Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
24.11.2008 | 16:32
Hvar er verkalýðshreyfingin?
Risin er mikil mótmælaalda, sjálfssprottin, gegn því ömurlega ástandi sem hefur skapast í landinu í kjölfar bankahrunsins, gegn þeim sem bera ábyrgð á því að Íslendingar eru allt einu orðnir eins og bónbjargarmenn í samfélagi þjóðanna þrátt fyrir ríkidæmi, verðmætar auðlindir og fjölbreytta verkþekkingu. Hvern laugardag mæta þúsundir á Austurvöll og haldnir eru margir aðrir mótmælafundir og þess krafist að þeir víki sem bera ábyrgð á ástandinu og ætti engan að undra.
Hvað fer fram á bak við luktar dyr og tjöld um þessar mundir. Um það veit aðeins valinkunnur hópur. Ekki er einu sinni víst að ríkisstjórnin sé með á nótunum, skilanefndir bankanna eða nýkjörin bankaráð. Sagt er að í bönkunum fari nú ýmsir starfsmenn hamförum við að ganga frá skuldum valins hóps skuldara og komi afskriftir æði oft við sögu. Hvað hæft er í þessum sögusögnum er ómögulegt að komast að, því engar haldbærar upplýsingar eru látnar berast til almennings. Svo rammt kveður að upplýsingaþurrðinni að ríkisstjórnin hefur ráðið sér norskan marskálk (eða eitthvað í þá áttina) til að segja sér hvernig eigi að halda upplýsingum frá almenningi, og hvernig eigi að gera fjölmiðlum erfiðara fyrir í að koma upplýsingum á framfæri. Marskálkurinn ráðleggur að blaðamannafundir verði haldnir seint á daginn til að starfsmönnum blaðanna gefist minni tími til að vinna fréttirnar til birtingar morguninn eftir. Og hver birtist svo allt í einu á skjánum eins og skuggapersóna nema Kristján Kristjánsson sem kunnur er að hvössum og gagnrýnum spurningum á meðan hann var fréttamaður sjónvarpsins. Hann sást í svip að stjaka við ráðherrum til að þeir segðu nú ekki meira en marskálkurinn hefur væntanlega ráðlagt.
Fullyrða má að ríkisstjórnin geri á hverjum degi hverja vitleysuna annarri verri í umgengni sinni við háttvirt atkvæði, enda hrapar af henni fylgið dag eftir dag. Að hamla gegn því að réttar upplýsingar berist almenningi eins og í pottinn er búið er vitnisburður um annað tveggja: að valdhafarnir hafi eitthvað að fela eða að þeir skilji ekki þýðingu þess að menntuð þjóð sé vel upplýst á viðsjárverðum tímum. Sögusagnir, gróusögur og annað fleipur eru margfalt verri en sannleikurinn, enda þótt einhverjir kunni að verða honum sárreiðir.
Á hinn bóginn vekur sérstaka athygli, á þeim tímum sem saumað er rækilega að lífskjörum almennings: Það heyrist ekkert í verkalýðshreyfingunni. Hvernig í ósköpunum stendur á því að samtök launamanna láta ekki til sín heyra af miklum krafti? Af hverju hvetja þau ekki félagsmenn sína til að mæta á mótmælafundina? Sagan kennir okkur að fólk hlýðir kalli, þegar mikið liggur við. Listamennirnir sem standa að mótmælunum leggja áherslu á að þau séu ótengd öllum félagssamtökum og flokkum. Verkalýðshreyfingin á ekki að ganga á nokkurn hátt yfir þeirra framtak, en hún á að reyna hvað hún getur til að sannfæra þá um að þeim væri styrkur að samstöðuyfirlýsingum frá verkalýðssamtökunum. Ef listamenn vilja ekki slíkan stuðning geta ástæðurnar einungis verið af tvennum toga: annars vegar að þeir líti á verkalýðssamtökin sem eitrað peð, þau séu á einhvern hátt samsek, beri hluta ábyrgðarinnar á því hvernig komið er. Eða þá hitt að þeir óttist að frumkvæðið verði tekið úr höndum þeirra og mótmælin verði því marklítil.
Ef ástæðan er ætluð ábyrgð verkalýðshreyfingarinnar er það grafalvarlegt mál. Með þögn sinni og aðgerðarleysi kallar hreyfingin yfir sig aukna tortryggni og hættu á að mótmælin snúist líka óbeint gegn henni. Þess verður líka vart í fjölmiðlum að hún er tortryggð, efast er um heilindi fulltrúa hennar í stjórnum lífeyrissjóðanna. Verði ekki brugðið við er hætt við að þolinmæðisþráðurinn styttist.
Forseti Alþýðusambandsins hefur að sönnu verið á fundaferðalagi að undanförnu, en þeir fundir virka sem spjallsamkomur nokkurra manna sem fólk sér ekki ástæðu til að fjölmenna á. Þess ber þó að geta sem vel er gert. Þannig hafa nokkur félög opinberra starfsmanna haldið útifund með Öryrkjabandalaginu og samtökum eldri borgara
Að lokum þetta: Það nær engri átt að samtök launafólks verki á almenning eins og hvert annað ráðuneyti sem steinþegir á hverju sem gengur á sama tíma reiðin ólgar meðal félagsmanna!
hágé.
10.5.2008 | 15:01
Við getum sko hækkað okkar vörur eins og aðrir!
Jóseph er á öður máli. Hann segir að hrísgrjón eða eldsneyti verði ekki lækkuð í verði með hækkuðum vöxtum í landi kaupandans.. Hann gefur hagfræði frjálshyggjunar undanfarin ár ekki háa einkunn og telur stýrivaxtafárið engu betra. Kenning hans hefur þann kost að vera bæði auðskilin og í bærilegu samræmi við heilbrigða skynsemi. Hann segir að hækkun á hverskyns vörum á heimsmarkaði verði ekki mætt með hækkun vaxta af þeirri einföldu ástæðu að þær vörur sem framleiddar eru í viðkomandi landi, hækki vegna vaxtanna, sem auk þess geti leitt til atvinnuleysis. Stýrivextir hafi á hinn bóginn alls engin áhrif á verðlag á heimsmarkaði. Með öðrum orðum: Sé þessi hugmynd Jósephs rétt gerir stýrivaxtahækkun ekki annað en að tryggja að innlend framleiðsla hækki eins og þær vörur sem lúta lögmálum heimsmarkaðar hvað svo sem það annars þýðir.
Við lestur greinarinnar fer maður að velta fyrir sér fyrir hvað verðlaunahafar Nobelsnefndarinnar eru verðlaunaðir þegar hagfræði á í hlut. Ekki verður betur séð en eitt reki sig á annars horn. Hann segir m.a. Á níunda áratug 20. aldar féllu þeir [seðlabankastjórar heimsins] fyrir einfeldningslegri hagfræðikenningu (e. monitarism), sem Milton Friedman hélt á lofti. Eftir að peningahagfræðin var afskrifuð með ærnum tilkostnaði fyrir þau ríki sem létu glepjast af henni hófst leitin að nýju bænaversi.
Nýja bænaversið er verðbólgumarkmiðið að sögn höfundar, vers sem getur ekki með nokkru móti virkað, af þeirri einföldu ástæðu að bensín og aðrar vörur á heimsmarkaði verður ekki lækkað með hækkun vaxta hjá kaupandanum. Hann kallar kenninguna klossaða, litla hagfræði og þar að auki lítið rannsakaða. Jóseph rekur síðan dæmi um ábyrgðalausa stefnu sumra ríkja, eins og Bandaríkjanna sem taka feikilega mikið land til að rækta plöntur sem framleiða má úr eldsneyti, með þeim afleiðingum að verð á matvælum stórhækkar.
Aftur að Nobelsnefndinni. Hún verðlaunaði þá báða Milton og Jóseph, væntanlega fyrir frumlega hugsun í hagfræði eitt rekur sig á annars horn.
Með öðrum orðum: Hafi Jóseph rétt fyrir sér leiða stýrivaxtahækkanir ekki til annars en að hækka innlendar vörur til jafns við þær innfluttu. Við endurtekinn lestur greinarinnar vaknar óneitanlega sá grunur að að greinarhöfundur hafi mikið til síns máls. Hversu oft og ákaft sem bláu höndinni er veifað í Seðlabanka Íslands lækkar ekki bensínið, ekki heldur innfluttar matvörur aftur á móti hækka vörur framleiddar innanlands í takt við hinar innfluttu. Því er líkast sem hagfræðingar og stjórnendur Seðlabankans telji það hlutverk sitt að sjá til þess að innlendu vörurnar tapi ekki leiknum þær skulu fyrr eða síðar hækka jafn mikið og hinar erlendu! Látum ekki útlendinga plata okkur! Verum ekki minni menn en þeir! Við getum sko líkað hækkað okkar vörur ekki síður en aðrir og hafiði það.
hágé.
6.5.2008 | 12:54
Bíða gull og grænir skógar þeirra sem verða gjaldþrota?
Ég hafði varla staðið upp frá lyklaborðinu, eftir að hafa nöldrað yfir vandræðagangi Seðlabankans. Hann kynni engin ráð við efnahagsvandanum annan en þann að hækka stýrivexti. Já, ég hafði rétt lokið pistlinum þegar sjálfur forsætisráðherrann kom í fjölmiðla og var sama sinnis og Þjóðviljinn. Seðlabankinn ætti að lækka vexti á næstunni. Ég ræð að vísu engu um það, bætti hann við og átti þá við ríkisstjórnina í heild.
Ekki trúi ég að forsætisráðherrann liggi yfir bloggsíðum, en merkileg er þessi tilviljun. Kannski hann sé að sjá ljósið? Ég taldi vandlifað um þessar mundir. Rétt eftir að forsætisráðherrann sagði skoðun sína, flutti "merkur fræðimaður" erindi í Háskólanum og sagði að allt færi til andskotans á næstu tveimur árum og ætti að fara þangað. Eftir það færi landið að rísa. Bankarnir væru dauðir - og í guðanna bænum ekki tengjast evrunni. Látið fólk og fyrirtæki verða gjaldþrota, þá lagast ástandið, sagði hann en nefndi ekki það gull eða grænu skóga sem biði þeirra er yrðu gjaldþrota.
Ekki var þessi boðskapur til að hækka risið á landanum. Aftur á móti sagði frá því í fréttum áðan (hádegi 6. maí) að bankarnir væru ekki dauðari en svo að skuldatryggingarálagið erlendis færi nú lækkandi og þeim stæðu til boða lán, sem þeir hefðu ekki einu sinni beðið um. Einn "greiningargúrúinn" lét hafa eftir sér að ástandið væri að lagast.
Það er ekki bara vandlifað, efnahagsleg tilvera þjóðarinnar verður því torskildari sem fleiri "sérfræðingar" segja álit sitt - að ekki sé nú minnst á stjórnmálamennina.
Sjá einnig: http://www.blog.central.is
hágé.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
5.5.2008 | 09:42
Vandlifað
Þegar stóriðju- og virkjanafárið hófst sögðu vísir menn að búast mætti við spennu á vinnumarkaði, hugsanlega nokkurri verðbólgu. Auk þess væri ekki útilokað að Seðlabankinn neyddist til að hækka stýrivexti. Framkvæmdum á vegum ríkisins var frestað um sinn til að draga úr þenslunni og boðað að þær yrðu teknar upp um leið og um hægðist. Þá yrði líka hægt að lækka stýrivextina þannig að lendingin yrði mjúk. Allt gekk þetta eftir en ekki endilega í réttri röð eða með réttum afleiðingum. Spenna varð á vinnumarkaði. Verkafólk kom hingað þúsundum saman til að vinna, ekki bara við stóriðju- og virkjanaframkvæmdir, heldur fjöldamargt annað, ekki síst byggingaframkvæmdir á höfuðorgarsvæðinu.
Stýrivextirnir eru illskiljanlegt fyrirbæri fyrir venjulegt fólk og næstum ómögulegt að átta sig á hvaða tilgangi þeir þjóna í raun og veru. Nú er stóriðjuatganginum lokið í bili. Þá bregður svo við að Seðlabankinn hækkar stýrivexti sem aldrei fyrr, sjálfkrafa hefur dregið úr þenslunni, en verðbólgan hefur ekki verið hærri í háa herans tíð en einmitt um þessar mundir. Skoðum tímasetningarnar aðeins nánar: Þenslan kom og er á förum á réttum tíma. Verðbólgan varð aftur á móti með seinni skipunum og birtist ekki að verulegu marki fyrr en tímabilið var liðið. Og merkilegt nokk: Seðlabankinn kemur stýrivöxtunum í hæstu hæðir á sama tíma án þess að það hafi nokkur áhrif á verðbólguna eftir að þensluskeiðinu lauk.
Og ekki nóg með það: Seðlabankastjóri, hinn mikilvirki Davíð Oddson, talar niður verð á íbúðarhúsnæði um 30% og lætur liggja að enn meiri hækkun stýrivaxta. Með öðrum orðum: Það sem hefði átt að gerast að mati vísustu manna gerðist ekki. Í þessu sambandi er vissulega rétt að halda öllu til haga. Þannig stafa verðhækkanir á influttum vörum að nokkru af hækkunum erlendis, og er ekki margt við því að gera, hvað sem trukkakallar segja.
Hvernig myndi skynsamur almúgamaður bregðast við þessu ástandi, hafandi aldrei gengið um hin glæsilegu húsakynni Seðlabanka Íslands? Hann myndi væntanlega hugsa sem svo: Til að mæta hinum erlendu hækkunum, gerum við innlendum fyrirtækjum og heimilum kleift að komast betur af með innlendum ráðstöfunum. Það er meðal annars kosturinn við að vera ekki í Evrópusambandinu þegar svona stendur á. Reynum því að lækka innlenda kostnaðinn eins og hægt er á móti erlendu hækkununum.
Hvað gera bændur til þess? Þeir byrja á að lækka hina óskiljanlegu stýrivexti og þar með vaxtakostnað bæði fyrirtækja og heimila. Þarna er áreiðanlega talsvert að vinna. Þeir segja sem svo: Jú, kannski er of mikið byggt sunnanlands um þessar mundir, hægjum á þeirri ferð, en stöðvum hana ekki. Hvernig þá? Með stóreflingu Íbúðalánasjóðs, (bankarnir eru með allt niðrum sig og verða að bjarga sér) þannig að hann geti lánað til eðlilegs framhalds í byggingariðnaði. Fyrirtæki í framleiðslu og útflutningi eru ekki í svo slæmum málum, verð er almennt hátt á framleiðsluvörum þeirra og lítill vandi að selja. Um leið og vextir lækka á fyrirtækjum almennt batnar hagur þeirra og möguleikar til að bæta kjör hinna lakast settu.
En því miður. Seðlabankastjórinn og aðrir ráðamenn þjóðarinnar eru gleymnari en æskilegt má teljast. Þeir muna nú ekkert af því sem sagt var fyrir þensluna, lækka ekki vextina alræmdu og gefa atvinnulífinu heldur ekki neina innspýtingu. Þess í stað tala þeir eins og réttast sé að skrúfa fyrir alla skapaða hluti. Ekki kaupa neitt segir Geir, sparið og sparið. Ekki kaupa og selja fasteignir. Þær eiga eftir að lækka um 30% segir Davíð Oddsson. Í stuttu máli sagt. Hér er greinilega ætlunin að gera lendingun eins harkalega og mögulegt er, rétt eins og nú sé komið að skuldadögum og nauðsynlegt að taka upp refsingar við hæfi.
Það er sannarlega vandlifað í henni veröld:
hágé.
12.4.2008 | 10:53
Hvernig er umhorfs í Köldum kolum?
Nú situr nefndur Davíð í forsæti Seðlabankans og lætur til sín heyra og taka eins og fyrri daginn. Hinsvegar gerist það nú, sem ekki var vaninn áður fyrr, að allt sem hann tekur sér fyrir hendur í nafni þeirrar virðulegu stofnunar mistekst í besta falli, en er líklega jafn oft til bölvunar.
Síðasta útspilið var að hækka stýrivexti í 15,5% í því skyni að skjóta niður verðbólguna. Hún vex aftur á móti í réttu hlutfalli við hækkanir bankans á nefndum vöxtum. Engin teikn eru um að vaxtahækkanirnar hafi hin minnstu áhrif til lækkunar verðbólgu. Gengur reyndar maður undir manns hönd að segja Davíð og Hannesi Hólmsteini (hann situr að sjálfsögðu við hlið meistarans í stjórn "Seðlabankans" ásamt Dóra Blöndal og fl.) að hætta þessum asnaskap. Nú síðast tala hagfræðingar opinskátt um að hreinsa verði til í bankanum, hann sé gagnslaus stofnun eins og honum sé stjórnað.
Sanngjarnt er að reikna mönnum til tekna það sem þeir segja af viti. Þannig sagði Davíð á ársfundi "Seðlabankans" á dögunum að bankar ættu að bjarga sér sjálfir, þeir hefðu ekki verið seldir með ríkisábyrgð. Hefði svo verið hefði verðið orðið miklu hærra. Það var hreint ekki vonum fyrr að ábyrgur maður tæki af skarið í þessum efnum, eins og fjölmiðlar og virtir sérfræðingar hafa hver um annan þveran hamrað á því að Seðlabankinn og ríkið verði að koma bönkunum til bjargar í þeim hörmungum sem yfir þá ganga um þessar mundir.
Flest annað sem haft hefur verið eftir bankastjóranum á nefndum fundi bendir til þess að hann hafi vaknað úrillur að morgni fundardagsins. Þannig sagði hann að verð á íbúðarhúsnæði myndi lækka um 30% á næstu misserum og hafi ég skilið rétt: atvinnuleysi verða 5 6%, þá fyrst myndi verðbólgan lækka. Svo mörg voru þau orð. Var einhver að nefna að tala mætti verð á verðbréfum, jafnvel peningum upp eða niður eftir atvikum? Þarf þá atvinnuleysi til að lækka verðbólguna en ekki hækkun stýrivaxta? Í stuttu máli: bankastjórinn er hér að staðhæfa að allt sé að hrynja til kaldra kola.
Á meðan bankastjórinn geðvonskast í Svörtuloftum hafa samtök atvinnurekenda ákveðið að láta kanna ítarlega hvort fyrirtæki innan samtakanna geti tekið upp evru í viðskiptum sín í milli, borgað laun í evrum og verðlagt vörur sínar í sama gjaldmiðli. Eftir því sem best verður séð koma engin lagaákvæði í veg fyrir að þetta sé hægt. Hefur slíkt fyrirkomulag reyndar tíðkast í litlum mæli árum saman, með því að erlendum ferðamönnum er boðið að greiða fyrir margvíslega vöru og þjónustu í erlendum gjaldeyri.
Atvinnurekendur eru með öðrum orðum steinuppgefnir á "Seðlabankanum". Samtök þeirra hafa margsinnis bent á að bankinn sé með öllu gagnslaus í baráttunni við verðbólguna. Taki fyrirtækin upp evru hlýtur að koma upp spennandi ástand sem ekki sér fyrir endann á. Verðmerkingar í búðum hlytu þá að verða í krónum og evrum. Við gætum hugsað okkur að mjólkurlítrinn kosti 100 íslenskar krónur, eða eina evru. Viðskiptavinurinn hlyti að geta valið, ekki satt, um að borga með evrum eða krónum.
Hverjir gætu borgað með evrum í því tvöfalda kerfi sem komið yrði upp? Væntanlega engir aðrir en þeir sem fengju útborgað í evrum eða hefðu á annan hátt aðgang að gjaldmiðlinum. Myndi ríkissjóður greiða sínu starfsfólki í evrum, eða sveitarfélögin? Fengju öryrkjar og aldraðir greitt í evrum? Nei, að sjálfsögðu ekki. Ríkissjóður greiðir í þeim gjaldmiðli sem hann er rekinn á, sömuleiðis sveitarfélögin en fyrirtækin í sínum. Eftir því sem lengur er hugsað um svona fyrirkomulag verður maður heimóttarlegri og skilningssljórri á svipinn og spyr sjálfan sig: hvernig er eiginlega umhorfs í því Kalda koli sem Davíð Oddson boðar? Ætli þar séu enn nagaðir blýantar eins og Jón Baldvin sagði forðum?
hágé.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.4.2008 | 12:17
Geðhjálp úr ÖBÍ?
Félagið Geðhjálp hefur undanfarið látið sterklega að því liggja að það hygðist segja sig úr Öryrkjabandalaginu. Ástæðan er aðallega sú að Hússjóður ÖBÍ er að mati félagsins ekki nægilega vel rekinn, en auk þess hafa komið fram efasemdir um það hjá framkvæmdastjóra félagsins að samtökin eigi yfir höfuð að standa í leiguíbúðarekstri, það verkefni eigi að vera á hendi sveitarfélaga.
Nú er það svo að rekstur Hússjóðsins getur ekki verið hafinn yfir gagnrýni, undirritaður hefur sjálfur búið í íbúð á vegum sjóðsins og varð nokkuð oft var við óánægju leigjenda með viðbrögð við beiðnum um lagfæringar. Að öðru leyti var ekki yfir neinu sérstöku að kvarta, Öryrkjabandalagið reyndist fjölskyldu minni ágætur leigusali.
Í eigu sjóðsins munu nú vera allmargar íbúðir sem of illa hefur verið haldið við og svara ekki kröfum tímans. Geðhjálp hefur meðal annars gagnrýnt þetta ástand og Sigursteinn Másson sagði af sér formennsku í ÖBÍ að sögn vegna ágreinings um starfssemi Hússjóðsins. Að félagið segi sig úr samtökunum af þessum ástæðum er í hæsta máta vafasamt, enda getur varla verið fullreynt að eignir og starfsemi Hússjóðsins verði tekið til frekari skoðunar og umbóta
Öryrkjar þurfa á öllum sínum samtakamætti að halda. Að einstök félög segi skilið við bandalagið, vegna ágreinings sem á að vera hægt að leysa og er í eðli sínu skammtímaágreiningur, skemmtir einungis skrattanum, gerir samtökin máttminni til að berjast fyrir hagsmunum félagsmanna sinna. Þeir þurfa sannarlega á öðru að halda en sundruðum samtökum. Það getur ekki verið tilviljun að öryrkjar sáu á sínum tíma ástæðu til að stofna með sér heildarsamtök. Tilgangurinn liggur í augum uppi með því að vinna saman sem ein heild næst bestur árangur.
Að samtökin eigi ekki að reka leiguhúsnæði fyrir félagsmenn sína finnst mér ekki umdeilanlegt. Sveitarfélögin, einkum lítil sveitarfélög úti á landi hafa ekkert bolmagn til að sjá fötluðu fólki fyrir sómasamlegum íbúðum, um það vitna langir biðlistar eftir íbúðum. Í annan stað á skynsamlega rekinn Hússjóður að vera metnaðarmál og stolt samtaka öryrkja. Það veitir þeim sjálfstraust og fullvissu um getu á sviði sem hið opinbera sinnir ekki eins og skildi. Þar að auki veit undirritaður ekki betur en íbúðir Öryrkjabandalagsins sé reistar fyrir hlutdeild samtakanna í Lottóhagnaði. Ef hússjóðurinn hætti starfsemi (svipuð viðhorf hafa heyrst frá Sjálfsbjörgu sem undirritaður er félagi í) þá má spyrja: í hvað á að nota þennan hagnað, eða mun ÖBÍ afsala sér honum?
Forystumenn Geðhjálpar hafa einatt verið mjög öflugir talsmenn, bæði fyrir sitt fólk og öryrkja almennt. Að missa félagið út úr ÖBÍ yrði því tilfinnanlegur skaði fyrir samtökin, þau þurfa sannarlega á öllum sínum liðstyrk að halda. Deilur um Hússjóðinn og rekstur hans á að leysa, með samningum, lagni og þolinmæði. Rekstur hans getur ekki verið svo heilagur að þar megi ekki gera betur og öllum á að vera ljóst að íbúðir fyrir fólk með sérþarfir þurfa mikið viðhald og algerra endurbóta við með tímanum. Í byggingariðnaði er einatt talað um að húsnæði þurfi endurbyggingar og stórkostlegrar lagfæringar við tvisvar til þrisvar á öld. Þokkalega byggð steinhús eiga að standa að minnsta kosti hundrað ár og miklu lengur ef vel er um þau hirt. Í þessu sambandi má nefna til gamans að yfirmaður fasteigna hjá norsku konungsfjölskyldunni sagði nauðsynlegt að taka sjálfa konungshöllina í gegn á 50 ára fresti!
Undirritaður getur því miður ekki hrósað sér af því að hafa verið virkur í samtökum öryrkja. Þannig er um miklu fleiri og hafa afar margir það sér til málsbóta að hafa ekki orku eða heilsu til að sinna félagsstörfum. Fari Geðhjálp út úr samtökunum er mikill skaði skeður, því samtökin hafa oft haft á að skipa mjög öflugum talsmönnum, sem geta komið öllum öryrkjum til góða.
hágé
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.4.2008 | 12:09
Hring eftir hring
Ekki er heiglum hent um þessar mundir að átta sig á því sem er að gerast í völundarhúsi alþjóðlegrar hagfræði og peningamála. Því er líkast sem óvandvirkir vefarar hafi ofið svo flókinn vef hagfræðilegra hugtaka og orðatiltækja að engin leið er að skilja hvað er á seyði.
Sumt er þó nógu einfalt til þess að hagsýn húsmóðir (af hvoru kyni sem hún er) getur sæmilega auðveldlega áttað sig á hlutunum. Þannig virðist sem bankarnir hafi tekið hærri lán í útlöndum en þeir eru borgunarmenn fyrir. Lánin hafa þeir tekið með tilteknum vöxtum í því skyni að lána féð áfram viðskiptavinum sínum, bæði hér innan lands og erlendis. Auðskilið, enda er bankastarfsemi byggð á þessu einfalda reikningsdæmi taka lán á lágum vöxtum til að geta lánað öðrum á háum vöxtum og skilja allir hvert mismunurinn rennur.
Vandinn sýnist hinsvegar felast í því að lánin sem þeir fengu eru til miklu skemmri tíma en þau sem þeir veittu. Þessu höfðu þeir hugsað sér að mæta með því að taka ný lán erlendis til að greiða upp fyrri lánin og þannig koll af kolli árum saman. Á meðan greiða skilvísir lántakar af sínum lánum, jafnvel í 40 ár. Nú bregður aftur á móti svo við að útlendir lánveitendur vilja ekki lána þeim íslensku nema með miklu verri kjörum en áður. Þá kemur auðvitað babb í bátinn, svo mikið að viðurkenndir sérfræðingar og stjórnmálamenn telja jafnvel óhjákvæmilegt að ríkið taki stórlán erlendis til að styrkja gjaldeyrisvarasjóðinn, og veita bönkunum greiðari aðgang að honum, þannig að þeir geti borgað. Eða þá að ríkið kaupi þau skuldabréf sem bankarnir eiga að borga, þannig að þeir borgi ríkinu en ekki erlendum lánardrottnum.
Nú fer dæmið að gerast torskilið: ríkið kaupi upp skuldir bankanna erlendis? Fyrst þarf auðvitað að komast að því hvort umrædd skuldabréf séu yfirleitt til sölu og þá með hvaða kjörum. Gæti ekki verið að eigendur bréfanna segðu við ríkisstjórn: Jú, elskurnar mínar, ekki nema sjálfsagt að selja ykkur bréfin, en þið áttið ykkur á að ávöxtunarkrafan hefur hækkað umtalsvert, ástandið á fjármálamörkuðum heimsins er þannig, eins og þið vitið, að hvergi er á vísan að róa. Við þurfum líka að taka lán með hærri vöxtum en áður.
Þegar hér er komið er tilefni til að klóra sér í höfðinu dágóða stund: hvaða afleiðingar hefur þetta? Einhvernsstaðar verður ríkið að útvega sér gjaldeyri til að kaupa upp skuldabréfin. Nei, förum heldur hina leiðina. Ríkissjóður tekur sjálfur lán, leggur inní Seðlabankann sem aftur lánar bönkunum til að þeir geti staðið í skilum. Og nú flækist málið enn:
Skuldlaus ríkissjóður, sem fyrir fáum árum seldi bankana einkaaðilum, tekur stórlán erlendis (og hættir þar með að vera skuldlaus) til þess að bjarga sömu bönkum. Eru þá hinir einkavæddu bankar ekki komnir undir handarjaðar ríkisins, svo stappar nærri að þeir séu þjóðnýttir á ný? Allir vita jú að engin sæmilega ábyrg ríkisstjórn lætur stærstu fjármálastofnanirnar velta á hliðina, bara rétt si sona, eins þótt því hafi verið haldið fram af mikilli sannfæringu að einkaaðilar séu miklu betur til þess fallnir en ríkið að reka banka. Hér er því líkast sem einhver hringur sé að lokast.
Enn flækist málið og er nú komið að mörkum hins óskiljanlega í æðri fjármálavísindum. Inn- og útstreymi gjaldeyris er sagt hafa áhrif á gengi krónunnar. Mikið innstreymi hækkar krónuna (eða var það kannski öfugt?). Þegar ríkið tekur stórlán fyllast hyrslur Seðlabankans til dæmis af evrum. Þá hækkar krónan. Staða útflutningsatvinnuvega versnar en innflutnings batnar og væntanlega á þá að draga úr verðbólgu. En hvernig var það: ef krónan helst há kallar það ekki á aukna eyðslu innan lands og þar með þenslu sem við verðum að sögn að losna við fyrir hvern mun? Hér verður ekki betur séð en að annar hringur lokist, en um leið er rétt að árétta að á þessu stigi málsins er hver hagsýn húsmóðir væntanlega komin yfir mörk hins skiljanlega.
Við höfum að sögn búið við mesta góðæri Íslandssögunnar undanfarin áratug. Ríkisstjórn Framsóknar og Sjálfstæðisflokk notaði þetta tímabil til að selja ríkiseignir og breyta sköttum þannig að þeir eru nú miklu léttari á þeim sem hafa háar tekjur en lágar. Þetta hefði hagsýn húsmóðir ekki gert. Hún hefði safnað í olíusjóð með því að breyta ekki sköttunum (hugsanlega þó létt þá á þeim sem hafa lítið milli handanna) og sennilega látið ógert að selja ríkiseignir, en ef hún hefði gert það hefði hún bætt andvirðinu í sjóðinn. Hann væri þá orðinn ansi gildur, svo gildur að ekki þyrfti að taka erlent lán til að bjarga bönkunum, heldur einfaldlega kaupa erlendan gjaldeyri og leggja inn í Seðlabankann. Þannig væri ríkissjóður skuldlaus og ágætlega búinn undir að bjarga bönkunum af eigin rammleik svei mér þá ef niðurstaðan af þessum vangaveltum er ekki sú að á einhvern hátt hafi verið kolvitlaust gefið í góðærinu.
hágé.
28.3.2008 | 11:42
Þjóðviljinn um Heilsuverndarstöðina ehf.
Heilsuvernd með réttu bankakorti
Heilsuverndarstöðin ehf., sem starfar samkvæmt leyfi heilbrigðisráðuneytisins, hefur tilkynnt um samstarf fyrirtækisins við Kaupþing. Þeir viðskiptavinir bankans sem hafa tiltekin kort fá forgang að þjónustustöðvarinnar, en auk þess betri kjör en aðrir.
Nú er best að fara varlega í fullyrðingar, þar sem orðin einkavæðing og einkarekstur í heilbrigðisþjónustu vefjast fyrir mörgum. Um árabil hafa einkaaðilar veitt sjúklingum þjónustu af ýmsum toga, en almannatryggingar greiða kostnaðinn (að sínum hluta). Við sem erum andvíg einkavæðingu heilbrigðisþjónustu höfum í raun ekki haft við þetta margt að athuga, enda liggja sterk rök til þess að afköst heilbrigðisþjónustunnar hafi aukist með þessum hætti. Heilsugæslustöðvar á vegum hins opinbera og læknamiðstöðvar á vegum lækna virðast hafa gengið ágætlega saman, allt eftir aðstæðum á hverjum stað. Hér skal þó tekið fram að undirrituðum er ekki kunnugt um samanburð á kostnaði þessara tveggja rekstrarforma.
Með samningi við Kaupþing er Heilsuverndarstöðin ehf. hinsvegar að fara inná nýja braut. Hún virðist ætla að raða sjúklingum í forgang eftir viðskiptum þeirra við þriðja aðila. Ef þú ert "góður" viðskiptavinur Kaupþings og færð gullkort eða platínukort (hvað svo sem öll þessi kort bankans annars heita) þá ertu sjálfkrafa framar í röðinni hjá Heilsuverndarstöðinni en þeir sem ekki hafa slík kort. Hvernig þetta á að fara fram er undirrituðum ekki ljóst, en það hlýtur að gerast þannig að sjúklingar sem til stöðvarinnar leita verða fyrst spurðir hvort þeir séu með hin umræddu kort. Við getum hugsað okkur að 20 manns séu á biðstofu stöðvarinnar. Þá hljóta ritarar að kalla upp: Þeir sem hafa gull- eða platínukort hjá Kaupþingi, vinsamlegast setjist á stólana hægra megin. Þar á eftir eru þeir afgreiddir fyrst, greiða auk þess lægra gjald að sögn, síðan kemur röðin að hinum.
Enda þótt þjónusta Heilsuverndarstöðvarinnar ehf. sé ekki beinlínis einkavæðing heilbrigðisþjónustu eins og almennt er á hana litið er hér farið inná braut sem er óhjákvæmilegur fylgifiskur einkavæðingar. Sjúklingur sem hefur tiltekin viðskipti við þriðja aðila hefur forgang að þjónustu stöðvarinnar. Hér er verið að blanda saman gersamlega óskyldum hlutum. Getur það virkilega komið lækni við hver er viðskiptabanki sjúklingsins? Í fljótu bragði verður þar að auki ekki betur séð en að forgangur af þessu tagi sé ólöglegur. Læknar eiga að veita sjúklingi það þjónustu sem í þeirra valdi stendur, óháð efnahag eða öðrum þáttum. Getum við átt von á því að sá sem verslar fyrir tiltekna upphæð, t.d. í Nóatúni eða IKEA, komist í forgangsröðina? Hvar endar sú þróun sem hér er greinilega komin í gang?
Og það er fleira merkilegt við starfsemi þessa fyrirtækis. Á heimasíðu þess stendur meðal annars:
"Helstu verkefni:
Hjúkrunarstörf innan bráðadeilda sjúkrahúsa, hjúkrunarheimila, dvalarheimila, heilsugæslustöðva,..." Dokum aðeins við: Getur verið að innan tíðar verði allt komið í graut á spítölum, hjúkrunarheimilum, dvalarheimilum og heilsugæslustöðvum landsins. Þar starfi starfsfólk viðkomandi stofnunar og við hlið þess starfsfólk Heilsugæslustöðvarinnar ehf. væntanlega þar á ofan á allt öðrum kjörum en fastráðnir starfsmenn?
Ef þetta er ekki að smeygja einkavæðingunni með ísmeygilegum hætti uppá þjóðina er ég illa svikin. Að koma henni á smátt og smátt, undir því yfirskyni að mismunandi rekstrarform geti farið saman, er líklegasta leiðin til að koma einkavæðingu í kring í rólegheitum og það án þess að nokkur taki eftir.
hágé.
27.3.2008 | 11:41
Þjóðviljinn um stimpilgjöld
Er afnám stimpilgjalda félagsleg aðgerð?
Talsvert hefur verið rætt um að hætta að taka stimpilgjöld vegna "kaupa á fyrstu" íbúð eins og það er líklega orðað í stjórnarsáttmála. Hugmyndin er í hæsta máta undarleg og áreiðanlega dregin fram til þess að segja þó eitthvað sem hugnast gæti ungu fólki.
Hvers vegna er hún undarleg? Stimpilgjöld virka eins og skattur, enda þótt þau hafi að líkindum verið sett á upphaflega sem einskonar staðfesting á því að viðkomandi þinglýsing hafi örugglega verið færð i bækur sýslumanna. Gjöldin eru há fyrir nánast alla og einatt koma þau fólki beinlínis í opna skjöldu - ekki hefur verið reiknað með þeim þegar viðskipti eru gerð. Að létta þeim af, vegna kaupa á fyrstu íbúð er nánast óframkvæmanlegt eins og bent hefur verð á í grein í Morgunblaðinu. Hugtakið "fyrsta íbúð" er fyrir löngu orðið úrelt, enda að stofni til frá þeim tímum sem eignaskipti voru langt í frá jafn algeng og nú. Þá var líka reiknað með að eftir að sambýlisfólk hefði komist yfir fyrstu íbúðina, hefði það eignast höfuðstól sem dygði til endurnýjunar húsnæðis, þótt hitt væri í raun býsna algengt, að fólk eignaðist hús eða íbúð einu sinni á ævinni.
Nú er öldin önnur. Skilnaðir algengir, fólk sem tekur saman þar sem annar aðilinn hefur átt íbúð með fyrri maka - hvað á að gera í slíku tilfelli þegar íbúð er keypt? Hver er þá að kaupa fyrstu íbúð? Væntanlega sá sem átti enga fyrir, en hvað um þann aðilann sem átti hálfa íbúð á móti öðrum? Ber þá að greiða 25% af réttu stimpilgjaldi í slíku tilfelli. Í annan stað: Fólk lendir á fjárhagslegum hremmingum, þarf að endurfjármagna skuldir sínar, missir jafnvel íbúðirnar ofan af sér áður en það tekst. Hvers á það að gjalda ef það nær sér á strik? Ekki sýnist minni þörf á að fella gjöldin niður af því fólki.
Nei, annaðhvort á að taka stimpilgjöld af öllum þinglýstum gerningum eða ekki. Að sleppa einum þjóðfélagshóp við gjöldin er hrein og klár mismunun og getur ekki staðist almenna jafnræðisreglu. Að gjöldin séu svo há sem raun ber vitni er allt annað mál. Vel má hugsa sér að þau verði færð niður og ekki höfð hærri en sem nemur kostnaði embættanna við að ganga frá skráningu skjalanna. Þá hættir gjaldið um leið að vera skattur og varla lengur tilfinnanlegt að greiða það.
Að beita niðurfelingu stimpilgjalda fyrir tiltekinn hóp, virkar eins og hver önnur, en algerlega fráleit, félagslega aðstoð. Slíka aðstoð á að veita á allt annan hátt.
hágé.
23.3.2008 | 21:10
Þjóðviljinn
Einkennileg þögn um páska
Þessir páskar eru að því leyti einkennilegir að það er eins og þjóðin haldi niðri í sér andanum og bíði þess sem verða vill á þriðjudag. Hún þegir en hefur sterklega á tilfinningunni að í "reykfylltum" herbergjum sé nú verið að ráðum sem varða hana alla. Seðlabankinn ku vera að hugleiða að greiða bönkunum leið að meiri peningum en hingað til, jafnvel einnig að hækka vexti.
Þegar forstjóri Kauphallarinnar var spurður hvort bankarnir stæðu ekki fyrir því gjaldeyrisbraski sem lækkað hefði krónuna svo hressilega, vék hann sér í rauninni undan að svara. Hafi bankarnir komist yfir mikinn gjaldeyri fyrir fáum dögum þýðir það að þeir eiga nú gjaldeyri keyptan á útsölu og hafa því hagnast verulega, og veitir líklega ekki af.
Fréttastofurnar tala í véfréttastíl um að mikið standi til. Fyrirtæki muni sameinast strax eftir páska, einkum bankar, önnur verði jafnvel tekin af skrá Kauphallarinnar. Almenningur er í raun leiksoppur þess sem gerist, og stjórnvöld að nokkru líka að því er virðist. Bankarnir voru seldir einkaaðilum og þeim gefið ótakmarkað frelsi til að athafna sig. Þetta frelsi notuðu þeir óspart en nú er því líkast að þeir hafi farið offari, reist sér hurðarás um öxl.
Úr byggingabransanum berast þær fréttir að bankarnir séu beinlínis lokaðir þeim sem leita eftir lánum til húsnæðiskaupa, Íbúðalánasjóður einn sé opinn í þessu skyni. Erlendir fjármálafjölmiðlar láta að því liggja, ganga jafnvel svo langt að staðhæfa, að bankarnir verði þjóðnýttir á nýjan leik. Fari svo hefur einkavæðingin snúist algerlega upp í andhverfu sína - kaupendur hafa keypt ríkisbanka sem ríkið ábyrgist áfram.
Þetta er í rauninni nóg umhugsunarefni í bili, best að hafa hljótt um sig og sjá hvað gerist á þriðjudaginn. Einkennilegir tímar fyrir okkur sem munum þá tíð að dollarinn (sem var reyndar ekki á lausu fyrir hvern sem var) kostaði árum saman um 16,00 gamlar krónur.
hágé.