Eru lífeyrissjóðirnir og verkalýðshreyfingin blind og heyrnarlaus?

page { size: 21cm 29.7cm; margin: 2cm } P { margin-bottom: 0.21cm } -->

 

Það er þyngra en tárum taki fyrir gamlan félaga í verkalýðshreyfingunni að horfa uppá hvernig hreyfingin og lífeyrissjóðirnir eru um þessar mundir að lenda á bás með bönkum, útrásargæjum, Seðlabanka, ríkisstjórn og þeim fámenna söfnuði sem ber ábyrgð á ástandinu sem brennur á þjóðinni. Undirritaður ætlaði að sinna skyldu sinni á dögunum og mæta á útifundi Alþýðusambandsins á Ingólfstorgi. Það var að sönnu kalt (sem oft hefur verið notuð sem afsökun fyrir lélegri mætingu). Þegar á torgið kom var þar ekki nokkurn mann að sjá, enn síður að félagarnir væru að streyma að úr öllum áttum á þeim tíma sem eðlilegur er fyrir útifundi. Ekki varð með nokkru móti greint að heildarsamtök launafólks hefðu kallað til mótmælafundar gegn ástandi sem á sér engin fordæmi í lýðveldissögunni og kemur til með að brenna á þúsundum heimila seinna í vetur. Fundurinn var að vísu haldinn af sárafámennum hópi í skjóli en þúsundir mæta með listamönnum á Austurvöll hvernig sem viðrar.


Hvað er eiginlega um að vera? Eitt af þeim málum sem brenna hvað heitast á almenningi er lánskjaravísitalan, (verðtrygging með neysluvísitölu) sem réttara væri að kalla ránskjaravísitölu um þessar mundir. Allir vita að lífeyrissjóðirnir verða að tryggja fjármuni sína sem best til að geta greitt sómasamlegan lífeyri þegar þar að kemur. Þessu mótmæla fáir. Hinsvegar spyrja nú þeir sem eru að bugast og munu fara enn verr, þegar líður á veturinn. Er eitthvert gagn að því fyrir sjóðina að gera mig gjaldþrota á besta aldri, jafnvel koma mér og fjölskyldunni út á götuna? Verðtryggingin er með öðrum orðum eitt af því sem fólki er heitast í hamsi útaf um þessar mundir.


Kemur verkalýðshreyfingunni og lífeyrissjóðunum þetta ekki við? Þarf ekki að segja eitt einasta orð um verðtrygginguna, jafnvel þótt hún kunni að vera mikilvæg fyrir lífeyrissjóðina til lengdar? Jú, það verður að tala um verðtrygginguna á hreinskiptin og heiðarlegan hátt.

Fyrst liggur fyrir að spyrja? Er sjálfur grunnur vísitölunnar réttur? Hvaða vit er til dæmis í því að banki eða Íbúðalánasjóður geti keypt jafn mikið brennivín eða sælgæti á hverju sem gengur í samfélaginu? Er rétt að miða verðtrygginguna við neyslu? Getur verið að aðrir og miklu mikilvægari hlutir séu inní vísitölunni, sem þar ættu ekki að vera?


Sjá þeir „snjöllu” menn sem reikna út getu sjóðanna til að greiða út lífeyri virkilega ekkert umhugsunarvert í regluverki sjóðanna? Sjóðurinn sem undirritaður fær lífeyri sinn úr greiddi helming innborgaðra iðgjalda í eftirlaun og örorkulífeyri á sl. ári. Helming innborgaðra iðgjalda. Vissulega var það ár gott í byggingariðnaðinum, tekjur háar og mikil vinna. Yfirstandandi ár og það næsta verður verulega lakara.


Á meðan „Róm brennur” hefur nánast ekkert verið um verðtrygginguna sjálfa fjallað, þaðan af síður bent á raunhæfar leiðir til að mæta þeim mikla vanda sem steðjar að. Hefur engum t.d. dottið í hug að kanna áhrif þess að taka kúfinn af verðtryggingunni um tíma, lántaki greiði hana ekki, og gefa kost á að endurreikna hana þegar og ef hann selur húseign sína í betra árferði? Eða hugsanlega að skera kúfinn af en reikna viðkomandi minni lífeyri þegar þar að kemur – með öðrum orðum sá sem fer þessa leið tekur út hluta af sínum lífeyri á meðan hann er fullvinnandi. Í stað lífeyris í fyllingu tímans kæmi þá meiri eign í húsnæði. Og síðast en ekki síst það sem blasir fyrir öllum: Verðbólgan er reiknuð eftir neysluvísitölu sem hækkar um þessar mundir, en launavísitalan lækkar. Með öðrum orðum: Þessa mánuðina eru lán oftryggð langt umfram laun. Launin lækka - standa ekki í stað - en lánin hækka. Getur þetta verið rétt?


Þannig eru mörg álitamál sem nú er full ástæða til að taka til skoðunar, sum eru ófær með öllu, af öðrum má taka einhvern anga og enn önnur taka að fullu til greina. Það versta sem gerist er að lífeyrissjóðirnir og verkalýðshreyfingin lendi í sömu óánægjuhakkavélinni og nú ríður húsum. Heiðarlegar upplýsingar er tækið sem dugar best gegn því ástandi. Að láta eins og ekkert sé að gerast er álíka og horfa blindur og hlusta heyrnarlaus.

hágé.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband