétt eins og nú sé komið að skuldadögum og nauðsynlegt að taka upp refsingar við hæfi.


Það er sannarlega vandlifað í henni veröld:

hágé.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband