Hvar er verkalýðshreyfingin?

page { size: 21cm 29.7cm; margin: 2cm } P { margin-bottom: 0.21cm } -->

Risin er mikil mótmælaalda, sjálfssprottin, gegn því ömurlega ástandi sem hefur skapast í landinu í kjölfar bankahrunsins, gegn þeim sem bera ábyrgð á því að Íslendingar eru allt einu orðnir eins og bónbjargarmenn í samfélagi þjóðanna – þrátt fyrir ríkidæmi, verðmætar auðlindir og fjölbreytta verkþekkingu. Hvern laugardag mæta þúsundir á Austurvöll og haldnir eru margir aðrir mótmælafundir og þess krafist að þeir víki sem bera ábyrgð á ástandinu – og ætti engan að undra.

Hvað fer fram á bak við luktar dyr og tjöld um þessar mundir. Um það veit aðeins „valinkunnur” hópur. Ekki er einu sinni víst að ríkisstjórnin sé með á nótunum, skilanefndir bankanna eða nýkjörin bankaráð. Sagt er að í bönkunum fari nú ýmsir starfsmenn hamförum við að ganga frá skuldum valins hóps skuldara og komi afskriftir æði oft við sögu. Hvað hæft er í þessum sögusögnum er ómögulegt að komast að, því engar haldbærar upplýsingar eru látnar berast til almennings. Svo rammt kveður að upplýsingaþurrðinni að ríkisstjórnin hefur ráðið sér norskan „marskálk” (eða eitthvað í þá áttina) til að segja sér hvernig eigi að halda upplýsingum frá almenningi, og hvernig eigi að gera fjölmiðlum erfiðara fyrir í að koma upplýsingum á framfæri. „Marskálkurinn” ráðleggur að blaðamannafundir verði haldnir seint á daginn til að starfsmönnum blaðanna gefist minni tími til að vinna fréttirnar til birtingar morguninn eftir. Og hver birtist svo allt í einu á skjánum eins og skuggapersóna nema Kristján Kristjánsson sem kunnur er að hvössum og gagnrýnum spurningum á meðan hann var fréttamaður sjónvarpsins. Hann sást í svip að stjaka við ráðherrum til að þeir segðu nú ekki meira en „marskálkurinn” hefur væntanlega ráðlagt.

Fullyrða má að ríkisstjórnin geri á hverjum degi hverja vitleysuna annarri verri í umgengni sinni við háttvirt atkvæði, enda hrapar af henni fylgið dag eftir dag. Að hamla gegn því að réttar upplýsingar berist almenningi eins og í pottinn er búið er vitnisburður um annað tveggja: að valdhafarnir hafi eitthvað að fela eða að þeir skilji ekki þýðingu þess að menntuð þjóð sé vel upplýst á viðsjárverðum tímum. Sögusagnir, gróusögur og annað fleipur eru margfalt verri en sannleikurinn, enda þótt einhverjir kunni að verða honum sárreiðir.

Á hinn bóginn vekur sérstaka athygli, á þeim tímum sem saumað er rækilega að lífskjörum almennings: Það heyrist ekkert í verkalýðshreyfingunni. Hvernig í ósköpunum stendur á því að samtök launamanna láta ekki til sín heyra af miklum krafti? Af hverju hvetja þau ekki félagsmenn sína til að mæta á mótmælafundina? Sagan kennir okkur að fólk hlýðir kalli, þegar mikið liggur við. Listamennirnir sem standa að mótmælunum leggja áherslu á að þau séu ótengd öllum félagssamtökum og flokkum. Verkalýðshreyfingin á ekki að ganga á nokkurn hátt yfir þeirra framtak, en hún á að reyna hvað hún getur til að sannfæra þá um að þeim væri styrkur að samstöðuyfirlýsingum frá verkalýðssamtökunum. Ef listamenn vilja ekki slíkan stuðning geta ástæðurnar einungis verið af tvennum toga: annars vegar að þeir líti á verkalýðssamtökin sem eitrað peð, þau séu á einhvern hátt samsek, beri hluta ábyrgðarinnar á því hvernig komið er. Eða þá hitt að þeir óttist að frumkvæðið verði tekið úr höndum þeirra og mótmælin verði því marklítil.

Ef ástæðan er ætluð ábyrgð verkalýðshreyfingarinnar er það grafalvarlegt mál. Með þögn sinni og aðgerðarleysi kallar hreyfingin yfir sig aukna tortryggni og hættu á að mótmælin snúist líka óbeint gegn henni. Þess verður líka vart í fjölmiðlum að hún er tortryggð, efast er um heilindi fulltrúa hennar í stjórnum lífeyrissjóðanna. Verði ekki brugðið við er hætt við að þolinmæðisþráðurinn styttist.

Forseti Alþýðusambandsins hefur að sönnu verið á fundaferðalagi að undanförnu, en þeir fundir virka sem spjallsamkomur nokkurra manna sem fólk sér ekki ástæðu til að fjölmenna á. Þess ber þó að geta sem vel er gert. Þannig hafa nokkur félög opinberra starfsmanna haldið útifund með Öryrkjabandalaginu og samtökum eldri borgara

Að lokum þetta: Það nær engri átt að samtök launafólks verki á almenning eins og hvert annað ráðuneyti sem steinþegir á hverju sem gengur á sama tíma reiðin ólgar meðal félagsmanna!

hágé.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Einar Ólafsson

Mæl þú manna heilastur - og meðal annarra orða: um hvað eiga komandi "þjóðarsáttar"-samningar að snúast?

Einar Ólafsson, 4.12.2008 kl. 14:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband