Við getum sko hækkað okkar vörur eins og aðrir!


Nóbelsverðlaunahafi í hagfræði, Joseph Stiglitz, skrifar grein í Fréttablaðið í dag (10. maí). Hann lýsir mikilli samúð með þeim þjóðum þar sem Seðlabankar hafi svokölluð verðbólgumarkmið, líkt og hér á Íslandi. Grein hans er fantagóð viðbót í þann hafsjó af stóra sannleik sem hagfræðingar úr ýmsum áttum hafa boðað undanfarið. Eins og allir vita hefur Seðlabankinn bara eitt svar við hækkandi verðbólgu – hærri og hærri stýrvexti. Ekkart fær haggað þessum staðfasta ásetningi að verðbólga verði lækkuð með hærri vöxtum. Davíð Oddsson oddviti bankans segir að nú gildi að halda út, þrjóskast við fram í rauðan dauðann.

Jóseph er á öður máli. Hann segir að hrísgrjón eða eldsneyti verði ekki lækkuð í verði með hækkuðum vöxtum í landi kaupandans.. Hann gefur hagfræði frjálshyggjunar undanfarin ár ekki háa einkunn og telur stýrivaxtafárið engu betra. Kenning hans hefur þann kost að vera bæði auðskilin og í bærilegu samræmi við heilbrigða skynsemi. Hann segir að hækkun á hverskyns vörum á heimsmarkaði verði ekki mætt með hækkun vaxta af þeirri einföldu ástæðu að þær vörur sem framleiddar eru í viðkomandi landi, hækki vegna vaxtanna, sem auk þess geti leitt til atvinnuleysis. Stýrivextir hafi á hinn bóginn alls engin áhrif á verðlag á heimsmarkaði. Með öðrum orðum: Sé þessi hugmynd Jósephs rétt gerir stýrivaxtahækkun ekki annað en að tryggja að innlend framleiðsla hækki eins og þær vörur sem lúta lögmálum heimsmarkaðar – hvað svo sem það annars þýðir.

Við lestur greinarinnar fer maður að velta fyrir sér fyrir hvað verðlaunahafar Nobelsnefndarinnar eru verðlaunaðir þegar hagfræði á í hlut. Ekki verður betur séð en eitt reki sig á annars horn. Hann segir m.a. „Á níunda áratug 20. aldar féllu þeir [seðlabankastjórar heimsins] fyrir einfeldningslegri hagfræðikenningu (e. monitarism), sem Milton Friedman hélt á lofti. Eftir að peningahagfræðin var afskrifuð – með ærnum tilkostnaði fyrir þau ríki sem létu glepjast af henni – hófst leitin að nýju bænaversi.”

Nýja bænaversið er verðbólgumarkmiðið að sögn höfundar, vers sem getur ekki með nokkru móti virkað, af þeirri einföldu ástæðu að bensín og aðrar vörur á heimsmarkaði verður ekki lækkað með hækkun vaxta hjá kaupandanum. Hann kallar kenninguna klossaða, litla hagfræði og þar að auki lítið rannsakaða. Jóseph rekur síðan dæmi um ábyrgðalausa stefnu sumra ríkja, eins og Bandaríkjanna sem taka feikilega mikið land til að rækta plöntur sem framleiða má úr eldsneyti, með þeim afleiðingum að verð á matvælum stórhækkar.

Aftur að Nobelsnefndinni. Hún verðlaunaði þá báða Milton og Jóseph, væntanlega fyrir frumlega hugsun í hagfræði – eitt rekur sig á annars horn.


Með öðrum orðum: Hafi Jóseph rétt fyrir sér leiða stýrivaxtahækkanir ekki til annars en að hækka innlendar vörur til jafns við þær innfluttu. Við endurtekinn lestur greinarinnar vaknar óneitanlega sá grunur að að greinarhöfundur hafi mikið til síns máls. Hversu oft og ákaft sem bláu höndinni er veifað í Seðlabanka Íslands lækkar ekki bensínið, ekki heldur innfluttar matvörur – aftur á móti hækka vörur framleiddar innanlands í takt við hinar innfluttu. Því er líkast sem hagfræðingar og stjórnendur Seðlabankans telji það hlutverk sitt að sjá til þess að innlendu vörurnar tapi ekki leiknum – þær skulu fyrr eða síðar hækka jafn mikið og hinar erlendu! Látum ekki útlendinga plata okkur! Verum ekki minni menn en þeir! Við getum sko líkað hækkað okkar vörur ekki síður en aðrir og hafiði það.

hágé.



« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband