Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
30.6.2009 | 17:58
Enron á Íslandi
Sigmundur Davíð, formaður Framsóknar atyrti viðskiptaráðherra í þinginu fyrir að tala um efnahagsklúðrið hér sem íslenskt Enron-mál og var á honum að skilja að ekki mætti orða slíkt í útlöndum, það skaðaði mannorð Íslendinga.
Það var og.
Samkvæmt þessu minnkar klúðrið stórlega (verður kannski að engu eða hvað?) ef það er ekki orðað í útlöndum. Þetta er í meira lagi skringileg hugdetta af pólitískum leiðtoga á Alþingi Íslendinga og minnir á strútinn sem stingur höfðinu í sandinn. Hvernig er umhorfs í íslensku efnahagslífi eftir Enron-athafnir hinna mikilvirku viðskiptajöfra undangenginna ára? Nánast hvert einasta fyrirtæki sem þeir komu nálægt er annað hvort sokkið í bullandi skuldir eða oltið um koll. Sjálft óskabarn þjóðarinnar, Eimskip, er með neikvæða eiginfjárstöðu upp á feikilegar upphæðir og virðist helst horft til þess að erlendir aðilar eignist umtalsverðan hlut í félaginu til að koma því til bjargar. Félagið hefur starfað í nálega öld og var fyrir áhlaup víkinganna ágætlega rekið, eftir því sem best verður séð, Á örfáum árum tókst snillingunum að koma félaginu á kaldan klaka.
Annað Enron-einkenni birtist í því að sprengja upp hlutabréfaverð með brellum og bókhaldsbrögðum og greiða síðan marga milljarða út í arð á hverju ári. Arð sem aldrei virðist hafa orðið til fyrir tilstuðlan skynsamlega rekinna fyrirtækja.
Allt efnahags- og atvinnulíf var löðrandi í glæfrabrögðum af þessu tagi og enn er verið að. Þannig var skýrt frá því í blöðum á sínum tíma að Bakkavararbræður hefðu eignast Exista því sem næst að fullu. Hvernig fóru þeir að því? Þeir ákváðu að auka hlutafé félagsins um 50 milljarða og létu annað félag í sinni eigu skrifa sig fyrir allri aukningunni. Þetta félag var með einn milljarð í hlutafé. Bræðurnir greiddu 50 milljarðana með þessum eina milljarði. Hlutaféð var með öðrum margfaldað með fimmtíu, án þess að greiðsla kæmi fyrir, og notað sem greyðslueyrir í Exista.
Og þetta er ekki eina dæmið um snilld fjármálamanna, sem enn eru í gangi. Eigendur Fréttablaðsins og Stöðvar tvö áttu mörg fyrirtæki í gegnum eigu á einu eignarhaldsfélagi, (kannski fleirum ef útí það er farið) sem auðvitað er stórskuldugt. Nú hafa þeir selt sjálfum sér einhver hlutafélög í þessu kraðaki en skilið stórskuldir eftir í eignarhaldsfélaginu. Í þessu sambandi er þó rétt að taka fram að eignarhaldið á þessari fyrirtækjaþúst er svo flókið að torvelt er að skilja hvað um er að vera. En að eigendurnir hafi selt sjálfum sér er haft eftir Ara Edvald forstjóra þústarinnar. Einhverjar eignir munu vera komnar undir ríkisbankana (líklega Vodafone) sem jafnframt sitja uppi með ógreiddar skuldir uppá milljarða. Og talandi um Bakkavararbræður þá voru þeir svo vinsamlegir í garð lífeyrissjóðanna að skilja eftir ógreiddar skuldir við þá í Exista, en forða eignunum í skjól.
Hér eru aðeins tilgreind tvö dæmi um aðila sem halda ótrauðir áfram að leika sína snilldarleiki sem ekki virðast hafa annan tilgang en þann að hafa af bönkum og sjóðum almennings stjarnfræðilegar upphæðir. Það er þess vegna fullkomlega eðlilegt að viðskiptaráðherra hiki ekki við að líkja ástandinu við Enron, en þeim mun furðulegra að formaður Framsóknar skuli telja hreinskilni hans galla og skaðlega íslenskum hagsmunum. Ef maðurinn heldur að erlendir aðilar viti ekki um að hér er allt í kalda koli vegna Matador- og Enron-hugmyndafræði, þá ætti hann að líta á hvernig lánshæfismat ríkissjóðs er um þessar mundir og hvaða möguleika Íslendingar hafa yfirleitt til að taka lán erlendis. Það skyldi þó ekki koma í ljós að flestar dyr eru lokaðar, hvergi góðir kostir í boði vegna þess að hér hefur orðið Enronhrun? Hvaða tilgangi það myndi þjóna að íslenskir ráðherrar reyndu að fegra ástandið eða afneita því sem hefur gerst er vandséð, ekki yrðu þeir trúverðugri fyrir það, svo mikið er víst. Hinsvegar gerir Framsóknarforingjanum ekkert til þótt hann þusi í sífellu í þessa veru, þar er trúverðuleikanum hvort eð er ekki fyrir að fara.
hágé.
22.6.2009 | 11:57
Há- og lágtekjuskattar
Guðmundur Magnússon, varaformaður Öryrkjabandalagsins, hefur réttilega bent á að tillögur ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum þýði að tekinn verði upp lágtekjuskattur á öryrkja og ellilífeyrisþega, sem m.a gerist með nýjum tekjutengingum og lækkun á leyfilegu sjálfsaflafé, án þess að til skerðingar komi. Rétt er að minna á að frítekjumark vegna vaxta- og húsaleigutekna, kr. 250.000, nær að sjálfsögðu líka til öryrkja. En um leið er í reynd lagður 100% skattur á vaxta- og húsaleigutekjur þeirra umfram kr 98.640 kr. með því að um síðustu áramót var ákveðið að skerða þessar tekjur sem umfram eru þetta mark krónu fyrir krónu. Þannig greiðir fullhraust fólk engan skatt af 250.000 kr. fjármagnstekjum en tekjur lífeyrisþegans lækka um ríflega 151.000,00 hafi hann sömu fjármagnstekjur.
Að gera þann greinarmun á launatekjum og lífeyristekjum sem hugmyndir ríkisstjórnarinnar ganga út á nær engri átt. Engum dettur til að mynda í hug að skerða launatekjur fólks þó það hafi vaxtatekjur, þær einfaldlega bætast við. Engum dettur heldur í hug að skerða launatekjur þótt launþegi hafi tekjur á fleiri en einum stað, eins og gert er með lífeyrisþega, ekki heldur að ætla launþegum tiltekið tekjumark t.d. af fastri vinnu og skerða launin síðan ef unnin er yfirvinna eða aukavinna hjá öðrum aðila. Að meðhöndla launatekjur á þennan hátt myndi umsvifalaust kalla á víðtæk mótmæli og væntanlega aðgerðir af hálfu verkalýðshreyfingarinnar.
Allir vita að ekki verður undan því vikist að koma fjárhag ríkissjóðs í lag og það fyrr en seinna. Þetta hefur ríkisstjórnin alltaf sagt að yrði að gera með blandaðri leið, hækkun skatta og lækkun útgjalda. Hvorttveggja kemur óhjákvæmilega við allar fjölskyldur í landinu. Skilningur á vandanum er áreiðanlega almennur fólki er fullkomlega ljóst hverskonar hamfarir hafa riðið yfir þjóðfélagið og að eitthvað verður að gera. Á hinn bóginn vekur furðu að svo virðist sem tekjur að 700.000 krónum á mánuði eigi ekki að bera neinar skattahækkanir, nema lágtekjurnar í formi áðurnefndra breytinga.
Millitekjuhóparnir eru langfjölmennastir og eðli málsins samkvæmt standa þeir undir mestum huta skattbyrðinnar, það er beinlínis óhjákvæmilegt. Nú hefur ríkisstjórnin ákveðið að hafa einungis tvö skattþrep. Skattar af tekjum að 700.000 breytast ekki en á tekjur þar yfir kemur 8% sérstakur skattur, sem í eðli sínu er ekkert annað en nýtt skattþrep. Skiljanlegt er að reynt sé að hlífa tekjum undir 400.000 á mánuði. Fjölskyldur með þær tekjur og húsnæðiskostnað eins og hann er um þessar mundir eru illa aflögufærar eru í raun lágtekjufólk. Hins vegar virðist ríkisstjórnin hrædd við að leggja skatt á millistéttina og er það ekki í fyrsta sinn í sögunni. Eins og sakir standa hefði verið eðlilegt að bæta við fleiri skattþrepum, t.d. 2% fyrir hver hundraðþúsund upp að 700.000, þegar 8% skatturinn tekur við.
Svörin sem gefin eru við slíkum hugmyndum eru fyrirfram þekkt. Allt of flókið skattkerfi að vera með mörg þrep. Ekki er mikið gefandi fyrir slík svör eins og tölvutækni nútímans er. Það getur ekki verið mikill vandi að draga mánaðarlega af launum 2 6% hærri upphæð en lægsti skattur er. Þetta er spurning um handavinnu og pólitískan kjark. Þá má reyndar hugsa sér að þrepið sem bætt sé inní verði bara eitt, 3% upp að 550.000 og önnur 3% að 700.000.
Að svo stöddu er ekki mögulegt að fara yfir niðurskurðartillögurnar, en þó er rétt að benda á eina leið til sparnaðar sem nefnd hefur verið af erlendum sérfræðingi í fjölmiðlum nýlega. Ríki og stofnanir sveitarfélaga eyða árlega milljörðum króna í hugbúnað frá einokunarrisanum Microsoft. Hugbúnaðarkostnaður ríkisins eins er talinn nema hærri upphæð en það sem fæst inn með lágtekjuskattinum. Hvernig er hægt að lækka þennan kostnað? Með því að hætta viðskiptum við MS og taka upp opinn hugbúnað í öllum skólum og stofnunum ríkisins. Opinn hugbúnaður eins og Linux stýrikerfi og OpenOffice skrifstofuforrit kosta ýmist ekkert eða sáralítið. Á undanförnum árum hefur orðð gríðarleg framför á þessu sviði og stenst opinn hugbúnaður nú fullkomlega samanburð við þann sem MS selur aftur og aftur sömu aðilum. Uppfærslur kosta ekkert, leyfilegt (beinlínis óskað eftir því) er að dreyfa hugbúnaðinum endurgjaldslaust svo víða sem hver vill.
Vissulega er von að margir spyrji hvernig geti á því staðið að hægt sé að fá hugbúnað fyrir sáralítið eða ekki neitt. Svarið liggur í því að út um allan heim eru forritarar og áhugamenn sameinast um að snúast gegn einokun Microsoft, sem hafa þróað hugbúnað eins og Linux stýrikerfi. Síðan hafa allmörg fyrirtæki s.s. UBUNTU, SUSE, MANDRIVA, FEDORA og fl. búið til hugbúnaðarpakka fyrir stóra og smáa notendur, sem þau selja við mjög vægu verði. Það er kominn tími til að stórir hugbúnaðarkaupendur eins og ríki og sveitarfélög segi skilið við einokun MS. Í þeirri ákvörðun einni er fundið fé til frambúðar.
hágé.
13.6.2009 | 13:44
Um sannfæringu
Ögmundur Jónasson heilbrigðisráðherra og Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, þingflokksformaður Vinstri grænna, hafa skýrt frá því að þau séu meðal þeirra þingmanna VG sem greiddu atkvæði gegn samningsumboði um að ganga frá Icesafesamningnum. Þingflokksformaðurinn gat þess jafnframt í einhverjum fjölmiðli að þingmenn væru ekki bundnir af flokkslínum heldur samvisku sinni, sem vissulega er rétt.
Að ráðherra í ríkisstjórninni og formaður þingflokksins skuli hafa tekið þessa afstöðu vekur skiljanlega talsverða athygli, ekki síst vegna þess að hvorugt hafa sagt neitt um hvaða kosti þau töldu hafa verið í boði, sem samrýmdist betur sannfæringu þeirra.
Þegar VG gekk til stjórnarsamstarfsins, hefur það verið gert vitandi um hvaða verkefni blöstu við, viðfangsefni sem ekki yrði komist undan að takast á við. Meðal þeirra var að semja um skuldbindingar Íslendinga vegna Icesafe reikninganna. Þegar ríkisstjórnin hóf störf var þegar búið að ganga frá því grundvallaratriði að þjóðin myndi borga að tilteknu marki. Undan þeirri skuldbindingu varð ekki vikist, nema með hrikalegum afleiðingum. Þjóðin er skiljanlega fjúkandi reið yfir að þurfa að ábyrgjast skuldir sem nokkrir peningafurstar hafa lagt á hana og hún fékk engu ráðið um. Sama á áreiðanlega við um alla þingmenn VG, hvort sem þeir voru með eða á móti samningsumboðinu.
Hvað felst í orðinu flokkslína? Væntanlega það að flokksmenn koma sér saman um samnefnara sem byggist á ákveðnum grundvallaratriðum, en þarf ekki nauðsynlega að þýða að allir séu elsku sáttir. Flokkslína verður til í mörgum stofnunum, allt frá landsfundi til flokksfélaga sem bera ábyrgð á línunni í sveitarsjórnarmálum. Meginreglan er þá sú að meirihlutinn kemst að niðurstöðu, sem minnihlutinn annaðhvort fylgir eða gengur að minnsta kosti ekki gegn. En minnihlutinn hefur ekki einasta rétt til að bera fram sína skoðun, honum er það beinlínis félagslega skylt, ella færu ekki fram þær umræður sem nauðsynlegar eru til að finna samnefnarann flokkslínuna.
Þegar síðan kemur að ákvörðunum sem ekki verður komist undan að taka, eins og í tilfelli Icesafe málsins, þá verða allir sem að slíku máli koma að þora, hversu bölvanlega sem þeim annars þykir málið og grimmilega ósanngjarnt. Hvorki Ögmundur né Guðfríður Lilja (né yfirleitt nokkur annar) hafa mér vitanlega bent á raunhæfa leið til að komast undan ábyrgð á Icesafe reikningum. Eins og komið var lá ekki annað fyrir en að gera annað hvort: að neita að standa við ábyrgðina eða að semja um hvernig með hana skuli farið. Fjölmargir hafa sýnt framá hvaða afleiðingar neitun hefði haft, hvaða erfiðleika landsmenn hefðu orðið að glíma við í alþjóðasamfélaginu. Er þarflaust að fjölyrða um það. Samningurinn verður því alltaf nauðasamningur og getur aldrei staðið um annað en gera íslenska ríkinu kleift að standa við skuldbindingarnar.
Þetta mátti öllum þingmönnum VG vera ljóst um leið og þeir ákváðu að ganga til ríkisstjórnarsamstarfs, rétt eins og þeir vissu vel að við ríksstjórninni blöstu hrikalegir erfiðleikar á öllum sviðum samfélagsins. Að standa ekki með meirihluta þingflokssins í versta og erfiðasta úrlausnarefni ríkisstjórnarinnar, án þess að benda á aðra betri leið, nær varla nokkurri átt. Með því eru þingmennirnir að víkja sér undan ábyrgð á ákvörðun, sem ekki er hægt að komast hjá að taka. Þeir leggja hana hins vegar á félaga sína innan þingflokksins.
Hvaða sannfæring ræður slíkri afstöðu? Er það sannfæring um að ekki sé nauðsynlegt að standa með félögum sínum þegar mest liggur við? Er það sannfæring um að þeir (minnihl.) geti síðar sagt: við bárum enga ábyrgð á þessum gerningi og afleiðingarnar af honum eru öðrum VG-þingmönnum að kenna ekki okkur? Því er erfitt að trúa upp á það ágæta fólk sem hér um ræðir, enda hefur slík afstaða aldrei þótt stórmannleg allra síst í flokkum sem kenna sig við vinstri.
hágé.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
9.6.2009 | 08:52
Handan víglínunnar
Væntanlega undrast fáir að Íslendingar reiðist yfir Icesafsamningunum. Það liggur beinlínis í eðli málsins að gremja brjótist út vegna þess að þjóðin ábyrgist með samningum að greiða fyrir athafnir fjármálaspekúlanta - svimandi háa skuld sem þeir stofnuðu til og ekki aðrir.
Á hinn bóginn er mikilvægt, ekki síst fyrir stjórnmálamenn, að gera sér grein fyrir í hvaða stöðu íslenska ríkið er þegar samið er. Talað hefur verið um víglínu í málinu, að hún liggi við hryðjuverkalögin og það sé hreinn og klár aumingjadómur af ríkisstjórninni að fara ekki í mál, fremur en að gera samninginn. Til að átta sig á stöðunni sem Íslendingar voru í er skynsamlegt að reyna að taka sér um stund stöðu handan víglínunnar og reyna að átta sig á hvernig viðsemjandinn, að þessu sinni bresk stjórnvöld, hugsi málið. Væntanlega eitthvað í þessa áttina:
Við höfum þegar greitt innistæðueigendum á Icesafe reikningum innistæður þeirra og þó upphæðin sé vissulega há sligar hún ekki breska ríkissjóðinn. Við töldum eftir samtals Darlings fjármálaráðherra við hinn íslenska starfsbróður sinn, að Íslendingar ætluðu ekki að borga og settum á þá hryðjuverkalög. Þó við viðurkennum það ekki opinberlega þá hefur ráðherra okkar líklega miskilið Árna Matthiesen, þetta er reyndar staðfest með samþykki fyrri ríkisstjórnar um að að borga rúmlega 20.000 evrur fyrir hvern reikning, eins og reglur EES gera ráð fyrir. Geta þá Íslendingar farið í mál við okkur útaf hryðjuverkalögunum og hvar yrði slíkt mál rekið? Hugsanlega, en málið yrði rekið fyrir breskum dómstóli en ekki íslenskum. Þar erum við í miklu betri aðstöðu en Íslendingar, getum ráðið okkur bestu lögfræðinga á meðan sækjandinn er í miklum vandræðum vegna efnahagskreppunnar. Þessa áhættu er okkur alveg óhætt að taka.
Hér skiptir tíminn líka máli. Við afléttum ekki hryðjuverkalögunum fyrr en niðurstaða fæst í málið. Á meðan beitum við áhrifum okkar í Alþjóða gjaldeyrissjóðnum og innan EB gegn Íslandi til að þröngva ríkisstjórn Íslands að samningaborðinu. Þessu til viðbótar settu Íslendingar neyðarlög, sem mismunuðu kröfuhöfum þannig að innistæður íslenskra ríkisborgara voru tryggðar en erlendra ekki. Við getum því líklega höfðað mál innan EB kerfisins vegna þessa. Niðurstaða okkar verður því sú að bíða þangað til íslenska ríkisstjórnin sér engan annan kost en að semja - við höfum nógan tíma. Íslendingar eru að sönnu þrjóskari en fjandinn sjálfur, samanber þorskastríðin, en í þessu máli verður langvarandi þrjóska þeim mjög líklega of dýr.
Ef við færum okkur aftur yfir víglínuna (hryðjuverkalögin) og veltum upp möguleikum Íslendinga. Þá sýnast þeir aðeins vera tveir. Að borga eins og við höfðum lofað, eða að segja nú nei - við förum í mál við Breta útaf hryðjuverkalögunum. Fyrri kosturinn þýðir að við leitum samninga en hinn síðari flókin og dýr málaferli, væntanlega fyrir breskum dómstóli. Er skynsamlegt fyrir okkur að fara í mál vitandi það að Landsbankinn (gamli) á miklar eignir í Bretlandi sem gætu nýst okkur til að borga skuldina, en ekki til að reka málið? Eignirnar eru bundnar vegna hryðjuverkalaganna. Þurfum við að glíma við andstöðu Breta, Hollendinga og kannski margra annarra innan Alþjóða gjaldeyrissjóðsins og EB? Völdum við þessum verkefnum á sama tíma og við eigum í gríðarlegum erfiðleikum heima fyrir? Getum við hugsanlega gert ráð fyrir einhverri samúð útá það að við erum fá og smá og snúið almenningsálitinu ytra okkur í hag, sem hugsanlega myndi leiða til lækkunar skuldarinnar? Og hvað með neyðarlögin og þá mismunun sem af þeim leiðir? Geta þau komið í bakið á okkur?
Í stuttu máli sagt: hvorugur kosturinn var góður. Ríkisstjórnin valdi samningaleiðina. Þá er í rauninni bara eftir að svara þessum spurningum: er samningurinn góður, vondur, jafnvel hættulegur?
Undirrituðum sýnist að valinn hafi verið illskárri kosturinn, að semja. Samningurinn ber vissulega háa, en fasta vexti (sem væntanlega hafa verið ákveðnir í ljósi ætlaðrar vaxtaþróunar á erlendum mörkuðum næstu árin). Félli upphæðin öll á skattgreiðendur yrði ástandið skelfilegt. Samningurinn og aðgangur að eignum Landsbankans tryggir hins vegar að svo verður ekki. Hvort eitthvað og þá hve mikið skellur á ríkissjóði er einfaldlega ómögulegt að slá föstu af nokkurri nákvæmni eins og er. Og það sem skiptir ekki litlu máli. Þing og stjórn getur einbeitt sér að bráðnauðsynlegum verkum hér heima næstu árin.
hágé.
Útlánin eiga að greiða Icesave | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
7.6.2009 | 01:11
Mislukkuð hundahreinsun
Framsóknarflokkurinn gekk eins og nýhreinsaður hundur til síðustu kosninga. Kosin var splunkuný forysta fyrir flokkinn og nánast eingöngu ný andlit birtust á framboðslistum hans. Nýi formaðurinn kallaði kosningaundirbúninginn nýtt upphaf gott ef sami maður hafnaði ekki fortíðinni - framtíðin ein skipti máli. Mörkuð var ný stefna í Evrópumálum. Hinn nýhreinsaði flokkur aðhyllist aðild að Evrópusambandinu, þó að uppfylltum áveðnum skilyrðum. Reyndar verður ekki séð að flokkurinn boði að öðru leyti nýja pólitík. Þess verður að minnsta kosti ekki vart enn sem komið er.
Nú hefur það gerst að ríkisstjórnin hefur samið um Icesafe reikningana á þann hátt að Íslendingar borgi, en gefist tóm til að koma eignum Landsbankans í verð á næstu sjö - fimmtán árum. Þannig á að gefast ráðrúm til að láta þær bera vexti og koma í verð þegar betur árar á fjármálamarkaði. Að skilja efni þessa samnings er því ekki flókið, nema hvað nauðsynlegt er að vita hvað áður gerðist, hvað orsakaði það að Íslendingar komust í þessa skelfilegu stöðu.
Þegar neyðarlögin voru sett í haust og ríkisstjórn Geirs Haarde tilkynnti að allar innistæður í íslenskum bönkum yrðu tryggðar, flutu innistæðurnar á Icesafe reikningunum (kannski óvart) með, því Landsbankinn í Bretlandi var íslenslur banki en ekki breskur eins og Kaupþing í sama landi. Á undan þessu hafði sama ríkisstjórn látið allar viðvaranir, um að illa kynni að fara fyrir bönkunum, sem vind um eyrun þjóta. Og meira að segja gengið erinda bankanna erlendis klyfjuð fullyrðingum um að allt væri í fínasta lagi. Í þessari ríkisstjórn voru Sjálfstæðisflokkur og Samfylking. Þar á undan höfðu ríkisstjórnir Halldórs Ásgrímssonar og Davíðs Oddsonar selt ríkisbankana einkavinum sínum á útsöluprís. Í kaupbæti fylgdi handónýtt regluverk og máttlaust eftirlit, þannig að hinir nýju eigendur bankanna gátu hagað sér a vild - þess vegna eins og bandittar ef þeim þóknaðist svo. Í þessum stjórnum sátu Framsókn og Sjálfstæðisflokkur. Afleiðingar stjórnarfars þessara flokka þekkja allir.
Á þeim skamma tíma sem liðinn er frá samningsgerðinni verður ekki séð að nokkur ábyrgur aðili telji að hægt hefði verið að komast undan að borga. Einn háskólaprófessor hefur þó sagt að æskilegt hefði verið að fá álitamál tengdum reikningunum rekin fyrir dómstólum. Nákvæmlega hvaða dómstólum erá hinn bóginn ekki fulljóst.
Þannig er málið í hnotskurn, ekki flóknara en svo. Nú hefði maður ætlað að nýhreinsaður Framsóknarflokkurinn gæti tekið skynsamlegar á málum en fyrir hreinsun. Því miður hefur komið í ljós að svo er ekki. Þannig lætur Eygló Harðardóttir þingmaður sig ekki muna um að væna þá sem að samningunum standa um landráð, aðeins nokkrum klukkutímum eftir að innhald samningsins varð ljóst. Landráð takk fyrir! Mátti ekki minna vera! Hvernig svíkur maður þjóð? spyr þingmaðurinn og telur svarið liggja í samningnum.
Þessi afstaða er alveg makalaus. Látum vera þótt þingmaðurinn óskaði sér betri árangurs, allt orkar jú tvímælis þá gert er. Nei. Samningurinn er svik og landráð, hvorki meira né minna! Hvernig þjóðin á að sleppa undan þeim hörmungum, sem Icesafevíkingarnir og ríkisstjórnir Halldórs og Geirs kölluðu yfir landsmenn, segir hún hinsvegar ekkert um sem takandi er alvarlega.
Þetta mál er ekki hægt að nálgast án tengsla við það sem á undan er gengið, það sem áður hefur verið sagt og gert. Ríkisstjórn Geirs og Ingibjargar gaf það loforð sem samninganefndin og núverandi ríkisstjórn er að reyna að gera eins ódýrt og léttbært og hægt er. Löngu er öllum kunnugt, líka þeim sem halda því fram að alla skuldina eigi að reiða fram úr ríkissjóði, að Landsbankinn (gamli) á miklar eignir í Bretlandi. Hverskonar eignir? Mestan part vaxtaberandi verðbréf að sagt er. Slíkir pappírar eru ekki endilega mikils virði í augnablikinu. Eygló Harðardóttur og nýhreinsaðri Framsókn ætti að vera ljóst að kreppur kapitalismans standa aldrei nema fá ár í senn. Þess vegna skiptir gríðarlegu máli að geta lokið málinu á 15 árum, en á þeim tíma munu verðbréf bankans bera vexti og af þeim verður væntanlega greitt. Hugsanlega verða bréfin seld ef ásættanlegt verð fæst fyrir þau. Hvað heldur þingmaðurinn að gert verði við þá peninga? Að þeim verði hent út um gluggann? Eða skolað niður um klósettið? Nei, þeir ganga að sjálfsögðu til að greiða skuldina. Nægja þeir? Það veit enginn á þessari stundu og svarið fæst ekki nema á löngum tíma og alls ekki meðþví að taka upp kaldastríðsorðfæri á Alþingi.
Það er satt að segja hörmulegt að fylgjast með því hvernig hundahreinsunin á Framsókn hefur mistekist. Málflutningur þess unga fólks sem nú talar fyrir hönd Framsóknar er eins og afrit úr blöðum kreppuáranna og endurnýjaður með orðaleppum kalda stríðsins. Ofan á það bætist skilningsleysi á tölur og í hæsta máta frjálsleg umgengni við staðreyndir.
hágé,
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
31.5.2009 | 12:48
Lánskjör eða ránskjör?
Munnlega hefur mér verið bent á að mjög sé hæpið og varasamt að krukka í sjálfa neysluvísitöluna og ómögulegt sé að sjá fyrir til hvers slíkt leiði. Þá sé ekki víst að breyting á þessu mælitæki gangi af lagatæknilegum ástæðum. Menn hafi gert með sér fjárskuldbindingar, sem byggist á þessu mælitæki, neysluvísitölu. Hugsanlega er mikið til í þessum vangaveltum en ég tel ástæðu til að koma með nokkrar ábendingar í þessu sambandi.
Í fyrsta lagi veit ég ekki til þess að neysluvísitalan hafi verið óumbreytanleg í gegnum tíðina. Vægi einstakr liða mun hafa breyst í samræmi við neyslu almennings. Sé þetta rétt hafa allir verðtryggðir fjármálagerningar breyst um leið.
Í öðru lagi er alls ekki öruggt að vísitalan sé á öllum tímum "rétt". Verið getur að hún oftryggi í stað þess að verðtryggja.
Í þriðja lagi má spyrja sig afhverju lánveitendur ættu að hafa tryggingu fyrir því að geta alla tíð keypt jafn mikið brennivín tóbak og fl. og fl. fyrir þá peninga sem þeir fá til baka? Er það rétt að tryggja fjárskuldbindingar með mælingu á neyslu en ekki einhverju öðru?
Þannig mætti telja upp ótal álitamál, en um langt skeið virðist engin umræða hafa farið fram um það hvort vísitalan tryggji lánskjör eða ránskjör. Áður höfðum við lánskjaravísitölu, sem ef ég man rétt var samsett úr byggingavísitölu og vísitölu framfærslukostnaðar (eins og neysluvístalan hét þá). Um eitt skeið voru tóbak og brennivín ekki inni í vísitölunni.
Neysluvístalan er mælitæki á verðbólgu, en sjaldnast orsök hennar. Sjaldnast, því nú blasir við að hún verður það með því að breytingar á sköttum til samfélagsins auka verðbólguna og hækka skuldir heimila. Ríkisstjórnin hefur í hyggju að landsmenn geti fikrað sig út úr verðtryggingu. Einfaldasta leiðin til þess virtist í augsýn með því að verðbólgan var dottin niður í núll. Við þau skilyrði skiptir verðtrygging engu máli. Þá gerist það að ríkið leggur á nýja neysluskatta og á eftir að leggja á fleiri. Líklegt er að greiðslur fyrir opinber þjónustu hækki. Það er þess vegna engin goðgá að hugsa til þess að hækkun skatta, sem nú koma fram í vísitölunni, verði numdir brott tímabundið þannig að hækka megi samfélagstekjur án þess að hækka um leið skuldir heimilanna. Óvenjulegar aðstæður kalla á óvenjulegar aðgerðir, hefur hver eftir öðrum. Hér sýnist það eiga vel við. Ef ekki er hægt að auka tekjur ríkis og sveitarfélaga, við þær aðstæður sem nú ríkja, öðru vísi en að verðbólga aukist og skuldir hækki. þá er í raun fokið í flest skjól. Á því augnabliki sem verðbólgan er núll er einmitt tækifærið til að laga vísitöluna að gerbreyttum aðstæðum. Það er nóg fyrir heimilin að taka á sig skattahækkanirnar, þótt ekki bætist við afleiðingar sem breyta lánskjörum í ránskjör.
hágé.
29.5.2009 | 20:11
Er neysluvísitalan heilög?
Samtök ferðaþjónustunnar lýsa furðu sinni á hækkun neysluskatta og kvarta stórum yfir því sem koma muni yfir ferðabransann. Sjálfsagt er fyrir samtökin að gæta hagsmuna félagsmanna sinna, en um leið er ástæða til að spyrja. Bjuggust samtökin virkilega við því að gjöld af vörum eins og brennivíni og tóbaki yrðu látin óbreytt þegar leitað er leiða til að ná niður halla ríkissjóðs um tugi milljarða?
Stjórnarflokkarnir hafa vikum saman boðað "blandaða" leið til að rétta af halla ríkissjóðs. Hvað fellst í "blandaðri leið"? Varla getur leikið vafi á að með henni er ætlunin að hækka skatta og lækka útgjöld. Þetta er ósköp einföld formúla, sem óhjákvæmilega felur í sér að neysluskattar muni hækka, tekjuskattur líka um leið og lagalegt færi gefst. Niðurskurðurinn kæmur væntanlega helst við stærstu útgjaldaliðina ásamt mörgum smáskömmtum útum allt í ríkisbúskapnum. Þá munu væntanlega fleiri en Samtök ferðaþjónustunnar láta í sér heyra.
Að neysluskattar séu hækkaðir getur ekki komið nokkrum manni á óvart. Hitt kemur aftur á móti á óvart að hvorki ríkisstjórnin né aðilar vinnumarkaðarins víkja orði að því hvernig draga megi úr slæmum afleiðingum hækkunarinnar á heimili og fyrirtæki. Í því efni liggur beinast við að breyta neysluvísitölunni þannig að hækkanir á neyslusköttum eða opinberri þjónustu verði ekki reiknaðar inní vísitöluna t.d. til ársloka 2010. Neysluvísitalan er ekki heilög og ástæðulaust að láta hana hækka lán enn frekar en orðið er. Einhver kann þá að segja: en hvað þá með lífeyrisjóðina? Þeir verða að fá sína óskertu verðtryggingu. Vissulega þarf að gæta að þeim. Á hinn bóginn er langlíklegast að tímabundin festing vísitölunnar, þannig að hækkandi neyslukattar og hækkanir á opinberri þjónustu séu utan við hana, komi sjóðunum til góða þegar til lengdar lætur. Slík aðgerð væri til þess fallin að draga úr verðbólgu og bæta kaupgetu skuldara.
Ríkisstjórn og aðilar vinnumarkaðarins tala nú um stöðugleikasáttmála og eiga þá við stöðugleika efnahagslífsins. Ekki skal dregið úr mikilvægi hans, en það er líka áríðandi að ná stöðugleika hugarfarsins í þjóðfélaginu. Allir sem vilja vita kannast við að mikill urgur og óvissa er meðal landsmanna. Sýni máttarstólpar þjóðfélagsins ekki trúverðuga tilraun til að draga úr skuldsetningu heimila mun óánægjan vaxa stórum. Neysluvísitalan getur ekki verið heilög. Henni hlýtur að mega breyta á þann veg að opinberar aðgerðir til að stoppa upp í fjárlagagatið hafi ekki áhrif á skuldsetningu heimilanna.
Verði slíkt inngrip hvorki í "blandaðri leið" né í stöðuleikasáttmála er hætt við að aftur sjóði uppúr þegar nær dregur skammdegi. Vill verkalýðshreyfingin það, eða stjórnarflokkarnir?
hágé.
Lýsa furðu á skattahækkunum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
22.5.2009 | 13:54
Þjóðin er ekki í afneitun
Hvort sem okkur vinstri mönnum líkar betur eðe verr er talsverður urgur í fólki útí nýju ríkisstjórnina. Framsóknarmönnum virðist takast nokkuð vel upp með þá hugmynd að lækka eigi skuldir heimila á einu bretti. Steingrímur J. hefur því rangt fyrir sér í því að þjóðin sé í afneitun. Það sést best á öllum neyslu- og innflutningstölum. Þjóðin er þvert á móti í þeim hugleiðingum að spara og gæta eins vel að fjármálum fjölskyldna og mögulegt er.
Vandinn um skuldaniðurfellingu, og trú fjölda fólks á að þar sé einföld leið í boði, er sá að svör ríkisstjórnarinnar eru ekki nógu skýr. Fólk fylgist með að skuldir fyrirtækja eru ýmist felldar niður, að því er virðist, eða lækkaðar verulega, og spyr því þessarar eðlilegu spurningar: Því er ekki sama gert fyrir heimilin? Ef það er rétt, sem framsóknarmenn halda fram, að lán gömlu bankanna (væntanlega einnig íbúðalánin) séu tekin yfir með svo og svo miklum afföllum, er spurning skuldaranna eðlileg. Ég er ekki í hópi þeirra sem heldur að lánaveróldin sé svona einföld, en hin einfalda framsetning Framsóknar kallar á einfalda og auðskiljanlega útskýringu stjórnvalda - hvers vegna geta heimilin ekki notið hluta affallanna á móti nújy bönkunum?
hágé.
Framsóknarmenn í afneitun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
11.4.2009 | 21:43
Er þá allt í lagi?
Það var og. Tveir góðir og gegnir sjálfstæðismenn sóttu tugmilljóna styrk til Landsbanka og FL group rétt áður en ný lög um fjármal flokkanna voru samþykkt. Formaður flokksins hefur sagt að hann beri ábyrgð á styrkjunum sem þýðir að hann þagði við hina flokksforingjanna yfir því sem var að gerast. Á sama tíma skulduðu eigendur Landsbankans 20 milljarða af kaupverði sem þeir sögðust hafa borgað útí hönd. Nokkrum mánuðum seinna fór hið fáránlega Rei - GeysirGreen í gang, hvar Fl var meðal stærstu hluthafa, Er þetta bara allt í góðu lagi? Er þá allt komið fram sem máli skiptir? Í hæsta máta vafasamt.
Helgi Guðmundsson
Allt komið fram sem máli skiptir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
1.12.2008 | 01:31
Eru lífeyrissjóðirnir og verkalýðshreyfingin blind og heyrnarlaus?
Það er þyngra en tárum taki fyrir gamlan félaga í verkalýðshreyfingunni að horfa uppá hvernig hreyfingin og lífeyrissjóðirnir eru um þessar mundir að lenda á bás með bönkum, útrásargæjum, Seðlabanka, ríkisstjórn og þeim fámenna söfnuði sem ber ábyrgð á ástandinu sem brennur á þjóðinni. Undirritaður ætlaði að sinna skyldu sinni á dögunum og mæta á útifundi Alþýðusambandsins á Ingólfstorgi. Það var að sönnu kalt (sem oft hefur verið notuð sem afsökun fyrir lélegri mætingu). Þegar á torgið kom var þar ekki nokkurn mann að sjá, enn síður að félagarnir væru að streyma að úr öllum áttum á þeim tíma sem eðlilegur er fyrir útifundi. Ekki varð með nokkru móti greint að heildarsamtök launafólks hefðu kallað til mótmælafundar gegn ástandi sem á sér engin fordæmi í lýðveldissögunni og kemur til með að brenna á þúsundum heimila seinna í vetur. Fundurinn var að vísu haldinn af sárafámennum hópi í skjóli en þúsundir mæta með listamönnum á Austurvöll hvernig sem viðrar.
Hvað er eiginlega um að vera? Eitt af þeim málum sem brenna hvað heitast á almenningi er lánskjaravísitalan, (verðtrygging með neysluvísitölu) sem réttara væri að kalla ránskjaravísitölu um þessar mundir. Allir vita að lífeyrissjóðirnir verða að tryggja fjármuni sína sem best til að geta greitt sómasamlegan lífeyri þegar þar að kemur. Þessu mótmæla fáir. Hinsvegar spyrja nú þeir sem eru að bugast og munu fara enn verr, þegar líður á veturinn. Er eitthvert gagn að því fyrir sjóðina að gera mig gjaldþrota á besta aldri, jafnvel koma mér og fjölskyldunni út á götuna? Verðtryggingin er með öðrum orðum eitt af því sem fólki er heitast í hamsi útaf um þessar mundir.
Kemur verkalýðshreyfingunni og lífeyrissjóðunum þetta ekki við? Þarf ekki að segja eitt einasta orð um verðtrygginguna, jafnvel þótt hún kunni að vera mikilvæg fyrir lífeyrissjóðina til lengdar? Jú, það verður að tala um verðtrygginguna á hreinskiptin og heiðarlegan hátt.
Fyrst liggur fyrir að spyrja? Er sjálfur grunnur vísitölunnar réttur? Hvaða vit er til dæmis í því að banki eða Íbúðalánasjóður geti keypt jafn mikið brennivín eða sælgæti á hverju sem gengur í samfélaginu? Er rétt að miða verðtrygginguna við neyslu? Getur verið að aðrir og miklu mikilvægari hlutir séu inní vísitölunni, sem þar ættu ekki að vera?
Sjá þeir snjöllu menn sem reikna út getu sjóðanna til að greiða út lífeyri virkilega ekkert umhugsunarvert í regluverki sjóðanna? Sjóðurinn sem undirritaður fær lífeyri sinn úr greiddi helming innborgaðra iðgjalda í eftirlaun og örorkulífeyri á sl. ári. Helming innborgaðra iðgjalda. Vissulega var það ár gott í byggingariðnaðinum, tekjur háar og mikil vinna. Yfirstandandi ár og það næsta verður verulega lakara.
Á meðan Róm brennur hefur nánast ekkert verið um verðtrygginguna sjálfa fjallað, þaðan af síður bent á raunhæfar leiðir til að mæta þeim mikla vanda sem steðjar að. Hefur engum t.d. dottið í hug að kanna áhrif þess að taka kúfinn af verðtryggingunni um tíma, lántaki greiði hana ekki, og gefa kost á að endurreikna hana þegar og ef hann selur húseign sína í betra árferði? Eða hugsanlega að skera kúfinn af en reikna viðkomandi minni lífeyri þegar þar að kemur með öðrum orðum sá sem fer þessa leið tekur út hluta af sínum lífeyri á meðan hann er fullvinnandi. Í stað lífeyris í fyllingu tímans kæmi þá meiri eign í húsnæði. Og síðast en ekki síst það sem blasir fyrir öllum: Verðbólgan er reiknuð eftir neysluvísitölu sem hækkar um þessar mundir, en launavísitalan lækkar. Með öðrum orðum: Þessa mánuðina eru lán oftryggð langt umfram laun. Launin lækka - standa ekki í stað - en lánin hækka. Getur þetta verið rétt?
Þannig eru mörg álitamál sem nú er full ástæða til að taka til skoðunar, sum eru ófær með öllu, af öðrum má taka einhvern anga og enn önnur taka að fullu til greina. Það versta sem gerist er að lífeyrissjóðirnir og verkalýðshreyfingin lendi í sömu óánægjuhakkavélinni og nú ríður húsum. Heiðarlegar upplýsingar er tækið sem dugar best gegn því ástandi. Að láta eins og ekkert sé að gerast er álíka og horfa blindur og hlusta heyrnarlaus.
hágé.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)